Stjórnvöld gefi út opinn innflutningskvóta á ferskum eggjum

30.11.2016

IMG_0244Félag atvinnurekenda skorar á stjórnvöld að gefa þegar í stað út opinn, tollfrjálsan innflutningskvóta á ferskum eggjum til að bregðast við fyrirsjáanlegum eggjaskorti fyrir jólin. Vegna þess trúnaðarbrests sem orðið hefur á milli neytenda og verslunar annars vegar og eggjaframleiðandans Brúneggja hins vegar vegna illrar meðferðar á dýrum er fyrirsjáanlegt að framboð á eggjum í verslunum dragist saman um allt að 20% í mestu baksturstíð ársins. 

Í lögum eru sérstök ákvæði sem eiga að tryggja að íslenskir neytendur búi ekki við matarskort. Sú skylda er til dæmis lögð á landbúnaðarráðherra að úthluta tollkvótum skv. 65. gr. A búvörulaga ef framboð á viðkomandi vöru er ekki nægjanlegt á innanlandsmarkaði eða sýnt þykir að það verði ekki nægjanlegt á næstu þremur mánuðum, sbr. 1. mgr. ákvæðisins. Það er því ekki aðeins heimild til að opna fyrir þennan innflutning, heldur er ráðherra skyldugur að gera það í ljósi þess að skortur er fyrirsjáanlegur. Ýmis fordæmi eru fyrir beitingu þessarar heimildar á undanförnum árum. 

Tollar á eggjum eru svo háir að innflutningur þeirra er ekki raunhæfur nema niðurfelling tolla komi til. Á innflutt egg er lagður 30% verðtollur, auk 208-390 króna magntolls á hvert kíló. Á kíló af ferskum eggjum, sem keypt væri til landsins á 400 krónur, myndi þannig samkvæmt tollskrá leggjast 120 króna verðtollur og 243 króna magntollur. Þannig myndi innkaupsverð vörunnar hátt í tvöfaldast og hún yrði ekki samkeppnisfær.

Þá skorar FA á stjórnvöld að uppfylla skuldbindingar sínar samkvæmt EES-samningnum og leyfa innflutning á ógerilsneyddum, ferskum eggjum sem staðist hafa heilbrigðiseftirlit í öðrum EES-ríkjum. Eftirlitsstofnun EFTA hefur komist að þeirri niðurstöðu að bann við innflutningi á ferskum eggjum brjóti í bága við EES-samninginn og sé fyrst og fremst tæknileg viðskiptahindrun.

Stjórnvöld hindra samkeppni
FA bendir á að nægt framboð er af eggjum frá viðurkenndum framleiðendum í nágrannalöndunum, sem uppfylla ströng skilyrði um heilbrigði vörunnar, dýravelferð og aðbúnað á eggjabúum og hafa margvíslegar opinberar vottanir þar að lútandi. Stjórnvöld hindra hins vegar að íslenskir neytendur hafi aðgang að slíkum vörum, annars vegar með háum tollum og hins vegar með tæknilegum viðskiptahindrunum í formi kröfu um gerilsneyðingu, sem ekki er gerð til innlendra framleiðenda.
 

„Á þessum sviðum eins og öðrum er samkeppnin hvati til þess að standa sig betur. Neytendur eiga að fá sem ríkulegastar og réttastar upplýsingar um uppruna vöru, aðstæður við framleiðsluna og eftirlit með þeim vottunum sem framleiðendur hafa og svo eiga þeir að hafa frelsi til að velja,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA. 

Nýjar fréttir

21. desember 2024
21. desember 2024

Innskráning