Skerðing á tollkvóta fyrir kjöt brýtur á rétti neytenda og innflytjenda

07.05.2018

Félag atvinnurekenda hefur sent Kristjáni Þór Júlíussyni, landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra, bréf vegna frétta um áform ráðherra um að skerða einhliða tollfrjálsa innflutningskvóta fyrir kjöt, sem tollasamningur Íslands og ESB kveður á um. Félagið krefst upplýsinga og svara frá ráðherra um þessa fyrirætlan, svo og um ákvörðun sem atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið segir að hafi verið tekin um að taka aftur upp fyrirkomulag sem hafði verið fallið frá, að auglýsa innflutningskvótana tvisvar á ári.

Í frétt sem birtist á vef atvinnuvegaráðuneytisins sl. miðvikudag var fjallað um „mótvægisaðgerðir“ stjórnvalda vegna tvíhliða samnings Íslands og Evrópusambandsins um lækkun tolla á landbúnaðarvörum.

Í fréttinni er vitnað til skýrslu starfshóps sem settur var á fót í apríl 2016 og skilaði tillögum um „mótvægisaðgerðir“. Félag atvinnurekenda hefur áður gagnrýnt harðlega skipan þess hóps, en hann var eingöngu samansettur af fulltrúum ríkisins og innlendra framleiðenda matvöru. Innflutningsfyrirtæki og neytendur fengu enga aðkomu að starfi hópsins, enda virðist hlutverk hans aðallega hafa verið að finna upp á leiðum til að hafa aftur af neytendum þann ávinning, sem fólst í tollasamningnum við ESB.

Skerðing um þriðjung?
Í fréttinni er greint frá því að stefnt sé að því að hrinda í framkvæmd tillögu hópsins um að „við útreikning á magni tollkvóta við innflutning verði miðað við ígildi kjöts með beini, í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar.“ Í frétt Morgunblaðsins 4. maí síðastliðinn, sem virðist byggð á upplýsingum frá ráðuneytinu, er fullyrt að þetta þýði að tollkvótar sem samið hefur verið um við Evrópusambandið muni nýtast verr og þriðjungi minna kjöt verði flutt inn án tolls en ella hefði orðið.

„Félag atvinnurekenda mótmælir þessum áformum ráðuneytisins harðlega,“ segir í bréfi FA til ráðherra. „Í tollasamningi Íslands og ESB er hvergi kveðið á um að tollfrjálsir innflutningskvótar fyrir kjötvörur skuli miðaðir við kjöt með beini. Samningurinn tekur því til hvort heldur er innflutnings á úrbeinuðu kjöti eða kjöti með beini. Fyrsta úthlutun á tollkvótum samkvæmt samningnum hefur þegar átt sér stað og er þar enginn greinarmunur gerður á kjöti með eða án beins.“

FA bendir einnig á að slíkir innflutningskvótar, byggðir á milliríkjasamningum, hafa verið í gildi á Íslandi í 23 ár, eða frá því WTO-samningurinn tók gildi árið 1995. Alla tíð hefur verið miðað við innflutning á kjöti hvort heldur er með eða án beins.

Komið í bakið á neytendum
„Þegar samningurinn við ESB var gerður kynntu tveir ráðherrar, þeir Sigurður Ingi Jónsson og Gunnar Bragi Sveinsson, hann sem „fagnaðarefni fyrir íslenska neytendur“ sem myndi hafa „mjög jákvæð áhrif fyrir neytendur“. Það er algjörlega forkastanlegt að nú, tveimur og hálfu ári síðar, skuli landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra tilkynna áform um að hafa af neytendum stóran hluta þess ávinnings, sem í samningnum felst,“ segir í bréfi Ólafs Stephensen framkvæmdastjóra FA.

Í samningi Íslands og ESB segir í 10. grein: „Samningsaðilarnir eru sammála því að tryggja að ávinningnum, sem þeir veita  hvor öðrum, verði ekki stefnt í hættu með öðrum takmarkandi innflutningsráðstöfunum.“ Félag atvinnurekenda telur að fyrirætlan ráðherra sé klárlega takmarkandi innflutningsráðstöfun. „Þá væri með þessari ráðstöfun augljóslega brotið gegn rétti jafnt neytenda sem innflutningsfyrirtækja, sem byggt hafa réttmætar væntingar á tollasamningnum við ESB. Verði áformum ráðuneytisins hrint í framkvæmd kunna innflutningsfyrirtæki að þurfa að leita þess réttar síns,“ segir í bréfi FA.

Hvernig og hvenær var ákvörðun um fleiri útboð birt?
Þá spyr FA ýmissa spurninga um það sem fram kemur í frétt ráðuneytisins að það sé „þegar komið til framkvæmdar að auglýsa ESB tollkvóta tvisvar á ári.“ FA hefur áður bent á að slíkt fyrirkomulag sé neytendafjandsamlegt, enda stuðli það að hækkun útboðsgjalds, sem innflytjendur greiða fyrir innflutningsheimildirnar. Þetta fyrirkomulag var reynt á árinu 2017, reyndist illa og frá því var horfið á ný. FA óskar upplýsinga frá ráðuneytinu, m.a. hvernig og hvar ákvörðun ráðuneytisins hafi verið birt, um að breyta útboðstímabilinu í þriðja sinn á tveimur árum.

Bréf FA til ráðherra

Nýjar fréttir

21. desember 2024
21. desember 2024

Innskráning