Kynferðisleg áreitni og ofbeldi verði ekki liðin

12.12.2017

Stjórn Félags atvinnurekenda samþykkti eftirfarandi ályktun í dag:

Stjórn Félags atvinnurekenda fagnar þeirri umræðu sem farið hefur fram um kynferðislega og kynbundna áreitni, ofbeldi og mismunun í atvinnulífinu undir merkjum #metoo. Stjórnin hvetur félagsmenn FA eindregið til að tryggja að slíkt framferði líðist ekki í fyrirtækjum þeirra. Til þess þarf meðal annars skýra og aðgengilega starfsmannastefnu. Miðla þarf upplýsingum um hvert starfsmenn geti snúið sér verði þeir fyrir ofbeldi, áreitni eða einelti og skýra ferla þarf til að taka á slíkri framkomu og ákveða viðurlög gagnvart gerendum. Stjórn FA hvetur eigendur og stjórnendur fyrirtækja í félaginu jafnframt til að ganga á undan með góðu fordæmi.“

Ríkar skyldur vinnuveitenda
Mikilvægt er að atvinnurekendur taki skýra afstöðu gegn hvers konar ofbeldi og áreitni og geri starfsmönnum ljóst að slík hegðun verði ekki liðin. Þar undir fellur m.a. kynferðisleg og kynbundin áreitni, ofbeldi og mismunun.

Skylda vinnuveitanda til að tryggja starfsmönnum heilbrigt starfsumhverfi og vinna gegn hvers konar áreitni og ofbeldi er rík og endurspeglast hún í þeim skyldum sem lagðar eru á vinnuveitanda með reglugerð nr. 1009/2015 um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum. Reglugerðin byggir á lögum nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Reglugerðina má nálgast hér.

Samkvæmt reglugerðinni er atvinnurekanda skylt að láta einelti, kynferðislega áreitni, kynbundna áreitni eða ofbeldi ekki viðgangast á vinnustað og ber honum að gera starfsmönnum ljóst með skýrum hætti að slík hegðun sé óheimil.

Áhættumat og áætlun – hvernig á að bregðast við kvörtun?
Þá ber atvinnurekenda að útbúa áhættumat og skriflega áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustað þar sem koma skal fram til hvaða aðgerða skuli gripið í því skyni að koma í veg fyrir einelti, kynferðislega og kynbundna áreitni og ofbeldi. Einnig ber að tiltaka í áætluninni til hvaða aðgerða verði gripið, komi fram kvörtun, ábending eða rökstuddur grunur um framangreinda háttsemi.

Atvinnurekanda ber að bregðast við kvörtun eða ábendingu eins fljótt og kostur er og leitast við að leysa málin innan vinnustaðarins með aðkomu viðeigandi aðila. Hann skal skrá niður allt sem tengist meðferð málsins og halda aðilum málsins og vinnuverndarfulltrúa vinnustaðarins upplýstum meðan á meðferð málsins stendur.

Vinnueftirlitið hefur eftirlit með framkvæmd reglugerðarinnar auk þess sem það hefur leiðbeinandi hlutverk í þessum málum. Vinnueftirlitið gaf út leiðbeiningarefni haustið 2016 undir heitinu „Sættum okkur ekki við einelti, áreitni, ofbeldi“ og „Enginn á að sætta sig við einelti, áreitni, ofbeldi“. Leiðbeiningarefnið og nánari upplýsingar er að finna á heimasíðu Vinnueftirlitsins.

Hjálpargögn á vefnum
Bent er á að ýmis hjálpargögn til að framkvæma áhættumat á vinnustað er að finna á vef Vinnueftirlitsins, t.d. vinnuumhverfisvísa starfsgreina, leiðbeiningar og bæklinga. Þar er meðal annars að finna eyðublað vegna áhættumats fyrir lítil fyrirtæki.

Sérstakt rafrænt áhættumat fyrir skrifstofur, veitingahús og mötuneyti og hárgreiðslustofur hefur verið gefið út en það er í raun verkfæri til að gera áhættumat. Verkfærið er ókeypis og opið öllum.

Skrifstofa FA til aðstoðar
Skrifstofa Félags atvinnurekenda er boðin og búin að aðstoða félagsmenn sem vilja fyrirbyggja áreitni, mismunun og ofbeldi og tryggja að gripið verði inn í með skjótum og skilvirkum hætti, komi slíkt upp í fyrirtækjum þeirra.

 

Nýjar fréttir

21. desember 2024
21. desember 2024

Innskráning