Tollkvóta fyrir búvörur úthlutað mánuði eftir að hann átti að taka gildi: Miklar hækkanir á útboðsgjaldi

26.01.2021
Útboðsgjald fyrir innfluttar skinkur 29-faldast frá síðasta útboði.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur birt auglýsingu um niðurstöðu útboðs á tollfrjálsum innflutningskvóta fyrir búvörur samkvæmt samningi Íslands og Evrópusambandsins. Úthlutunin tekur til tímabilsins janúar til apríl 2021 og er tollkvótanum því úthlutað tæpum mánuði eftir að hann tók gildi. Miklar hækkanir eru á útboðsgjaldi, sem innflytjendur þurfa að greiða til að fá að flytja vörurnar inn án tolla og tugfaldast það í ýmsum tilvikum. Þetta mun án nokkurs vafa valda verðhækkunum á matvörumarkaði.

Um áramót var tekin á ný upp eldri aðferð við úthlutun tollkvóta og innflutningsheimildunum er því úthlutað til hæstbjóðanda í stað þess að viðhafa svokallað jafnvægisútboð, sem aðeins var framkvæmt einu sinni og stuðlaði að verulegri lækkun á útboðsgjaldinu.

Upptaka jafnvægisútboðsins í ársbyrjun 2020 var að sögn Kristjáns Þórs Júlíussonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, til þess að stuðla að „auknu vöruúrvali, lægra vöruverði og aukinni samkeppni á markaði með landbúnaðarvörur.“ Ráðherrann lét hins vegar í lok nóvember undan þrýstingi hagsmunahópa í landbúnaðinum og lagði fram frumvarp um að horfið skyldi aftur til fyrri útboðsaðferðar, með tilheyrandi skaða fyrir samkeppni og kostnaði fyrir neytendur. Upphaflega vildi ráðherra að gamla aðferðin gilti í ár, en í meðförum Alþingis lengdist sá tími í eitt og hálft ár.

Niðurstaða útboðsins, borin saman við tvö síðustu útboð, sést í töflunni hér að neðan.

Útboðsgjaldið hækkar í öllum tilvikum nema hvað varðar osta, þar sem það lækkar lítils háttar. Gjald fyrir nautakjötskvóta hækkar þannig um 65% og fyrir lífrænt ræktað alifuglakjöt um 115% svo dæmi séu tekin. Fyrir skinkur og pylsur tugfaldast útboðsgjaldið.

Meðvituð ákvörðun um að hækka matarverð
„Það verður ekki annað séð en að landbúnaðarráðherra hafi tekist vel upp í þeirri fyrirætlan sinni að hefta samkeppni á búvörumarkaði og skaða hag innflutningsverslunar og neytenda,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA. Það er komið fram sem FA og fleiri samtök verslunar, neytenda og launþega vöruðu við, að breytt útboðsaðferð myndi valda mikilli hækkun á útboðsgjaldinu og þar með á vöruverði. Með því að innflutningur hækkar í verði er innlendum framleiðendum einnig auðveldað að halda uppi verðinu á sinni vöru. Á tímum þegar miklar þrengingar eru hjá mörgum heimilum og þúsundir þiggja atvinnuleysisbætur, taka stjórnvöld meðvitaða ákvörðun um að hækka matarverð.“

Vinnubrögðin valda innflytjendum fjárhagstjóni
Félag atvinnurekenda gagnrýnir einnig að tollkvótum skuli fyrst úthlutað þegar tæpur mánuður er liðinn af gildistíma þeirra. Frumvarp ráðherra kom ekki fram á Alþingi fyrr en 30. nóvember. Nauðsyn þess var rökstudd með því að eftirspurn eftir búvörum hefði fallið vegna kórónuveirufaraldursins. Það ástand hafði legið fyrir mánuðum saman. Frumvarpið varð að lögum 18. desember og nú, rúmum fimm vikum síðar, er tollkvóta úthlutað. Venjan hefur að sjálfsögðu verið sú að úthlutun fari fram vel áður en tollkvótar eiga að taka gildi.  Nú ber einnig svo við að tollkvótinn er gefinn út til fjögurra mánaða, en stysti tími sem tollkvótar hafa áður gilt er sex mánuðir. Þessi breyting eykur á óvissu, fyrirhöfn og kostnað innflytjenda. Innflytjendur geta fyrst í dag pantað vörur sem á að flytja inn á tollkvóta og það getur tekið þær 2-3 vikur að koma til landsins. Þá hafa glatast 6-7 vikur af fjögurra mánaða gildistíma tollkvótans.

Seinnihluta síðastliðins árs neitaði ráðuneytið innflytjendum um framlengingu á gildistíma tollkvóta, þrátt fyrir að slík framlenging hafi iðulega verið veitt undanfarin ár ef ekki næst að flytja inn allan kvótann á gildistíma hans.

Ólafur Stephensen bendir á að ætli ráðuneytið nú aftur að neita innflytjendum um framlengingu á gildistíma í lok þessa stutta tímabils, sem aðeins nýtist að hluta vegna seinkunar úthlutunarinnar, sé veruleg hætta á að fjármunir glatist, þ.e. fyrirtækjunum takist ekki að flytja inn allan tollkvóta sinn og greitt útboðsgjald sé glataðir fjármunir. Á endanum kemur það tap fram í vöruverði og bitnar á neytendum.

„Það er erfitt að verjast þeirri hugsun að hér sé ráðuneytið beinlínis að draga lappirnar og valda innflytjendum eins miklu tjóni og mögulegt er. Fyrirtækin hljóta að íhuga að fara fram á bætur fyrir það tjón,“ segir Ólafur.

Innlendir bændur og afurðastöðvar áfram stórtækir í innflutningi
Þrátt fyrir að innlendar afurðastöðvar hafi á undanförnum misserum kvartað undan innflutningi á kjöti eru þær áfram stórtækar í innflutningi. Þannig fá innlendir svínakjötsframleiðendur um 64% tollkvótans fyrir svínakjöt. Innlendir framleiðendur kaupa einnig um 16% tollkvótans fyrir alifuglakjöt og um 10% pylsukvótans.

 

Nýjar fréttir

21. desember 2024
21. desember 2024

Innskráning