Þriðji orkupakkinn er ekki stóra breytingin

16.01.2019
Birgir Tjörvi Pétursson og Ragna Árnadóttir voru frummælendur á fundi FA og ÍEV

Ragna Árnadóttir, aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar, segir að raforkulöggjöf Evrópusambandsins, sem tekin hafi verið upp í EES-samninginn, hafi haft í för með sér miklar umbætur á íslenskum orkumarkaði og þjónað íslenskum hagsmunum vel. Stóra breytingin í þeim efnum hafi orðið með raforkulögum, sem sett voru 2003, en þriðji orkupakkinn svokallaði sé aðeins viðbót við þá stóru breytingu. Á fundi FA og Íslensk-evrópska viðskiptaráðsins í morgun undirstrikaði Ragna að þriðji orkupakkinn fæli ekki í sér skyldu til að leggja sæstreng milli Íslands og annarra landa, hann breytti engu um eignarhald eða forræði á orkuauðlindum og kallaði ekki á breytingar í starfsemi eða eignarhaldi Landsvirkjunar.

Hægt er að horfa á upptöku af fundinum í heild í spilaranum hér að neðan.

Ragna fór í erindi sínu yfir breytingar á orkumarkaðnum allt frá því svokallaður fyrsti orkupakki ESB var samþykktur 1996. Á honum voru reist raforkulögin sem sett voru 2003, en þau fólu í sér grundvallarbreytingar á íslenskum orkumarkaði, sem Ragna skýrði með tveimur myndum sem birtar eru hér að neðan.

 

Evrópureglurnar styrkja samningsstöðuna
Ragna sagði að aðild að innri orkumarkaði ESB hefði skapað skilyrði og aukið samkeppni í í orkuvinnslu og orkusölu, sem aftur stuðlaði að hagkvæmari rekstri, og aukið gegnsæi og neytendavernd. Aðild að innri markaðnum hefði skýrt kostnaðarskiptingu milli vinnslu, flutnings, dreifingar og sölu. Sömuleiðis styrkti hún stöðu endurnýjanlegra orkugjafa, en Ísland væri í einstakri stöðu með 100% endurnýjanlega orku. Orkulöggjöfin hefði skapað ný viðskiptatækifæri; Ísland keppti á innri markaðnum um viðskiptavini sem gætu á móti gengið að ákveðnu viðskiptaumhverfi sem vísu. Þá hefði aðild að orkumarkaði ESB styrkt samningsstöðu Íslands gagnvart alþjóðlegum stórfyrirtækjum. „Alþjóðleg stórfyrirtæki eru mjög öflugir viðskiptavinir og öflugir viðsemjendur og þannig á það að vera. Við verðum líka að vera öflug og hafa kerfi sem styrkir okkar samningsstöðu. Með því að taka þátt í samkeppnismarkaði og innri markaði EES, þar sem okkur er veitt ákveðið aðhald, hefur samningsstaða okkar án efa styrkst,“ sagði Ragna.

Í svari við spurningu í lok fundar, þess efnis hvaða áhrif það hefði ef þriðji orkupakkinn yrði ekki innleiddur í íslensk lög eins og samið hefur verið um, sagði Ragna að það væri tvímælalaust gott fyrir Ísland að starfa í því umhverfi sem Evrópureglurnar settu. „Við þurfum líka að spyrja hvað er í húfi og hverjir myndu helst vilja að við værum ekki í þessu umhverfi. Það er borðleggjandi jafnvægi í því að hafa stóra viðskiptavini og öflug orkufyrirtæki sem starfa í öflugu lagaumhverfi. Þetta er mjög mikilvægt jafnvægi og ekki gott ef hvor aðilinn sem er er hinum algerlega yfirsterkari.“

Ragna sagði að helstu áhrif þriðja orkupakkans á orkumarkaðinn væru aukið sjálfstæði Orkustofnunar, sem myndi kalla á lagabreytingu og að Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) myndi hafa bindandi ákvörðunarvald í afmörkuðum málum tengdum sæstrengjum, þar sem stofnunin færi með það vald sem ACER, orkumálastofnun ESB, færi með gagnvart ESB-ríkjum. Það atriði hefði engin áhrif á íslenskan orkumarkað þar sem hann væri ekki tengdur öðrum með sæstreng. Þá myndi orkupakkinn auka neytendavernd raforkukaupenda og tryggja aukna upplýsingagjöf, meðal annars um rafmagnsverð.

Húsfylllir var á fundi ÍEV og FA í Húsi verslunarinnar.

Stingur enginn í samband án leyfis
Orkupakkinn myndi hins vegar engu breyta um eignarrétt á orkulindum eða forræði þeirra. Hann legði heldur engar skyldur á Ísland hvað varðar lagningu sæstrengs. Engin krafa væri um breytingu á starfsemi Landsvirkjunar eða einkavæðingu fyrirtækisins. Þá væri ekki krafa um að koma á fót orkukauphöll.

