Fríða skart fékk Njarðarskjöldinn og Tulipop Freyjusóma

15.03.2018
Fríða og Auðunn í Fríðu skarti tóku við Njarðarskildinum úr hendi Dags B. Eggertssonar borgarstjóra.

Fríða skart á Skólavörðustíg hlýt­ur Njarðarskjöld­inn og er ferðamanna­versl­un árs­ins 2017. Verðlauna­af­hend­ing­in fór fram í Höfða í gær en þetta er í 22. skipti sem verðlaun­in eru veitt. Félag atvinnurekenda stendur að verðlaununum ásamt Reykjavíkurborg og fleiri félagasamtökum og fyrirtækjum. Tulipop, sem einnig er við Skólavörðustíg, fékk Freyjusóma, viðurkenningu til þeirrar verslunar sem kemur með ferskastan andblæ í ferðamannaverslun í miðbænum.

Njarðarskjöld­ur­inn er viður­kenn­ing og hvatn­ing­ar­verðlaun sem veitt eru ár­lega til versl­ana eða versl­un­ar­eig­enda fyr­ir góða þjón­ustu og fersk­an and­blæ í ferðaþjón­ustu. Við til­nefn­ingu ferðamanna­versl­un­ar árs­ins er leit­ast við að verðlauna þá versl­un sem hef­ur náð hvað best­um sölu­ár­angri til er­lendra ferðamanna milli ára. Horft er til markaðs- og kynn­ing­ar­mála, svo sem aug­lýs­inga, vefjar og út­lits al­mennt. Aðrir þætt­ir eru einnig skoðaðir sér­stak­lega svo sem þjón­ustu­lund, af­greiðslu­tími, merk­ing­ar um end­ur­greiðslu virðis­auka, lýs­ing, tungu­mála­k­unn­átta starfs­fólks og þekk­ing á sölu­vör­un­um. Njörður, sem skjöld­ur­inn er kennd­ur við, var upp­haf­lega frjó­sem­isguð en síðar guð sæ­far­enda og sagður fé­sæll mjög. Sæ­far­end­ur þess tíma stunduðu gjarn­an kaup­skap og því við hæfi að kenna ár­leg hvatn­ing­ar­verðlaun til ferðamanna­versl­un­ar við guð sigl­inga og viðskipta.

Í ár hlýtur verslunin Fríða Skart Njarðarskjöldinn fyrir verslun sem er í umsögn dómnefndar sögð einkennast af hlýleika og fagmennsku. Fríða Skart er lítið fjölskyldufyrirtæki við Skólavörðustíg, sem hjónin Fríða J. Jónsdóttir og Auðunn G. Árnason reka. Fríða útskrifaðist sem gullsmiður 1992 og hefur starfað við fagið allar götur síðan. Þau opnuðu eigin verslun í Hafnarfirði 2007 en fluttu verslun sína árið 2015 á Skólavörðustíg 18, í hjarta miðbæjar Reykjavíkur.

Tulipop hlýtur Freyjusómann
Freyjusómi er veittur þeirri verslun sem sem þykir koma með hvað ferskastan andblæ í verslunarrekstur á ferðamannamarkaði í borginni fyrir árið 2017. Verslunin Tulipop fær Freyjusómann í ár fyrir „skemmtilega verslun þar sem ævintýrið grípur gesti um leið og labbað er inn. Verslunin er stílhrein, litrík og hefur breytt vöruúrval þar sem fígúrurnar á eyjunni Tulipop finnast í hinum ýmsu hlutverkum,“ eins og segir í rökstuðningi dómnefndar.

Tulipop hönnunarfyrirtækið var stofnað 2010 af tveimur vinkonum, Signýju Kolbeinsdóttur og Helgu Árnadóttur, með það markmið að búa til skapandi og fallega vörulínu fyrir börn á öllum aldri. Signý er hönnuðurinn á bak við veröldina og Helga stýrir viðskiptahlið fyrirtækisins. Tulipop vörulínan er í dag seld í fjölda verslana á Íslandi auk þess að vera til sölu í 8 löndum utan Íslands. Allar vörur er jafnframt hægt að kaupa í vefverslun Tulipop.

Í dóm­nefnd Njarðarskjald­ar­ins sitja full­trú­ar frá Reykja­vík­ur­borg, Miðborg­inni okk­ar, Fé­lagi at­vinnu­rek­anda, Sam­tök­um versl­un­ar og þjón­ustu, Kaup­manna­sam­tök­um Íslands, Global Blue á Íslandi og Tax Free Worldwide – Íslandi. Bjarndís Lárusdóttir, skrifstofustjóri FA, er fulltrúi félagsins í dómnefnd.

Nýjar fréttir

Innskráning