Yfirdýralæknir: Hætta á smiti liggur ekki í löglegum innflutningi

25.10.2016
IMG_3191Morgunblaðið hefur undanfarna daga birt áhugaverðar fréttaskýringar um tækifæri í landbúnaði, ekki síst í ljósi fjölgunar ferðamanna. Í gær var í blaðinu fjallað um sýklalyfjanotkun í landbúnaði og hvernig mætti hindra útbreiðslu sýklaónæmra baktería.
Stundum er talað eins og bæði ofurtollar á innflutt kjöt og innflutningshindranir á borð við kröfuna um að allt kjöt sé fryst fyrir innflutning, muni verja Ísland fyrir sýklaónæmum bakteríum. Viðtal við Sigurborgu Daðadóttur yfirdýralækni staðfestir það sem FA hefur ítrekað bent á í þessari umræðu, að löglegur innflutningur á kjöti er ekki vandamálið hér.
 
Smit milli dýra og manna
Sigurborg segir að svokölluð MRSA-baktería smitist beint úr svínum í menn, fremur en með afurðum. Það þurfi því að verja svínabúin fyrir fólkinu, sem geti smitað svínin.
Yfirdýralæknirinn segir að aukin samskipti við útlönd hafi í för með sér aukna hættu á að dýrasjúkdómar berist til landsins. Þannig má draga þá ályktun að um leið og fjölgun ferðamanna felur í sér tækifæri fyrir landbúnaðinn fylgja henni hættur, sem þarf að vera vakandi fyrir.
 
Hættan liggur ekki í kjötinnflutningi
Um kjötinnflutning segir Sigurborg: „Við erum að flytja inn heilmikið af hráu kjöti en það er allt úr löglega framleiddum vörum sem eiga að hafa farið í gegnum nákvæmlega sama eftirlitskerfi og við erum 
með. Hættan liggur því ekki þar heldur í því að það komi hingað ferðamaður t.d. með hráa pylsu af villtum svínum, sem gætu verið smituð af Afrískri svínapest sem nú breiðist út í austanverðri Evrópu, sem hann keypti á markaði. Hann gæti kastað pylsunni í ruslið hér og það svo farið í svínafóður, en það hefur aukist að fólk haldi svín í bakgarðinum hjá sér, og þannig gætu sjúkdómar borist. Fæstir gera sér grein fyrir þessari leið, að ógleymdum notuðum reiðtygjum.“
Samkvæmt þessu ættu þeir sem hafa áhyggjur af útbreiðslu sýklaónæmra baktería að einbeita sér að eftirliti með heimsóknum á bóndabýli og umfangsmikilli leit í farangri ferðamanna, fremur en því að viðhalda háum tollum og tæknilegum hindrunum í vegi innflutnings á kjöti sem hefur staðist heilbrigðiseftirlit í ríkjum sem búa við sömu matvælalöggjöf og Ísland.

Nýjar fréttir

Innskráning