Ragna undirstrikaði að enginn af orkupökkunum þremur fæli í sér skyldu til að leggja sæstreng; ákvörðun um slíkt væri alfarið í höndum Íslendinga. Ákvörðunarvald ACER, sem ESA færi með gagnvart Íslandi, lyti að tilvikum sem vörðuðu ágreining eftirlitsaðila um skilmála og skilyrði fyrir aðgangi að og rekstraröryggi sæstrengs eða flutningslínu yfir landamæri. Ákvarðanirnar beindust að eftirlitsyfirvöldum en ekki einkaaaðilum. Þá væri skýrt að valdheimildir ACER – ESA í tilviki Íslands – lytu á engan hátt að þeirri ákvörðun hvort leggja ætti sæstreng eða ekki.

Ragna sagðist þeirrar skoðunar að ætti að leggja sæstreng, yrði Alþingi að koma að því með setningu löggjafar. „Það kemur enginn hér með snúruna og stingur í samband án þess að fá fyrir því leyfi.“

Múrar brotnir með innri markaðnum
Birgir Tjörvi Pétursson lögmaður fjallaði um þriðja orkupakkann í samhengi við stjórnarskrá Íslands og EES-rétt, en því hefur verið haldið fram að löggjöfin, sem Ísland hefur þegar samþykkt í sameiginlegu EES-nefndinni að innleiða, geti farið á svig við stjórnarskrána. Birgir benti á að við værum í dag í þeirri stöðu að EES-samningurinn hefði haft mjög mikil áhrif á íslenskan orkumarkað og raforkukerfi og farið hefði verið í meiriháttar fjárfestingar til að koma á því samkeppnisumhverfi sem EES-rétturinn kveður á um. Losað hefði verið um tök ríkisins á markaðnum, múrar milli landa brotnir niður og komið á skipulagi frjálsra viðskipta og samkeppni yfir landamæri um alla álfuna. Orkumálin hefðu frá upphafi verið hluti af innri markaðnum og EES-samningnum.

Birgir sagði að EES-reglur, samtals 9.000 gerðir sem innleiddar hafa verið á 25 árum, hefðu skotið rótum í íslensku lagaumhverfi. Ísland hefði staðið býsna vel að innleiðingu reglnanna, óháð því hvaða ríkisstjórn hefði verið við völd. Óhætt væri því að segja að EES-samningurinn væri hluti af þverpólitískri stefnumörkun íslenskra stjórnvalda í Evrópumálum í aldarfjórðung. „Það væri þá meiriháttar stefnubreyting af hálfu íslenskra stjórnvalda að snúa af þessari leið,“ sagði hann.

Ekkert stjórnarskrárbrot
Birgir Tjörvi sagði það sína afdráttarlausu niðurstöðu að þriðji orkupakkinn fæli ekki í sér fullveldisafsal sem bryti í bága við stjórnarskrá, en slíku hefur verið haldið fram. Sú spurning kæmi ekki einu sinni upp þegar um væri að ræða að íslenskar stofnanir tækju ákvarðanir samkvæmt lögum sem hefðu verið innleidd í íslenskan rétt. Spurningar vöknuðu eingöngu þar sem alþjóðlegri stofnun væri falið að taka ákvarðanir á grundvelli reglnanna. Þetta væru almennt frekar fá tilvik og vörðuðu fyrst og fremst reglur um viðskipti yfir landamæri. Þau hefðu enga þýðingu á meðan Ísland tengdist ekki evrópskum orkumarkaði með sæstreng. Færi hins vegar svo að strengur yrði lagður, væri mikilvægt að hafa velt þessum spurningum fyrir sér. Valdheimildir ACER yrðu samkvæmt ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar fólgnar ESA, sem Ísland ætti aðild að. Fyrrnefnda stofnunin myndi ekki taka neinar ákvarðanir gagnvart Íslandi.

Birgir Tjörvi sagðist þeirrar skoðunar að það valdframsal sem hugsanlega fælist í þriðja orkupakkanum rúmaðist vel innan þeirra skilyrða sem talin hefðu verið gilda um framsal ríkisvalds til alþjóðlegra stofnana sem rúmaðist innan stjórnarskrár. Ýmis fordæmi væru fyrir valdaframsali sem væri mun víðtækara og nefndi hann þar sérstaklega reglur um evrópskt fjármálaeftirlit, sem þegar hafa verið innleiddar á Íslandi. Hann sagðist alveg ósammála þeirri fullyrðingu að þriðji orkupakkinn væri „kornið sem fyllti mælinn“ hvað varðaði valdaframsal til alþjóðastofnana og sagðist ekki sjá nein haldbær rök fyrir þeirri fullyrðingu. „Þegar maður skoðar þriðja orkupakkann, bætir hann ekki neinu við sem styður þetta sjónarmið.“

