Fundur dagvörubirgja og samkeppnisyfirvalda

21.04.2015

IMG_3419Félag atvinnurekenda efndi í morgun til fundar birgja á dagvörumarkaði og fulltrúa Samkeppniseftirlitsins. Til fundarins var boðað í framhaldi af útkomu skýrslu Samkeppniseftirlitsins um samkeppni á dagvörumarkaði.

Stjórn Félags atvinnurekenda fagnaði mörgu því sem fram kemur í skýrslunni og boðaði jafnframt að hún myndi beita sér fyrir beinu og milliliðalausu samtali birgja á dagvörumarkaði innan raða FA og samkeppnisyfirvalda. Fundurinn var liður í þeirri viðleitni.

Fulltrúar Samkeppniseftirlitsins höfðu framsögu á fundinum og kynntu efni skýrslunnar. Síðan urðu líflegar umræður, meðal annars um gildi skriflegra samninga birgja og smásala, skilarétt á ferskvöru sem leiðir til vörusóunar, forverðmerkingar og fleiri atriði. Fundurinn var gagnlegur og fengu fulltrúar birgja nánari útskýringar á ýmsum atriðum í skýrslunni.

Skýrslan inniheldur talsvert efnismiklar leiðbeiningar til aðila á dagvörumarkaði um hvernig samkeppni verði best tryggð. Í skýrslu Samkeppniseftirlitsins eru hins vegar líka fjölmargar ábendingar og tilmæli til stjórnvalda, sem ekkert hefur verið sinnt.

Í áðurnefndri ályktun stjórnar FA sagði: „Félag atvinnurekenda tekur hvatningu Samkeppniseftirlitsins um að stuðla að bættri samkeppnismenningu innan sinna raða og vill leggja sitt lóð á vogarskálarnar til að efla samkeppni á dagvörumarkaðnum, neytendum til hagsbóta. Félagið væntir þess að aðrir sem tilmæli Samkeppniseftirlitsins beinast að, þar með talin stjórnvöld, leggi jafnframt sitt af mörkum til að efla og styrkja frjálsa samkeppni á dagvörumarkaðnum.“

Skýrsla Samkeppniseftirlitsins um dagvörumarkaðinn

Nýjar fréttir

Innskráning