Viðskipti Íslands og ESB í brennidepli

17.05.2018
Frá málþinginu. Ólafur Stephensen, fundarstjóri, Magnús Óli Ólafsson og Kristján Þór Júlíusson.

Viðskipti Íslands og Evrópusambandsins voru í brennidepli á málþingi FA og sendinefndar ESB á Íslandi, sem haldið var í gær á undan stofnfundi Íslensk-evrópska viðskiptaráðsins. Rætt var meðal annars um stöðu og rekstur EES-samningsins, tollasamning Íslands og ESB sem nýlega gekk í gildi og matvælaeftirlit og viðskipti með ferskar matvörur á Evrópska efnhagssvæðinu. Hægt er að horfa á fundinn í heild í spilaranum hér að neðan.

Bæði bændur og neytendur græða á tollasamningi
Michael Mann, sendiherra Evrópusambandsins á Íslandi, fjallaði meðal annars um tollasamninginn og sagðist telja að bæði Ísland og ESB myndu hagnast á honum, að því gefnu að framkvæmdin væri í anda samningsins – en um það hefur verið deilt. Enginn hefði neitt að óttast vegna aukinnar fríverslunar og tekið hefði verið tillit til þess að ákveðnir geirar í landbúnaði væru viðkvæmir. „Bændum og matvælaframleiðendum beggja aðila munu hlotnast ný markaðstækifæri og neytendur munu græða á meira vöruúrvali og meiri samkeppni á markaði,“ sagði Mann.

Hann sagði að sendinefnd ESB hér á landi vildi aðstoða íslensk fyrirtæki við að njóta kosta EES-samningsins til fulls og hvatti Íslensk-evrópska viðskiptaráðið og aðildarfyrirtæki þess til að vekja athygli sendinefndarinnar á vandamálum sem sneru að rekstri EES eða annarra samninga Íslands og ESB eða regluverki EES. Erindi Manns hefst á 5.10.

Vegið að frjálsum viðskiptum
Magnús Óli Ólafsson, formaður FA og forstjóri Innness ehf., sagðist hafa áhyggjur af því að vegið væri að frjálsum viðskiptum Íslands og Evrópusambandsins. Hann nefndi meðal annars seina innleiðingu EES-reglna, kröfur um að tollasamningi Íslands og ESB yrði sagt upp eða unnið gegn áhrifum hans og kröfur úr sömu átt um að ekki yrði farið að dómi EFTA-dómstólsins um að Ísland verði að heimila innflutning á fersku kjöti, eggjum og ógerilsneyddri mjólk. Magnús gagnrýndi sérstaklega áform sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um að skerða einhliða innflutningskvóta fyrir kjöt, sem tollasamningurinn við ESB kveður á um og um að fjölga á ný útboðum á tollkvóta, en fjölgun útboða leiddi á sínum tíma til verðhækkana á innfluttu vörunni. Erindi Magnúsar hefst á 12.10

Var vitað fyrirfram að kjötmálið væri tapað
Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, ræddi í erindi sínu meðal annars um dóm EFTA-dómstólsins varðandi bann við innflutningi á ferskvörum. Hann sagði að íslensk stjórnvöld ættu ekki annan kost en að breyta regluverkinu og heimila innflutninginn. Það myndi hins vegar ekki gerast þegar í stað. Hann gagnrýndi að þrátt fyrir að stjórnvöldum hefði undanfarin ár mátt vera ljóst hver niðurstaða EFTA-dómstólsins yrði, hefði ekkert verið gert til að fá svokallaðar viðbótartryggingar til að hamla gegn því að fluttar yrðu inn vörur smitaðar af salmonellu eða kamfýlóbakter, þrátt fyrir að innflutningur ferskvöru yrði leyfður. Í átta ár hefði ekkert verið unnið í þessum málum, en nú væri sú vinna komin í fullan gang og í gær hefði verið fundur embættismanna atvinnuvegaráðuneytisins og Evrópusambandsins vegna málsins. „Ég sé eftir þeim tíma sem fór forgörðum, af því að það var alveg vitað í hvað stefndi þegar málareksturinn hófst,“ sagði Kristján.

