Nýr kjarasamningur FA/SÍA og Grafíu undirritaður

26.01.2016
Georg Páll Skúlason, formaður Grafíu, og Guðmundur S. Maríusson, formaður kjararáðs FA, skrifa undir samninginn.
Georg Páll Skúlason, formaður Grafíu, og Guðmundur S. Maríusson, formaður kjararáðs FA, skrifa undir samninginn.

Félag atvinnurekenda og Samband íslenskra auglýsingastofa (SÍA) hafa undirritað nýjan kjarasamning við Grafíu, stéttarfélag í prent- og miðlunargreinum. Samningurinn er í öllum aðalatriðum samhljóða samningum FA við VR og Landssamband íslenzkra verzlunarmanna og Rafiðnaðarsambandið, sem gerðir hafa verið á síðustu dögum, svo og samningi Samtaka atvinnulífsins og Alþýðusambandsins, sem skrifað var undir í síðustu viku.

Samkvæmt samningnum hækka laun meira en áður hafði verið samið um til að tryggja sambærilega launaþróun á öllum vinnumarkaðnum. Launaþróunartrygging fyrir árið 2016 fellur brott. Í stað hennar kemur 6,2% almenn launahækkun þann 1. janúar 2016, að lágmarki kr. 15.000 á mánaðarlaun fyrir dagvinnu.

Ákvæði um launaþróunartryggingu eða „baksýnisspegil“ eins og samið var um í samningi FA/SÍA og Grafíu í júlí síðastliðnum falla því út, þó með þeirri undantekningu að launagreiðanda er heimilt að draga frá umsaminni launahækkun á árinu 2016 ótilkynnta almenna hækkun launa starfsmanna sem framkvæmd hefur verið eftir gildistöku kjarasamninga viðkomandi aðildarsamtaka á árinu 2015 og fram að undirskrift nýja samningsins, hafi hún náð til þorra starfsmanna í fyrirtækinu. Þó skal enginn starfsmaður fá minna en 6,2% launahækkun, að lágmarki kr. 15.000 á mánaðarlaun fyrir dagvinnu, á tímabilinu 2. maí til 31. desember 2015.

Hinn 1. maí á næsta ári verður almenn launahækkun 4,5% í stað 3% og í maí 2018 verður almenn launahækkun 3% í stað 2%.

Þá hækkar framlag vinnuveitenda í lífeyrissjóð samkvæmt samningnum, um 0,5% frá 1. júlí næstkomandi, um 1,5% til viðbótar frá 1. júlí 2017 og enn um 1,5% frá 1. júlí 2018, eða samtals um 3,5 prósentustig. Framlag launagreiðanda í lífeyrissjóð verður þá orðið 11,5%.

Samningarnir sem gerðir hafa verið við viðsemjendur FA undanfarna daga verða bornir undir stjórn eins og lög félagsins gera ráð fyrir og kynntir á félagsfundi.

Kjarasamningur FA/SÍA og Grafíu janúar 2016

Nýjar fréttir

21. desember 2024
21. desember 2024

Innskráning