Margföld eftirspurn eftir tollkvóta

10.05.2017

Aldrei hefur verið meiri eftirspurn eftir tollkvóta til að fá að flytja inn tollfrjálsar búvörur samkvæmt samningi Íslands og Evrópusambandsins frá 2007. Atvinnuvegaráðuneytið auglýsti tollkvóta fyrir seinni hluta árs 2017 hinn 25. apríl síðastliðinn og liggur nú fyrir hversu mikið magn innflytjendur sóttu um. Eftirspurnin er frá því að vera fjórföld á við kvótann sem er í boði og upp í að vera tæplega sjöföld, eins og sést í eftirfarandi töflu.

Á sama tíma frestast gildistaka nýs tollasamnings við ESB sem átti að auka tollkvótann verulega. Mun sú aukning, ef af henni verður, leiða til aukins vöruframboðs og lægra verðs til neytenda. Sú fyrirhugaða kvótaaukning var ein forsenda þess að veittar voru ívilnanir í búvörusamningum til innlendra framleiðenda. Þeir hafa því fengið sitt en ekki neytendur, sem fá að bíða eftir hagsbótum.

Tollkvóti í boði, tonn Umsóknir s.hl. 2017, tonn Umframeftirspurn f.hl. 2017, margfeldi
Naut 50 333 6,66
Svín 100 410 4,10
Alifuglar 100 628 6,28
Þurrkað og reykt kjöt 25 97 3,88
Ostur (vöruliður 406) 40 208,5 5,21
Ostur (svæðisbundnir) 10 47 4,70
Pylsur 25 122,5 4,90
Elduð kjötvara 25 163 6,52

Fyrirtæki, sem sóttu um tollkvóta, munu nú bjóða í hann og tollkvóta verður úthlutað til hæstbjóðenda. „Við höfum áhyggjur af því að við þessar aðstæður hækki útboðsgjaldið, sem fyrirtæki bjóða í kvótann, enn meira,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda. „Við gagnrýndum harðlega þá aðgerð atvinnuvegaráðuneytisins að fjölga uppboðum á tollkvóta, enda hefur hún leitt til hækkunar á útboðsgjaldinu. Fjölgun ferðamanna og harðari samkeppni á smásölumarkaði er svo líkleg til að bæta enn í umframeftirspurnina. Þessi þróun þýðir að útboðsgjaldið leitar jafnvægis við almenna tolla sem lagðir eru á viðkomandi vörur og ávinningur neytenda af tollfrelsinu hverfur.“

Útboðsgjaldið áfram ólögmætt
Dómar féllu í Hæstarétti í byrjun síðasta árs þar sem útboðsgjaldið var dæmt andstætt stjórnarskrá og ríkið  til að endurgreiða innflutningsfyrirtækjum háar fjárhæðir. Ólafur bendir á að þrátt fyrir breytingar á búvörulögum sé fyrirkomulagið á úthlutun tollkvóta að mati FA áfram ólögmætt. Þrjú innflutningsfyrirtæki hafa á ný höfðað mál gegn ríkinu vegna útboðsgjaldsins.

Gengur ráðherra vísvitandi gegn stjórnarskrá?
Páll Rúnar M. Kristjánsson hæstaréttarlögmaður fer með málið fyrir hönd fyrirtækjanna. „Stjórnarskrá okkar bannar alveg fortakslaust valkvæða skattlagningu ráðherra. Í fyrra staðfesti Hæstiréttur að þessi gjaldtaka væri skattur, þessi skattur væri valkvæður og gjaldtakan því ólögmæt. Þá voru valkostir ráðherra þrír; að úthluta tollkvóta með hlutkesti, opna fyrir innflutning án gjalda og svo að bjóða tollkvótana upp, en í því felst að mati Hæstaréttar skattlagning. Í dag eru kostirnir hins vegar ennþá tveir. Annars vegar að leggja á skatt og hins vegar að opna á innflutning á þessu magni án gjalda. Þetta fer því áfram í bága við ákvæði stjórnarskrárinnar. Ráðherra getur einfaldlega ekki bara valið hvort hann leggur á skatt eða ekki. Eftir dóm Hæstaréttar þá getur ráðherra ekki borið fyrir sig lögvillu. Ráðherra má ljóst vera að þetta er skattur og að hann sé valkvæður. Það er því orðið mjög brýnt að breyta þessu kerfi, enda ekki hægt að leggja það fyrir ráðherra að brjóta vísvitandi gegn ákvæðum stjórnarskrár, slíkt væri á skjön við öll viðtekin sjónarmið um ráðherraábyrgð.“ segir Páll Rúnar.

400 milljónir úr vösum neytenda
Að mati FA er sennilegt að 400 milljónir króna eða meira muni renna úr vösum neytenda til ríkisins á þessu ári vegna útboðsgjaldsins.

 

Nýjar fréttir

21. desember 2024
21. desember 2024

Innskráning