Meirihluti telur viðbúnað gegn einelti og ofbeldi í lagi

07.02.2018
Smellið á myndina til að stækka hana

Mikill meirihluti félagsmanna í Félagi atvinnurekenda telur að fyrirtæki þeirra uppfylli skilyrði reglugerðar nr. 1009/2015 um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum. Þetta kemur fram í niðurstöðum árlegrar könnunar FA meðal félagsmanna.

Spurt var hversu sammála eða ósammála menn væru fullyrðingunni „Fyrirtækið mitt uppfyllir öll skilyrði reglugerðar nr. 1009/2015 um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum.“ Tæplega 59% svarenda sögðust sammála eða mjög sammála þeirri fullyrðingu, tæplega 15% svöruðu hvorki né og rúmlega 8% sögðust ósammála. Rúmlega 18% svöruðu hins vegar ekki spurningunni. Ef aðeins eru tekin þau fyrirtæki sem svöruðu spurningunni segjast tæplega 72% sammála því að viðbúnaður á þeirri vinnustað uppfylli skilyrði reglugerðarinnar.

Samkvæmt reglugerðinni er atvinnurekanda skylt að láta einelti, kynferðislega áreitni, kynbundna áreitni eða ofbeldi ekki viðgangast á vinnustað og ber honum að gera starfsmönnum ljóst með skýrum hætti að slík hegðun sé óheimil. Þá ber atvinnurekenda að útbúa áhættumat og skriflega áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustað þar sem koma skal fram til hvaða aðgerða skuli gripið í því skyni að koma í veg fyrir einelti, kynferðislega og kynbundna áreitni og ofbeldi. Einnig ber að tiltaka í áætluninni til hvaða aðgerða verði gripið, komi fram kvörtun, ábending eða rökstuddur grunur um framangreinda háttsemi.

Boð um aðstoð ítrekað
Spurningunni var bætt inn í árvissa könnun FA vegna umræðunnar sem farið hefur fram undir merkjum #metoo. „Það er ánægjulegt að sjá að meirihluti félagsmanna okkar telur sig uppfylla skilyrði reglugerðarinnar að flestu eða öllu leyti,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA. „Hins vegar er líka talsverður hópur sem telur sig ekki gera það. Við þau fyrirtæki ítrekum við enn boð okkar um aðstoð við að koma málum í lag, þannig að fyrirtækin uppfylli öll skilyrði og viðbúnaður gegn einelti, ofbeldi og áreitni sé í lagi.“

Könnunin var gerð dagana 19.-24. janúar. Hún var send til forsvarsmanna 153 aðildarfyrirtækja með beina félagsaðild og svöruðu 87 fyrirtæki, en það er um 56% svörun.

Nýjar fréttir

Innskráning