Þarf miklu vandaðri umræðu ef gera á grundvallarbreytingu á EES
„Svo er auðvitað hin spurningin; maður hefur skilning á að margir séu þeirrar skoðunar að raforkumál eigi ekkert að vera Evrópumál og við eigum ekki að markaðsvæða raforkukerfið. En staðreyndin er sú að þannig er það, það er búið að innleiða þessar reglur. Raforkumálin eru Evrópumál samkvæmt samningsskuldbindingum okkar samkvæmt EES-samningnum. Það er sá veruleiki sem við búum við. Það væri mjög mikil pólitísk stefnubreyting ef Íslendingar myndu ákveða að innleiða ekki þær reglur sem samþykktar hafa verið á vettvangi sameiginlegu EES-nefndarinnar. Ef hugur þjóðarinnar stendur til að gera breytingar í þessum efnum þarf að mínu mati miklu vandaðri umræðu heldur en að hafnað sé einhverjum jaðarbreytingum á löggjöf, sem er meira og minna búið að innleiða. Það er ekki leiðin til að gera grundvallarbreytingar á EES-samningnum,“ sagði Birgir Tjörvi. Hann sagði að yrði það niðurstaðan, myndi þurfa að vinda ofan af þeim fjárfestingum og vinnu sem lagt hefði verið í til að laga íslenskan orkumarkað að evrópska innri markaðnum.

Birgir sagði að hvað varðaði spurninguna hvað myndi gerast ef innleiðingu reglna þriðja orkupakkans yrði hafnað, væri stutta svarið að samningaviðræður myndu hefjast á vettvangi sameiginlegu EES-nefndarinnar. Birgir Tjörvi sagðist illa átta sig á því hver yrðu samningsmarkmið Íslands í slíkum viðræðum. „Hvað er það sem Íslendingar eru í raun óánægðir með og á hverju myndu menn krefjast breytinga? Þeirri spurningu er ósvarað. Þeir sem hafa gagnrýnt málið hafa ekki svarað því með hvaða hætti þeir myndu vilja leggja upp í slíkar samningaviðræður.“

Þá sagði Birgir að óvissan um pólitískar afleiðingar þess að hafna innleiðingu reglnanna væri algjör.

Ríkið virði skuldbindingar og varðveiti traust
Páll Rúnar M. Kristjánsson, formaður Íslensk-evrópska viðskiptaráðsins, sagði í sínu innleggi á fundinum að í viðskiptum, og þá sér í lagi milliríkjaviðskiptum eins og ÍEV stendur vörð um, væri traust hornsteinn alls. „Aðilar viðskipta verða að treysta hvor öðrum og þeir verða að líka að treysta því ríki sem gagnaðilinn býr í. Þeir verða að treysta því að í því ríki séu réttlátar og eðlilegar leikreglur, að þeim sé fylgt eftir með eðlilegum hætti, að þeim sé ekki breytt með afturvirkum hætti, að það sé hægt að sjá fyrir afleiðingar gjörða sinna og að ríkið muni standa við þær skuldbindingar sem það hefur undirgengist. Ríkin sem eiga í hlut hafa líka réttmætar og eðlilegar gagnvart hvort öðru um að gagnaðilinn muni standa við sínar skuldbindingar og orð skuli standa. Þetta traust í milliríkjaviðskiptum er ekki bara siðferðislegs eðlis; það eykur öryggi, velferð og stuðlar að mikilli hagkvæmni,“ sagði Páll.

Hann sagði að í ljósi þessa vekti það óneitanlega ugg að undanfarin misseri hefðu komið upp tilfelli þar sem íslenska ríkið hefði ýmist neitað að gangast við skuldbindingum sínum á alþjóðavettvangi, virt að vettugi dóma Hæstaréttar og erlendra dómstóla eða látið ólögmætt ástand viðgangast í samfélaginu, þrátt fyrir skilyrðislausar skuldbindingar sínar og réttmætar væntingar um að við þær verði staðið. „Þá er jafn skaðleg sú viðleitni að ætla sér að endursemja um það sem þegar hefur verið samið um. Traust í viðskiptum er ekki bara mikilvægt, það er líka verðmætt. Með trausti náum við að nýta betur framleiðsluþætti og lágmarka sóun. Það er því allsendis ótækt að íslenska ríkið tefli trausti þjóðarinnar og íslenskra viðskiptaaðila í tvísýnu. Það er þvert á móti hlutverk ríkisins að hámarka það traust, vera fyrirmynd, sýna styrk og starfa af einbeittri hugsjón réttarríkisins, alveg óháð því hvernig vindar hentiseminnar kunna að blása hverju sinni,“ sagði Páll Rúnar.

Glærur Rögnu
Glærur Birgis Tjörva

Nýjar fréttir

Innskráning