Útboðsgjaldið étur upp tollfrelsið

01.12.2014

Atvinnuvegaráðuneytið auglýsti í síðasta mánuði tollfrjálsan innflutningskvóta fyrir ýmsar búvörur frá Evrópusambandinu. Umsóknir innflutningsfyrirtækja hljóða upp á um sjöfalt það magn sem er í boði og hefur eftirspurnin í ýmsum tilvikum tvöfaldast eða meira en það frá útboðinu í fyrra.

 

Svo dæmi sé tekið er 100 tonna tollfrjáls innflutningskvóti á nautakjöti í boði. Í ár sækja innflutningsfyrirtæki um að fá að flytja inn samtals 692 tonn, en í fyrra námu umsóknirnar 334 tonnum.

 

Sívaxandi eftirspurn eftir innfluttum búvörum helgast annars vegar af vinsældum þeirra hjá neytendum og hins vegar af því að innlend framleiðsla annar hreinlega ekki eftirspurn eftir ýmsum grunnvörum eins og nautalundum, beikoni og kjúklingabringum. Vegna þess að tollkvótarnir eru boðnir upp, hækkar útboðsgjaldið sem ríkið innheimtir sífellt. Innflutningsfyrirtækin eiga ekki annan kost en að velta útboðsgjaldinu út í verðlagið og hagur neytenda rýrnar sem því nemur.

 

Svo dæmi sé tekið af vinsælli vöru, kjúklingabringum, þurftu innflutningsfyrirtækin í fyrra að greiða 616 krónur fyrir hvert kíló af „tollfrjálsum“ innflutningskvóta. Við þann kostnað bætist um það bil 25 króna fjármagnskostnaður, en fyrirtækin þurfa að leggja út fyrir útboðsgjaldinu áður en nokkur innflutningur hefur átt sér stað eða nokkrar tekjur komið inn af sölu vörunnar. Samtals er þetta 641 króna á kíló. Miðað við 597 króna innflutningsverð á kjúklingabringum frá ESB (Hagstofa Íslands, september) er almenni tollurinn á innflutningi frá ESB hins vegar 647 krónur (540 króna magntollur á kíló og 18% verðtollur). Munurinn er sex krónur á kíló og augljóst að ávinningur neytenda af „tollfrelsinu“ er lítill sem enginn. Kíló af frosnum, innfluttum kjúklingabringum, sem nú kostar um sextán hundruð krónur í frystiborðum stórmarkaðanna, gæti farið undir þúsund krónur ef þessi gjaldtaka og tollheimta ríkisins ætti sér ekki stað.

 

Gera má ráð fyrir að í útboði þessa árs hækki útboðsgjaldið enn. Þetta kerfi þjónar augljóslega ekki því upphaflega markmiði að fjölga kostum neytenda og auka verðsamkeppni á búvörumarkaðnum.

 

Nokkur innflutningsfyrirtæki hafa höfðað mál á hendur ríkinu þar sem þau telja útboðsgjaldið ólögmætt og krefjast endurgreiðslu þess. Gera má ráð fyrir að þau mál verði flutt í febrúar.

 

Frétt RÚV um málið

 

Yfirlit um umsóknir um tollkvóta frá ESB 2014 og 2015

Nýjar fréttir

21. desember 2024
21. desember 2024

Innskráning