Skattbyrði vegna atvinnuhúsnæðis þyngist um 1,3 milljarða að óbreyttu

22.09.2016

atvinnuhusnaediFélag atvinnurekenda hefur skrifað öllum sveitarfélögum þar sem aðildarfyrirtæki félagsins starfa og hvatt þau til að lækka álagningarprósentu fasteignaskatts á atvinnuhúsnæði. Fjármálaráðstefna sveitarfélaganna hófst í dag og vinna við fjárhagsáætlanir fyrir næsta ár stendur nú sem hæst. Verði ekki hróflað við álagningarprósentu sveitarfélaganna má gera ráð fyrir að skattbyrði fyrirtækjanna í landinu vegna atvinnuhúsnæðis þyngist um 1,3 milljarða króna á næsta ári.

Í bréfunum til sveitarfélaganna er athygli vakin á ályktun stjórnar FA frá því í júní, eftir að breytingar á fasteignamati fyrir árið 2017 voru kynntar. Fasteignamat atvinnuhúsnæðis hækkar um 7,6% á landinu en 9,1% á höfuðborgarsvæðinu. Á síðastliðnum fimm árum hefur fasteignamat atvinnuhúsnæðis á landinu hækkað um tæplega 36% að meðaltali. Á Höfuðborgarsvæðinu hefur það hækkað um 40%.

Kópavogur og Seltjarnarnes hafa lækkað, Borgarbyggð hækkaði
Af sveitarfélögunum á Höfuðborgarsvæðinu eru það eingöngu Kópavogur og Seltjarnarnes sem hafa mætt miklum hækkunum á fasteignamati atvinnuhúsnæðis með lækkun á álagningarprósentu sinni á undanförnum árum. Þannig hafa þessi tvö sveitarfélög haldið tekjum sínum af fasteignaskatti fyrirtækja nokkuð stöðugum. Í bréfunum frá FA eru þessi sveitarfélög hvött til að halda áfram á sömu braut og vera öðrum fyrirmynd.

Önnur sveitarfélög á suðvesturhorninu, þar með talin Reykjavíkurborg, hafa haldið álagningarprósentunni óbreyttri, yfirleitt í hinu lögbundna hámarki sem er 1,650% af fasteignamati, og fengið hundruð milljóna í tekjuauka alveg óháð afkomu fyrirtækjanna. Þannig hækkuðu tekjur Reykjavíkurborgar af fasteignaskatti á fyrirtæki um tæplega 770 milljónir á milli áranna 2013 og 2015. Í Borgarbyggð, sem er eitt sveitarfélagið sem fékk bréf frá FA, var skattprósentan hækkuð úr 1,5% í lögbundið hámark, 1,650%, á milli áranna 2014 og 2015. Sveitarfélögin eru hvött til að lækka álagningarprósentuna við gerð fjárhagsáætlunar fyrir næsta ár.

Í ályktun stjórnar FA segir: „Fasteignagjald er í eðli sínu óheppileg skattheimta á fyrirtæki, sem leggst á eigið fé þeirra óháð afkomu. Hækkanir á fasteignaverði og þar með fasteignamati hafa ekkert um afkomu flestra fyrirtækja að segja, en stuðla að aukinni skattbyrði þeirra. FA skorar á sveitarfélögin að taka mið af þessu, milda höggið fyrir fyrirtækin og létta þannig á þrýstingi á verðhækkanir.“

Bréf til Reykjavíkurborgar

Bréf til Kópavogsbæjar

 

Nýjar fréttir

21. desember 2024
21. desember 2024

Innskráning