Félag atvinnurekenda hefur sent Sigurði Inga Jóhannssyni, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, erindi og hvatt til þess að ráðuneyti hans óski eftir óháðri úttekt á rekstri Íslandspósts ohf. Afrit var sent Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra.
Í bréfi FA segir meðal annars: „Augljóst er að ýmsar spurningar um rekstrarvanda Íslandspósts brenna á þingmönnum, sem taka þurfa ákvörðun um hvort 1.500 milljónum af fé skattgreiðenda skuli ráðstafað til hins opinbera hlutafélags. Að mati Félags atvinnurekenda munu ekki fást svör við þeim spurningum nema gerð verði óháð úttekt á rekstri félagsins undanfarin ár. Fyrir liggur að Póst- og fjarskiptastofnun telur það ekki hlutverk sitt að kafa ofan í ævintýri stjórnenda Íslandspósts í samkeppnisrekstri. Þá er Ríkisendurskoðun vanhæf til að gera úttekt á rekstrinum, enda er hún endurskoðandi reikninga Íslandspósts. Við blasir að fá þurfi öflugt, óháð endurskoðunarfyrirtæki til að taka út rekstur fyrirtækisins.
FA kom þessari tillögu á framfæri við ráðuneytið á fundi 17. september síðastliðinn en telur ástæðu til að ítreka hana hér með formlegum hætti. Að minnsta kosti þrjár ástæður eru fyrir því að ráðuneytið ætti að biðja um slíka úttekt:
- Leiða þarf í ljós hverjir bera ábyrgð á þeim ákvörðunum sem komið hafa Íslandspósti í núverandi stöðu.
- Fyrirbyggja þarf að skattgreiðendur þurfi aftur að hlaupa undir bagga með Íslandspósti eða öðrum opinberum hlutafélögum, sem hafa farið offari í samkeppnisrekstri.
- Leiða þarf fram uppruna þess fjármagns, sem notað hefur verið í fjárfestingar samkeppnisrekstri Íslandspósts áður en Alþingi samþykkir frumvarp ráðherra um afnám einkaréttar Íslandspósts. Ella er hætt við að til verði fyrirtæki, sem jafnvel verði einkavætt á næstu árum, en njóti mjög ósanngjarnrar forgjafar á samkeppnismarkaði.“