Stjórnvöld vilja endurskoða blómatolla

06.12.2019

Fjármálaráðuneytið hyggst hefja vinnu við endurskoðun á blómatollum, í framhaldi af því að Félag atvinnurekenda, með stuðningi 25 blómaverslana, -innflytjenda og -verkstæða, sendi ráðuneytinu erindi um lækkun á blómatollum í október. Atvinnuvegaráðuneytið og embætti tollstjóra munu einnig koma að þessari vinnu, en FA sendi bæði Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra og Kristjáni Þór Júlíussyni sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra erindi um blómatollana.

Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, segist í samtali við frettabladid.is fagna þessu. „Það hefur ekkert verið ákveðið um breytingar á tollum, en ég held að okkur hafi tekist að sýna ráðuneytinu fram á að núverandi kerfi ofurtolla á blómum er mjög óhagstætt bæði verslunum og neytendum, án þess að þjóna endilega þeim tilgangi að vernda innlenda blómaframleiðendur,“ segir Ólafur. „Það er hægt að gera miklar breytingar í frjálsræðisátt og auka samkeppni, án þess að það komi niður á hagsmunum innlendrar framleiðslu, en hún hefur tekið miklum breytingum frá því að núverandi kerfi verndartolla var stillt upp.“

Vilji til að breyta gölluðu regluverki
Tillögur Félags atvinnurekenda til ráðgjafanefndar um inn- og útflutning landbúnaðarvara hafa ekki hlotið brautargengi að undanförnu, en FA hefur annars vegar farið fram á að felldir yrðu niður tollar á túlipönum vegna ónógs framboðs af þeim og hins vegar gert tillögur til nefndarinnar um að heimildir til að flytja inn takmarkað magn af blómum á lægri tollum, svokallaðir tollkvótar, verði auknar verulega.

„Nefndin vinnur samkvæmt regluverki sem er meingallað og skilar iðulega furðulegum niðurstöðum um að enginn skortur sé á vörum þegar hann bókstaflega blasir við. Nú eru stjórnvöld til í að endurskoða alla umgjörð innflutnings á blómum og það leiðir vonandi til skynsamlegri niðurstaðna,“ segir Ólafur á vef Fréttablaðsins.

Nýjar fréttir

Innskráning