Meint áfengisauglýsingabann mismunar fyrirtækjum

04.04.2018
Áfengisauglýsingar eru áberandi í útsendingum frá erlendum íþróttaviðburðum.

Ólafur Stephensen framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda bendir á það, í framhaldi af ummælum Lilju D. Alfreðsdóttur menntamálaráðherra um að góð rök þurfi fyrir að afnema bann við áfengisauglýsingum, að þau rök liggi öll fyrir og hafi gert lengi.

Í viðtölum við fjölmiðla í dag hefur Ólafur bent á þrennt varðandi það sem kallað er bann við áfengisauglýsingum á Íslandi.

Í fyrsta lagi heldur bannið ekki. Íslendingar hafa áratugum saman séð áfengisauglýsingar í erlendum blöðum og tímaritum, sem seld eru hér á landi. Mörg undanfarin ár hefur verið greiður aðgangur að beinum útsendingum frá erlendum íþróttaviðburðum, þar sem auglýsingar fyrir erlend áfengisvörumerki eru áberandi. Áfengisauglýsingar er að finna á erlendum vefsíðum, sem eru jafnaðgengilegar fyrir Íslendinga og íslenskir vefir. Þá birtast áfengisauglýsingar í vaxandi mæli á samfélagsmiðlum. Það er þess vegna í raun fráleitt að segja að áfengisauglýsingar séu bannaðar.

Fjölmiðlum og framleiðendum mismunað
Í öðru lagi mismunar núverandi löggjöf fyrst og fremst innlendum og erlendum fjölmiðlum og framleiðendum. Í umfjöllun Fréttablaðsins kemur fram að íslenskir fjölmiðlar hafi greitt um 5,3 milljónir króna í stjórnvaldssektir á tímabilinu 2015 til 2017 fyrir að brjóta gegn banni við áfengisauglýsingum. Erlendir fjölmiðlar sem birta Íslendingum áfengisauglýsingar fá engar slíkar sektir.

Svipuð mismunun viðgengst gagnvart erlendum og innlendum áfengisframleiðendum. Áfengisframleiðsla er vaxandi atvinnugrein á Íslandi, en er sett í slæma stöðu í markaðsmálum. „Erlendum framleiðendum er gert auðvelt að koma vörumerkjum sínum á framfæri en Íslendingum er það bannað,“ sagði Ólafur í viðtali við Ísland vaknar á K100 í morgun.

Engar reglur gilda um framsetningu auglýsinga
Í þriðja lagi er það svo að vegna þess að löggjafinn gengur út frá því að á Íslandi birtist engar áfengisauglýsingar (þótt þær birtist víða) gilda engar reglur um hvernig þær skuli úr garði gerðar. FA hefur samið drög að siðareglum um áfengisauglýsingar, sem félagsmenn eru reiðubúnir að undirgangast, verði núverandi auglýsingabann afnumið.

Ólafur bendir auk þess á að ýmsar rannsóknir sýni fram á að áfengisauglýsingar auki ekki áfengisneyslu í heild, heldur hafi fyrst og fremst áhrif á hvaða vörumerki neytendur kaupa.

„Góðu rökin fyrir því að afnema þetta auglýsingabann liggja alveg fyrir. Meginatriðið er að bannið skilar ekki tilgangi sínum og bitnar fyrst og fremst á sumum fjölmiðlum og framleiðendum en ekki öllum,“ segir Ólafur í viðtalinu við Fréttablaðið.

Umfjöllun Fréttablaðsins

Viðtal við Ólaf Stephensen á K100

Nýjar fréttir

Innskráning