Nýr fríverslunarsamningur við Taíland mun veita Íslandi og hinum EFTA-ríkjunum þremur mikil tækifæri á vaxandi markaði og forskot á samkeppnislönd sín í Evrópu og Norður-Ameríku. Taíland er líklegt til að leika mikilvægara hlutverk á næstu árum ef sú þróun gengur eftir að fyrirtæki færi framleiðslu frá Kína til annarra Asíulanda. Þetta kom m.a. fram í máli Ragnars G. Kristjánssonar, skrifstofustjóra viðskiptaskrifstofu utanríkisráðuneytisins, á fundi FA og Íslensk-taílenska viðskiptaráðsins þar sem nýi fríverslunarsamningurinn var kynntur.
EFTA-ríkin og Taíland náðu saman um fríverslunarsamning í lok nóvember, eftir rúmlega tveggja ára viðræður. Á fundinum kom fram að samningurinn verður undirritaður í Davos í Sviss í næstu viku. Það kemur síðan til kasta Alþingis að fullgilda samninginn og ætti hann að taka gildi í byrjun næsta árs.
Samkeppnisríki í Evrópu og N-Ameríku ekki með jafngóðan aðgang
Í máli Ragnars kom fram að Taíland væri framtíðarmarkaður með um 70 milljónir íbúa, sem færi stækkandi og væri sá næststærsti innan ASEAN, Sambands Suðaustur-Asíuríkja. Taíland væri fjölbreytt og útflutningsmiðað hagkerfi og jafnframt með stóran þjónustugeira, þar sem ferðaþjónusta væri mikilvægust. Þá væri Taíland líklegt til að leika mikilvægt hlutverk ef framleiðsla færðist frá Kína til annarra ríkja í Asíu. Fram til þessa hefði landið hins vegar verið fremur lokað gagnvart fjárfestingum og þar væru enn víðtækir almennir tollar á innflutningsvörum. „Þess vegna er mikið til unnið að gera þennan fríverslunarsamning sem EFTA-ríkin fjögur gerðu við Taíland nú nýverið, sérstaklega af því að Taíland er ekki með fríverslunarsamninga við önnur ríki í Evrópu eða Norður-Ameríku. Þetta gefur sannarlega íslenskum útflytjendum tækifæri og samkeppnisforskot á Taílandsmarkaði,“ sagði Ragnar.
Tollar á öllum helstu útflutningsvörum lækka eða falla niður
Á fundinum fóru Sveinn K. Einarsson, aðalsamningamaður Íslands, og Bylgja Árnadóttir samningamaður yfir helstu atriði samningsins. Þar á meðal er eftirfarandi:
- Tollar falla niður eða lækka á öllum helstu útflutningsvörum Íslands til Taílands. Þar á meðal eru álvörur, drykkir, vörur úr sjávarþara, drykkir, lækningavörur og -tæki, búnaður til matvælaframleiðslu og síðast en ekki síst sjávarafurðir, en þar eru tollar á bilinu 5 til 20%. Tollur á flestum hefðbundnum iðnaðarvörum fellur niður strax við gildistöku samningsins en á öðrum vörum, t.d. sjávarafurðum, falla tollar niður í jöfnum skrefum á tilteknu árabili.
- Ísland fellir niður tolla á sumum matvörum, sem fluttar eru inn frá Taílandi. Þar á meðal eru t.d. kjötfylltar kornvörur og kjötfyllt pasta, maískögglar, unninn maís, unnar túnfiskvörur, grænmeti, hveiti, ávextir, sykur, sælgæti, súkkulaði, kex og drykkjarvörur. Fram kom að þótt umtalsverður innflutningur sé frá Taílandi af kjúklingi hafi íslenska samninganefndin ekki talið sig hafa svigrúm til að semja um lægri tolla á kjúklingakjöti.
- Íslensk fyrirtæki fá greiðari aðgang að þjónustumörkuðum í Taílandi. Þannig mun Taíland veita íslenskum fyrirtækjum og einstaklingum fullan aðgang fyrir tölvu- og hugbúnaðarþjónustu og þjónustu í tengslum við sjávarútveg og bættan aðgang fyrir þjónustu tengda endurnýjanlegri orku.
- Taíland veitir Íslandi ýmsar undantekningar frá þeirri meginreglu að erlendir aðilar megi ekki eiga meira en 49% í taílenskum fyrirtækjum. Þetta á við um fjárfestingar í fiskvinnslu, í hótel- og ferðaþjónustu og ýmsum framleiðslugeirum. Íslendingar munu þá ekki þurfa að sækja um sérstök leyfi til fjárfestinga heldur geta fjárfest að vild.
- Komið verður á fót samstarfsverkefnum EFTA og Taílands í sjávarútvegi. Taílenskir sérfræðingar munu til dæmis geta sótt námskeið í sjávarútvegsskóla Gró á Íslandi til að fræðast um sjálfbæran nýtingu auðlinda og verðmætaaukningu í greininni, en þótt Taíland sé eitt helsta fiskveiðiríki heims er það skemmra á veg komið en Ísland í þeim efnum.
Tilfærsla möguleg frá Kína til Taílands
Fram kom á fundinum að líklegt væri að samningurinn leiddi það af sér að íslenskar sjávarafurðir, sem hafa verið unnar áfram í Kína og síðan fluttar út til Japans, yrðu fremur fluttar út til Taílands, enda hefði Taíland betri aðgang að Japansmarkaði en Kína.
Fram kom að eftir undirritun samningsins verði veittar nánari upplýsingar um einstök tollskrárnúmer, þar sem tollar lækka eða falla niður. Íslensk-taílenska viðskiptaráðið mun leggja sig fram um að miðla upplýsingum um samninginn til félagsmanna. Fyrirtæki geta skráð sig í ráðið á vef FA.