Stuðningur við ESB-viðræður snarminnkar

31.01.2017

Aðildarfyrirtækjum Félags atvinnurekenda, sem telja að halda hefði átt áfram aðildarviðræðum við Evrópusambandið, snarfækkar á milli ára samkvæmt niðurstöðum árlegrar könnunar á meðal félagsmanna. Þá hefur stuðningur við ESB-aðild Íslands minnkað verulega.

Þannig segjast nú samtals 35,1% á þeirri skoðun að halda hefði átt aðildarviðræðunum áfram. Í sambærilegri könnun í fyrra voru 57% á þeirri skoðun og 60% árið 2015. Í fyrsta sinn um árabil segist meirihluti félagsmanna á þeirri skoðun að ekki hefði átt að halda viðræðunum áfram, eða 52%.

Er spurt var hvort Ísland ætti að ganga í ESB sögðust samtals tæplega 17% sammála, en voru um 30% í fyrra. Andvígir inngöngu í ESB eru hins vegar tæplega 56%.

Afstaðan til upptöku evru er sömuleiðis lítið eitt neikvæðari en á síðasta ári. Nú segjast tæplega 34% hlynnt upptöku evru, en nærri helmingur, eða 48%, eru á móti. Niðurstöður varðandi einhliða upptöku annars gjaldmiðils og hvort krónan sé framtíðargjaldmiðill fyrir Ísland eru hins vegar svipaðar og í fyrra.

Evropumal

Könnunin var gerð dagana 18.-24. janúar. Hún var send til forsvarsmanna 152 fyrirtækja með beina félagsaðild og svöruðu 77, eða rúmlega 50%.

Nýjar fréttir

Innskráning