Fríverzlun við Flóaríki seinkar

24.11.2014

Utanríkisráðuneytið hefur, eftir ábendingu frá Félagi atvinnurekenda, birt á vef sínum tilkynningu um að innleiðingu fríverzlunarsamnings EFTA við Persaflóaríkin muni seinka. Þetta er bagalegt fyrir ýmis fyrirtæki, sem gerðu ráð fyrir að samningurinn tæki gildi um mitt ár og hafa lagt í öflun viðskiptasambanda á þeim forsendum.

 

Í tilkynningu ráðuneytisins segir að samningurinn sé á milli EFTA og Samstarfsráðs Arabaríkjanna við Persaflóa (GCC), en því tilheyra Sádi-Arabía, Sameinuðu arabísku furstadæmin, Barein, Óman, Katar og Kúveit. Samningrinn kveður á um lækkun eða niðurfellingu tolla á iðnaðarvörur, sjávarafurðir og unnar landbúnaðarvörur. Auk þess hafa Ísland og aðildarríki GCC gert með sér tvíhliða samkomulag um viðskipti með óunnar landbúnaðarvörur. Samningurinn gekk í gildi 1. júlí síðastliðinn.

 

Fram kemur að aðildarríki GCC hafi nýlega upplýst EFTA-ríkin um að dráttur hafi orðið og muni áfram verða á framkvæmd samningsins í aðildarríkjum þess. Jafnvel komist samningurinn ekki til framkvæmda fyrr en um mitt næsta ár. Þetta þýðir meðal annars, að sögn ráðuneytisins, „að ekki verður unnt að tryggja útflytjendum og innflytjendum vöru á milli Íslands og aðildarríkja GCC að þeir geti nýtt sér ákvæði fríverslunarsamnings EFTA og GCC eða tvíhliða landbúnaðarsamnings Íslands og GCC til niðurfellingar tolla. Þannig munu útflytjendur vöru frá ríkjum GCC að óbreyttu ekki geta fengið útgefnar viðeigandi upprunasannanir sem eru forsenda þess að vara njóti tollfríðinda við innflutning hingað til lands. Sömuleiðis munu íslenskir útflytjendur vöru ekki geta reiknað með því að vörur þeirra muni njóta fríðindameðferðar við innflutning til ríkja GCC.“

 

FA er kunnugt um fyrirtæki sem hafa lent í vandræðum af þessum sökum, bæði vegna útflutnings til Persaflóaríkjanna og innflutnings til Íslands. Fyrirtæki hafa lagt í vinnu og fyrirhöfn til að afla sér viðskiptasambanda á grundvelli samningsins og það er afar bagalegt þegar í ljós kemur að hann virkar ekki.

 

FA hefur því hvatt utanríkisráðuneytið til að beita sér í málinu og reyna að stuðla að því að fríverzlunarsamningurinn verði virkur sem fyrst. Í tilkynningu ráðuneytisins segir að Ísland muni, ásamt hinum EFTA-ríkjunum, halda áfram að beita sér fyrir lausn í málinu.

 

Tilkynning utanríkisráðuneytisins

Nýjar fréttir

Innskráning