Of miklar launahækkanir munu leiða af sér vaxtahækkun

11.09.2018
Þórarinn G. Pétursson.

Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur Seðlabankans, segir að of miklar launahækkanir í kjarasamningum myndu leiða það af sér að Seðlabankinn myndi hækka vexti til að búa til slaka í hagkerfinu. Vandséð sé hvaða þættir aðrir ættu að koma í veg fyrir að verðbólga rjúki af stað, verði samið um miklar hækkanir launa. Þetta var á meðal þess sem fram kom í erindi Þórarins á morgunverðarfundi FA um ástand og horfur í efnahagsmálum, en horfa má á upptöku af fundinum í heild hér á síðunni.

Þórarinn lýsti á fundinum að mörgu leyti fremur bjartsýnni spá Seðlabankans um mjúka lendingu hagkerfisins eftir mikið vaxtarskeið, þar sem verðbólgan færi tímabundið upp undir 3% en svo aftur niður undir 2,5% markmið Seðlabankans, atvinnuleysi yrði á bilinu 3,5 til 4%, sem telja mætti eðlilegt, og hagvöxtur í kringum 3%. Framkvæmdastjóri FA spurði hann hvort líklegt væri að hægt væri að endurtaka leikinn frá 2015, þegar samið var um 30% hækkun launa á fjórum árum, án þess að það ylli kollsteypu.

Alþjóðleg þróun og verðbólguvæntingar hjálpa ekki núna
Þór­ar­inn sagði marga hafa ótt­ast það við gerð síðustu kjarasamninga að mikl­ar launa­hækk­an­ir myndu skila sér út í verðlagið með til­heyr­andi kollsteypu. „Það þróaðist ekki eins og við óttuðumst og ástæðurn­ar fyr­ir því eru nokkr­ar. Þessir kjarasamningar voru gerðir í alþjóðlegu um­hverfi sem var að toga niður allt verðlag. Allt sem var keypt frá út­lönd­um var að lækka, ekki bara vegna hækk­un­ar krón­unn­ar held­ur var verð í er­lend­um gjald­miðlum að lækka. Það sem hjálpaði líka til að mínu mati, er að á sama tíma og farið var í þessar miklu launahækkanir lækkuðu verðbólguvæntingar og toguðu á móti áhrifum kjara­samn­ing­anna.“

Fundur FA var vel sóttur af félagsmönnum.

Þór­ar­inn sagði að ekki væri von á að nú félli allt jafnvel með okkur og þá. „Í fyrsta lagi er engin ástæða til að búast við að verðbólgu­vænt­ing­ar haldi áfram að lækka, sérstaklega ef samið verður um miklar launahækkanir. Þessi þróun mun því ekki hjálpa okk­ur áfram. Þessi alþjóðlega þróun, alla vega eins og staðan er núna, mun held­ur ekki hjálpa okk­ur.“

Loks benti Þórarinn á það sem ekki væri síður mikilvægt atriði; að við síðustu kjarasamningagerð hefði hlut­fall launa af þjóðar­tekj­um verið und­ir sögu­legu meðaltali. „Eft­ir fjármálakrepp­una lækkaði launahlutfallið mjög mikið og með rök­um mátti segja að launþegar hafi átt eitt­hvað inni. Nú er staðan hins veg­ar þannig að laun eru kom­in vel yfir sögu­legt meðaltal þannig að það mun ekki hjálpa held­ur. Það er vandséð hvaða þættir það eru sem ættu að hjálpa okkur að búa til sams konar atburðarás í kjölfar mikilla launahækkana núna eins og gerðist þá.“

„Jesús Kristur“
„Þá er í raun og veru bara eitt eft­ir og það er að búa til nógu mik­inn slaka í þjóðarbú­inu til þess að laun og verðlag byrji að lækka,“ sagði Þórarinn. „Það er eina tækið sem við höf­um; að koma vöxt­un­um nógu mikið upp þannig hér verði sam­drátt­ur.“ Þegar þarna var komið sögu mátti heyra fundarmenn jesúsa sig. „Við höfum sagt að það sé að einhverju leyti í hönd­um annarra hver fórn­ar­kostnaður­inn af því að halda verðbólgu­mark­miðum verði á næstu miss­er­um. Það eru rík­is­valdið og vinnu­markaður­inn.“

Þór­ar­inn sagði að Seðlabank­an­um væri full al­vara með þessum málflutningi þótt hann væri lítt til vinsælda fallinn, því að þetta væri það sem stjórnvöld ætluðust til af bankanum.

Glærur Þórarins

Nýjar fréttir

21. desember 2024
21. desember 2024

Innskráning