Ráðuneyti hafnar án rökstuðnings kröfu um endurgreiðslu útboðsgjalds

27.04.2015
Innfluttar skinkur
Innflutt búvara gæti lækkað um tugi prósenta í verði ef útboðsgjald væri ekki innheimt fyrir tollkvóta.

Atvinnuvegaráðuneytið hefur hafnað kröfu þriggja innflutningsfyrirtækja um endurgreiðslu útboðsgjalds vegna tollkvóta á búvörum.

Héraðsdómur Reykjavíkur felldi þann dóm 17. mars síðastliðinn að útboðsgjaldið væri ólögmætur skattur sem bryti í bága við stjórnarskrá. Í framhaldinu sendi Félag atvinnurekenda ráðuneytinu erindi 23. mars og krafðist þess að innflutningsfyrirtækjum yrði endurgreitt útboðsgjald sem greitt hefði verið fyrirfram vegna innflutningsheimilda sem enn hefðu ekki verið nýttar. Erindið var ítrekað 31. mars.

Hér er um að ræða mikla hagsmuni neytenda, þar sem innflutningsfyrirtæki greiddu til dæmis um 300 milljónir króna í útboðsgjald vegna innflutningskvóta frá ríkjum ESB fyrir árið 2015. Innflutningsheimildirnar hafa eingöngu verið nýttar að hluta. Sé útboðsgjaldið ekki innheimt geta innfluttar búvörur, til dæmis kjötvörur og ostar, lækkað í verði um tugi prósenta.

Fyrirtækin þrjú sem í hlut áttu, Hagar, Sælkeradreifing og Innnes, kröfðust hvert um sig endurgreiðslu útboðsgjaldsins vegna ónýttra innflutningsheimilda. Lögmenn fyrirtækjanna hafa nú fengið nánast samhljóða bréf frá ráðuneytinu, þar sem segir: „Ráðuneytið hafnar greiðslu til umbjóðanda yðar enda fellst ráðuneytið ekki á rökstuðning yðar í fyrrgreindu bréfi.“ Ákvörðuninni fylgir enginn rökstuðningur af hálfu ráðuneytisins.

Stjórnvöldum ber samkvæmt stjórnsýslulögum að rökstyðja ákvarðanir sínar og munu lögmenn fyrirtækjanna fara fram á slíkan rökstuðning frá ráðuneytinu.

Erindum Félags atvinnurekenda til ráðuneytisins hefur enn ekki verið svarað.

Skeytingarleysi um hag neytenda
„Það er með talsverðum ólíkindum að meira en mánuði eftir uppkvaðningu dóms, þar sem útboðsgjaldið er sagt ganga gegn stjórnarskránni, skuli atvinnuvegaráðuneytið hafna kröfu um endurgreiðslu án nokkurs rökstuðnings,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda. „Enn og aftur blasir við fullkomið skeytingarleysi um hag neytenda, sem eiga mikið undir því að stjórnvöld fari að dómum dómsvaldsins í þessu máli. Innflutningsfyrirtækin munu að sjálfsögðu halda áfram að leita réttar síns. Verslunin bíður eftir því að geta lækkað verð til neytenda. Það eina sem stendur í vegi fyrir því er þvermóðska embættismanna sem geta ekki sætt sig við að neytendur fái að njóta þess ábata sem fylgir frjálsum viðskiptum.“

Nýjar fréttir

21. desember 2024
21. desember 2024

Innskráning