Ráðherra í órétti að gera búvörusamning

27.05.2016

MjolkurvorurFélag atvinnurekenda telur að Sigurður Ingi Jóhannsson, þáverandi landbúnaðarráðherra og núverandi forsætisráðherra, hafi farið gróflega út fyrir þær valdheimildir sem Alþingi hafði veitt honum í búvörulögum er hann undirritaði búvörusamninga við Bændasamtök Íslands í febrúar síðastliðnum. FA hvetur Alþingi til að hafna frumvarpi um samningana.

FA fjallar í umsögn sinni til atvinnuveganefndar Alþingis sérstaklega um samninginn um starfsskilyrði nautgriparæktar. Vísað er til þess í samningnum að hann sé byggður á heimild í 30. grein núverandi búvörulaga. Sú heimild er hins vegar þröng og veitir ráðherra enga heimild til að semja um margt af því sem samið var um við Bændasamtökin.

Samið við einkaaðila um að hækka skatta á aðra
Á meðal samningsákvæða sem augljóslega falla utan heimildar ráðherra eru 5. til 10. grein samningsins, sem heimila beingreiðslur vegna nautakjötsframleiðslu, en í búvörulögum er eingöngu fjallað um mjólkur- og sauðfjárafurðir. Í 12. grein samningsins er meðal annars samið um verðuppfærslu, sem engin lagaheimild er fyrir. Í 13. greininni er samið um að ráðherra beiti sér fyrir hækkun tolla á innfluttum landbúnaðarvörum. FA bendir á að með þessu sé íslenska ríkið að semja við einkaaðila, Bændasamtökin, um að leggja skatta á aðra einkaaðila, innflytjendur matvöru, sem eru í samkeppni við þann fyrrnefnda. „Þar með semur ráðherra um að beita sér fyrir því að skerða og skaða hagsmuni eins einkaaðila í samkeppni hans við annan. Engin heimild er fyrir því að semja með þessum hætti. Þá er ljóst að skattlagningarvaldið liggur ekki hjá ráðherra og er ekki á valdsviði hans að beita sér fyrir þeirri mismunun sem þarna er lögð til,“ segir í umsögn FA. Þá er samið til tíu ára, tífalds þess tíma sem hafður er til viðmiðunar í núgildandi búvörulögum, án þess að það sé rökstutt sérstaklega í frumvarpinu.

Reynt að útvega lagaheimildina eftirá
Í frumvarpi landbúnaðarráðherra um búvörusamningana er lagt til í 12. grein að veita ráðherra lagaheimild – eftirá – til að gera samninga eins og þann sem þegar hefur verið gerður. FA bendir á að valdheimildir ráðherra ráðist af gildandi lögum og verði ekki, svo lögmætt sé, skotið lagalegum grundvelli undir háttsemi ráðherra með því að setja afturvirk lög.

„Að mati FA er það stórvarasamt fordæmi ef Alþingi ætlar að leggja blessun sína yfir að ráðherrar geri samninga sem þeir hafa enga lagaheimild til og sæki heimildina til Alþingis eftir á. Þessi ráðagerð er í andstöðu við ákvæði 2. gr. stjórnarskrár um þrískiptingu valds sem og þingræðisreglu íslenskrar stjórnskipunar enda er það löggjafinn sem kveður á um valdheimildir ráðherra en ekki hann sjálfur,“ segir í umsögn FA.

Glötuð tækifæri í landbúnaðinum
Félag atvinnurekenda gagnrýnir búvörusamningana á breiðum grundvelli og átelur að ekki hafi verið hlustað á tillögur FA og fleiri félagasamtaka, byggðar á sjónarmiðum Samráðsvettvangs um aukna hagsæld, Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands og fleiri aðila; um að gera grundvallarbreytingar á styrkjakerfi landbúnaðarins og draga úr tollvernd, ekki síst á alifugla- og svínakjöti.

Í niðurlagi umsagnar sinnar segir FA því að með gerð búvörusamninganna hafi mikilvæg tækifæri farið forgörðum:

  • Kostnaður skattgreiðenda af stuðningi við landbúnað lækkar ekkert; við blasir að á næstu tíu árum verði 130-140 milljörðum króna á núvirði varið til að styrkja atvinnurekendur í einni grein.
  • Tækifærinu til að færa stuðninginn að stærstum hluta yfir í minna markaðstruflandi form, eins og gert hefur verið í flestum nágrannalöndum okkar, hefur verið sólundað.
  • Menn hafa sömuleiðis kastað frá sér tækifæri til að draga úr óbeinum stuðningi neytenda við landbúnaðinn í formi tollverndar og auka þannig samkeppni við innlenda framleiðslu og hvata til hagræðingar, vöruþróunar og nýsköpunar.
  • Tækifærið til að láta sömu lög og reglur gilda um starfsemi fyrirtækja í mjólkurframleiðslu og öðrum greinum var látið fara forgörðum. Það þýðir að það sem er glæpsamlegt í öðrum geirum er leyfilegt á mjólkurmarkaðnum.
  • Síðast en ekki síst misstu stjórnvöld af tækifæri til að fá fulltrúa fleiri hagsmuna að borðinu og skapa þannig víðtækari sátt um landbúnaðinn. Nú blasir við að um þessi drjúgu útgjöld ríkissjóðs verður enginn friður næstu tíu árin.

„Þegar við bætist að landbúnaðarráðherra fór gróflega út fyrir þær valdheimildir sem löggjafinn fékk honum með búvörulögum er ekki annað að gera en að hvetja Alþingi til að hafna alfarið því frumvarpi sem hér er til umfjöllunar,“ segir Félag atvinnurekenda.

Umsögn FA í heild sinni

Nýjar fréttir

21. desember 2024
21. desember 2024

Innskráning