Tollkvóti fyrir kjöt ekki skertur nema að ákvörðun Alþingis
Kristján ræddi áform sín um að skerða tollkvóta fyrir kjöt frá Evrópusambandinu með því að umreikna þá yfir í kjöt með beini og benti á að Evrópusambandið gerði slíkt hið sama fyrir íslenskt lambakjöt. Hins vegar yrði framkvæmdin óbreytt út þetta ár og henni yrði ekki breytt nema með ákvörðun Alþingis. „Ef á að breyta henni þá er skýlaust ákvæði í stjórnarskrá að það má ekki leggja nýja skatta eða gjöld á nema með ákvörðun þingsins,“ sagði Kristján. Hann sagðist enn bíða svara um ákveðna óvissuþætti í þessu máli og lagði áherslu á að enn hefði engu verið breytt.

Í svari við fyrirspurn frá fundarmanni í lok málþingsins sagði ráðherra að endurskoðun á úthlutunarkerfi fyrir tollkvóta stæði fyrir dyrum. Hann teldi brýna nauðsyn bera til að fara ofan í þessi mál og myndi setja á fót starfshóp um málið á næstunni. Erindi Kristjáns Þórs hefst á 25.10.

Engin neikvæð áhrif í Noregi af innflutningi ferskra búvara
Ólafur Valsson, dýralæknir og sérfræðingur í matvælaeftirliti ESB er jafnframt annar höfundur skýrslu FA um áhættu vegna innflutnings á búvörum, sem út kom í fyrra. Hann fór í erindi sínu yfir þær reglur sem gilda á Evrópska efnahagssvæðinu um eftirlit með framleiðslu, geymslu, flutningi og sölu ferskra matvæla, hvernig áhættugreining færi fram og hvernig komið væri í veg fyrir að sjúkdómar bærust á milli landa með matvælum. Ólafur fjallaði meðal annars um stöðu mála í Noregi, en þar hafa árum saman gilt sömu reglur og Íslandi ber að fara eftir varðandi innflutning á fersku kjöti, mjólkurvörum og eggjum. Norðmenn leyfa þar að auki innflutning lifandi dýra, sem er óheimill á Íslandi, enda fékk landið undanþágu frá ákvæðum EES-samningsins vegna stöðu dýrasjúkdóma hér á landi. Niðurstaða Ólafs var að hægt væri að fullyrða að lýðheilsa í Noregi væri ágæt og heilbrigði dýra jafnframt með því besta sem gerðist; þannig væri júgurheilbrigði hjá kúm meira en á Íslandi. „Áhrifin af þessu hjá Norðmönnum, að vera í EES og fylgja þessum reglum, eru alla vega ekki neikvæð. Ég held þau séu óveruleg ef nokkur og ekkert neikvætt í því,“ sagði Ólafur. Erindi Ólafs hefst á 53.40.

Fólki fjölgað í Brussel
Jóhanna Jónsdóttir, ráðgjafi í EES-málum í utanríkisráðuneytinu, ræddi um bætta framkvæmd EES-samningsins, en stefnt er að því að ná niður innleiðingarhallanum svokallaða á næstu misserum. Þá mun fulltrúum fagráðuneyta og Alþingis í sendiráðinu í Brussel verða fjölgað, með það að markmiði að hægt sé að vinna betur að hagsmunum Íslands á fyrri stigum ákvarðanamótunarferlisins í stofnunum Evrópusambandsins. Jóhanna greindi meðal annars frá því að ríkisstjórnin hefði 11. maí síðastliðinn samþykkt nýjan forgangslista vegna slíkra mála. Jóhanna vísaði meðal annars til nýrrar skýrslu utanríkisráðuneytisins um framkvæmd EES-samningsins. Erindi Jóhönnu hefst á 1.23

 

Glærur Kristjáns Þórs

Glærur Ólafs

Glærur Jóhönnu

Nýjar fréttir

Innskráning