Kemur í hlut dómsmálaráðuneytisins að svara spurningum FA um lögmæti netverslunar með áfengi

30.08.2021
Skjáskot af vefverslunum með áfengi. Smelltu á myndina til að stækka hana.

Félag atvinnurekenda ítrekaði í síðustu viku erindi sitt til fjármálaráðuneytisins, þar sem farið var fram á skýr svör um lögmæti netverslunar með áfengi. Fjármálaráðuneytið hefur nú áframsent erindið á dómsmálaráðuneytið, en FA telur brýnt að fá hið fyrsta skýr svör um afstöðu stjórnvalda til netverslunar með áfenga drykki. Slík verslun fer nú fram með ýmsu formi og hugsa æ fleiri fyrirtæki sér til hreyfings á þessum nýja markaði.

Í ítrekunarbréfi FA er rifjað upp að félagið fór fram á svör við spurningum sínum frá 9. ágúst sl. innan tveggja vikna, vegna mikilvægra hagsmuna félagsmanna í FA. „Í þessu máli er sú afar sérkennilega staða uppi, eins og rakið var í fyrra erindi FA, að fjármála- og efnahagsráðherra segir að netverzlun með áfengi sé lögleg en undirstofnun ráðuneytisins, Áfengis- og tóbaksverzlun ríkisins, er á öðru máli og hefur kært netverzlanir til löggæzlu- og skattayfirvalda,“ segir í erindinu. „Jafnt fyrir ný fyrirtæki, sem vilja hasla sér völl á þessum markaði, og fyrir núverandi innflytjendur og framleiðendur áfengis, sem telja sér ekki annað fært en að bregðast við nýrri samkeppni, er óvissa í þessum efnum afar bagaleg.“

FA minnti ráðuneytið á ákvæði stjórnsýslulaga um leiðbeiningarskyldu stjórnvalda, og jafnframt á skyldu stjórnvalda samkvæmt sömu lögum til að áframsenda erindi svo fljótt sem unnt er, telji það sig ekki réttan aðila til að svara. Í framhaldinu fékk FA svar frá fjármálaráðuneytinu síðastliðinn föstudag, þar sem beðist er afsökunar á drætti málsins og tilkynnt að málið hafi verið áframsent til dómsmálaráðuneytisins, sem fari með áfengislög.

Spurningarnar sem FA beindi til fjármálaráðuneytisins, og nú kemur í hlut dómsmálaráðuneytisins að svara, eru:

  1. Er netverslun áfengisframleiðenda með staðfestu á Íslandi, líkt og fer fram á bjorland.is, í
    samræmi við lög?
  2. Er netverslun fyrirtækis með staðfestu í öðru EES-ríki, sem afhendir vörur til neytenda beint
    úr vöruhúsi á Íslandi, í samræmi við lög?
  3. Er netverslun fyrirtækis með staðfestu í ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins (t.d. Bretlandi)
    sem afhendir vörur til neytenda beint úr vöruhúsi á Íslandi, í samræmi við lög?

Erindi FA til fjármálaráðuneytisins
Bréf fjármálaráðuneytisins til dómsmálaráðuneytisins

Nýjar fréttir

21. desember 2024
21. desember 2024

Innskráning