Kartöfluskortur en engin tollalækkun

17.04.2019
Í þessari verslun voru eingöngu til bökunarkartöflur um hádegisbil í dag. Þær eru frá Bretlandi og fluttar inn án tolla, enda engin innlend framleiðsla á bökunarkartöflum.

Kartöfluskorts er tekið að gæta í verslunum, en lítið sem ekkert framboð er af innlendum kartöflum af viðunandi gæðum. Atvinnuvegaráðuneytið hefur ekki orðið við beiðnum innflytjenda um að afnema tolla á kartöflum vegna ónógs framboðs. Sú neitun kemur niður á hagsmunum neytenda, enda verða innfluttar kartöflur þá mun dýrari en þær ættu með réttu að vera.

Samkvæmt upplýsingum, sem Félag atvinnurekenda hefur aflað sér, er nú nánast ekkert til í landinu af innlendum kartöflum í söluhæfum gæðum. Innflutningsfyrirtæki hafa frá því í byrjun síðustu viku ýtt á atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið (ANR) að bregðast við, en það er á valdi ráðherra að lækka tolla á innflutningi við þessar aðstæður.  Stærsti birgi innlendra kartaflna, Sölufélag garðyrkjumanna, hefur hvatt ráðuneytið til að afnema tollana þannig að hægt verði að flytja inn kartöflur á hagstæðu verði fyrir neytendur. Um er að ræða venjulegar matarkartöflur af stærðinni 3,5 til 5,5 sentímetrar.

Enginn skortur, segir ráðuneytið
Ráðgjafarnefnd um inn- og útflutning landbúnaðarvara, sem starfar í ANR, á lögum samkvæmt að gera tillögu til ráðherra um afnám tolla vegna skorts á búvörum á innanlandsmarkaði. Nefndin hefur svarað erindum innflytjenda og vísað til þess að samkvæmt 2. mgr. 65. gr. A. búvörulaga nr. 99/1993, teljist framboð ekki nægjanlegt „ef viðkomandi vara er ekki til stöðugrar dreifingar eða áætla má að hún verði það ekki í að lágmarki 90% af eftirspurn a.m.k. tveggja leiðandi ótengdra dreifingaraðila og er ekki fáanleg frá a.m.k. tveimur framleiðendum. Ákvæðið gerir kröfu um að bæði tveir leiðandi dreifingaraðilar og tveir framleiðendur anni ekki eftirspurn.“

Nefndin segist hafa aflað upplýsinga frá dreifingaraðilum og framleiðendum dagana 11.-17. apríl. „Miðað við fyrirliggjandi gögn telur nefndin að það skilyrði laganna um að a.m.k. tveir dreifingaraðilar hafi gert líklegt að vara væri eða yrði ekki til stöðugrar dreifingar sé uppfyllt. Hins vegar hefur rannsókn nefndarinnar ekki leitt í ljós að varan sé ekki eða verði ekki fáanleg hjá a.m.k. tveimur framleiðendum þar sem að 2 framleiðendur segja talsvert til af kartöflum og því ekki um skort að ræða. Telur nefndin því ekki að skilyrði 2. mgr. 65. gr. A. búvörulaga séu uppfyllt og því sé ekki um skort eða yfirvofandi skort að ræða í skilningi ákvæðisins. Með vísan til framangreinds telur ráðgjafanefnd um inn- og útflutning landbúnaðarvara ljóst að ekki er vöntun á kartöflum í skilningi 65. gr. A búvörulaga nr. 99/1993,“ segir í svari nefndarinnar.

Þar kemur fram að nefndin muni þó fylgjast grannt með stöðu mála og afla upplýsinga að nýju þann 23. apríl nk.

Innflutningsverðið tvöfaldast vegna tolla
Á innfluttar kartöflur leggst 30% verðtollur og auk þess 60 króna magntollur á kíló. Það þýðir að verði fluttar inn kartöflur til að bregðast við skortinum má gera ráð fyrir að innflutningsverð þeirra geti tvöfaldast, sem hefur að sama skapi áhrif til hækkunar á útsöluverði til neytenda.

„Þetta er algjörlega óviðunandi afgreiðsla á málinu,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda. „Það er vitað að talsvert er til af kartöflum í landinu, en það liggur jafnframt fyrir að nánast ekkert af innlendu framleiðslunni er af þeim gæðum sem neytendur sætta sig við, enda síðastliðið sumar blautt og óhagstætt framleiðendum. Að meta það svo að ekki sé yfirvofandi skortur er fráleitt og þýðir að innflytjendur missa dýrmætan tíma, sem það tekur að panta og flytja til landsins vöru sem svarar kröfum neytenda. FA hefur lengi gagnrýnt það ákvæði búvörulaganna sem nefndin vísar til, en það leggur það í raun í vald innlendra framleiðenda búvara að ákveða hvort þeir fái erlenda samkeppni, óháð því hvort þeir eigi í raun nóg af viðkomandi vöru í söluhæfum gæðum. Við skorum á ráðuneytið að taka ákvörðun sem tekur mið af hagsmunum neytenda. Það er algerlega óboðlegt að einstaka framleiðendur geti með órökstuddum yfirlýsingum um birgðir sínar ráðið skattheimtu ríkissjóðs.“

Umfjöllun á ruv.is 17. apríl 2019
Umfjöllun í hádegisfréttum RÚV 20. apríl 2019
Viðtal við Ólaf Stephensen í kvöldfréttum RÚV 23. apríl 2019

Nýjar fréttir

21. desember 2024
21. desember 2024

Innskráning