Ódýra áfengið hækkar, það dýrara lækkar

08.10.2015

IMG_3169Félag atvinnurekenda hefur í umsögn til Alþingis vakið athygli á því að fyrirhugaðar breytingar á skattlagningu áfengis muni leiða til þess að ódýrara léttvín hækki í verði, en það dýrara lækki. Þá muni sterkt áfengi í ýmsum tilvikum hækka í verði. Félagið bendir einnig á að tilfærsla á milli virðisaukaskatts og áfengisgjalds muni auka verulega kostnað áfengisframleiðenda og -innflytjenda af fjárbindingu og leggur til breytingar á uppgjörstímabili áfengisgjalds til að mæta því.

Í frumvarpi um ýmsar forsendur fjárlaga 2016, svokölluðum bandormi, er lagt til að færa áfengi í lægra virðisaukaskattþrep en hækka á móti áfengisgjald til að tekjur ríkisins skerðist ekki. FA lýsir í umsögn sinni skilningi á þeim rökum fyrir breytingunni að skilvirkara sé að vínveitingahús selji vöru og þjónustu í einu virðisaukaskattþrepi; það dragi meðal annars úr hættunni á undanskotum. Hins vegar geti þessi breyting leitt af sér veruleg vandkvæði fyrir framleiðendur og innflytjendur áfengis.

Hæstu áfengisgjöld í heimi
„Áfengisgjöld á Íslandi eru með þeim hæstu í heimi og hækka enn með þessari breytingu. Þau eru þannig mun hærra hlutfall söluverðs vörunnar hjá framleiðendum og innflytjendum áfengis en opinber gjöld eru alla jafna hjá fyrirtækjum. Um þau gilda sömuleiðis aðrar og strangari reglur en um önnur opinber gjöld sem fyrirtæki standa skil á. Þannig er uppgjörstímabil virðisaukaskatts og skilagjalds tveir mánuðir en uppgjörstímabil áfengisgjaldsins er eingöngu tvær vikur og skilmálar um innheimtu þess mun strangari, sbr. 7. gr. reglugerðar 505/1998 um áfengisgjald,“ segir í umsögn FA.

„Að óbreyttu leiðir sú lagabreyting, sem er lögð til með frumvarpinu, því til verulegra kostnaðarhækkana hjá framleiðendum og innflytjendum áfengis vegna aukinnar fjárbindingar. Þessi kostnaður mun valda sérstaklega minni aðilum miklum vandkvæðum og getur jafnvel staðið nýliðun í greininni fyrir þrifum. Framleiðendur þurfa að standa skil á áfengisgjaldinu við sölu eða afhendingu vöru, en innflytjendur við tollafgreiðslu. Þegar selt er til veitingahúsa er algengt að greiðslufrestur sé 30 dagar. Framleiðendur og innflytjendur eru því í sumum tilvikum að greiða meirihluta söluverðs vörunnar til ríkisins áður en þeir fá sjálfir nokkrar tekjur í kassann. Það segir sig sjálft að breytingin eykur einnig á rekstraráhættu framleiðenda og innflytjenda ef t.d. veitingastaður fer í gjaldþrot, enda er ekki um neina endurgreiðslu á áfengisgjaldinu að ræða í slíkum tilvikum.

FA leggur til að komið verði til móts við framleiðendur og innflytjendur með því að breyta uppgjörstímabili áfengisgjaldsins. Æskilegt væri að uppgjörstímabil og gjalddagar virðisaukaskatts, skilagjalds og áfengisgjalds væru þeir sömu, í þágu einföldunar rekstrarumhverfis fyrirtækja í áfengisgeiranum.“

„Beljan“ hækkar um 300 krónur
Þá birtir FA í umsögn sinni útreikninga á áhrifum skattabreytingarinnar á verð mismunandi tegunda og styrkleikaflokka áfengis. Dýrari vín munu lækka í verði, en á móti hækkar ódýrara léttvín og sumt sterkara áfengi talsvert. Þannig má gera ráð fyrir að þriggja lítra „belja“ með léttvíni hækki um u.þ.b. 300 krónur og vodkaflaska um 500 krónur.

Umsögn FA um bandorminn

Umfjöllun Fréttablaðsins og Vísis um málið

Nýjar fréttir

19. nóvember 2024

Innskráning