Ráðuneyti svarar engu um merkingar á hreinsiefnum

23.05.2017
Vinnuaflsfrekt og dýrt er að opna sendingar og líma merkimiða á íslensku á hreinsiefni.

Félag atvinnurekenda hefur ítrekað nærri hálfs árs gamalt erindi sitt til umhverfis- og auðlindaráðuneytisins um varúðarmerkingar á hreinsiefnum. Vegna nýrra reglna um merkingar á hreinsiefnum, sem eiga að taka gildi 1. júní næstkomandi, er fyrirsjáanlegt að verð ýmissa vægra hreinsiefna til heimilisnota hækki umtalsvert.

Málið á uppruna sinn í Evrópureglum um merkingar á hreinsiefnum. Samkvæmt 4. gr. reglugerðar nr. 415/2014, sem byggist á reglugerð Evrópusambandsins frá 2008, skulu merkingar á efnum og efnablöndum vera á íslensku. Reglugerðin felur í sér breyttar kröfur að þessu leyti því áður var einungis gerð krafa um íslenskar merkingar á efnum/efnablöndum sem eru verulega hættulegar. Ýmis vægari hreinsiefni hafa verið merkt á ensku og/eða skandinavísku málunum.

Hið breytta regluverk leiðir af sér mikið umstang og kostnað fyrir fyrirtæki sem nú þurfa að sérmerkja allar hreinsivörur með íslenskum merkingum, í stað einungis hluta þeirra áður. Samkvæmt upplýsingum sem FA hefur aflað sér hjá aðildarfyrirtækjum, geta þessar hertu kröfur leitt til þess að algeng hreinsiefni hækki í verði um að minnsta kosti 10-20%.

Svigrúm í Evrópureglum ekki nýtt
FA sendi erindi á umhverfis- og auðlindaráðuneytið vegna málsins í byrjun desember 2016. Þar var athygli vakin á afleiðingum fyrirhugaðra breytinga, þ.m.t. gríðarlegri kostnaðaraukningu íslenskra fyrirtækja sem getur lent á neytendum með hærra vöruverði. Einnig var bent á að í evrópsku reglugerðinni er aðildarríkjum veitt ákveðið svigrúm varðandi merkingar og þau þurfa ekki nauðsynlega að setja reglur um merkingar á opinberu tungumáli sínu.

FA gagnrýndi í erindi sínu að hvergi væri vikið að þessum möguleika í hinni íslensku reglugerð og skoraði á ráðuneytið að reglugerðin yrði tekin til endurskoðunar. Nauðsynlegt væri að taka tillit til smæðar hins innlenda markaðar við innleiðingu ESB-reglugerðarinnar og nýta það svigrúm sem veitt er í reglugerðinni til þess að ekki séu lagðar óþarfa íþyngjandi kvaðir á innflytjendur með tilheyrandi kostnaði.

Innflytjendur ekki virtir svars
Í seinna bréfi FA er rakið að fundað var með ráðuneytinu um málið og í framhaldinu með Umhverfisstofnun. Félagið fékk upplýsingar um að Umhverfisstofnun myndi skila ráðuneytinu áliti og í framhaldi yrði tekin ákvörðun um viðbrögð við erindi félagsins. FA hefur upplýsingar um að álit Umhverfisstofnunar hafi borizt ráðuneytinu um miðjan febrúar, en nú þremur mánuðum síðar hefur erindi félagsins enn ekki verið svarað.

„FA hefur bent ráðuneytinu á leið til að nýta svigrúmið  í Evrópureglunum. Þá gagnrýndu fulltrúar innflytjenda nýju reglurnar harðlega á fundi með Umhverfisstofnun í apríl síðastliðnum. Okkur þykir miður að þessar stofnanir skuli ekki virða innflytjendur svars og ekki klára þá vinnu að skoða hvort innleiða megi reglurnar með minna íþyngjandi hætti fyrir fyrirtæki og neytendur. Nú er tíminn að renna út og allt stefnir í að verð þessara vara muni hækka,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA.

Ítrekunarbréf FA til ráðuneytisins

Nýjar fréttir

21. desember 2024
21. desember 2024

Innskráning