Fundur FA og Íslensk-evrópska verslunarráðsins (ÍEV) um bókun 35 við EES-samninginn og íslenska hagsmuni var fróðlegur og vel sóttur. Gunnar Þór Pétursson lagaprófessor og Páll Rúnar M. Kristjánsson, hæstaréttarlögmaður og formaður ÍEV, fóru þar yfir frumvarp utanríkisráðherra um innleiðingu bókunarinnar í íslenskan rétt og þýðingu þess fyrir íslensk fyrirtæki. Hægt er að horfa á upptöku af fundinum í spilaranum hér að neðan.
EES-reglur gangi framar
Bókun 35 við EES-samninginn kveður á um að vegna tilvika þar sem geti komið til árekstra á milli EES-reglna sem komnar eru til framkvæmdar og annarra settra laga, skuldbindi EFTA-ríkin sig til að setja, ef þörf krefur, lagaákvæði þess efnis að EES-reglur gildi í þeim tilvikum. Frumvarp utanríkisráðherra kveður á um að ef skýrt og óskilyrt lagaákvæði sem réttilega innleiðir skuldbindingu samkvæmt EES-samningnum er ósamrýmanlegt öðru almennu lagaákvæði skuli hið fyrrnefnda ganga framar, nema Alþingi hafi mælt fyrir um annað. Sama eigi við um skuldbindingar sem eru innleiddar með stjórnvaldsfyrirmælum ef þau eru ósamrýmanleg öðrum stjórnvaldsfyrirmælum.
Í máli Gunnars Þórs, sem var formaður starfshópsins sem samdi frumvarpið, kom fram að þessi regla um forgang laga sem byggð væru á EES-samningnum, sem hefur lagagildi á Íslandi, ætti að tryggja að fyrirtæki og einstaklingar gætu byggt rétt á samningnum án árekstra við lög sem hefðu verið sett síðar og væru á skjön við lögfest réttindi samkvæmt samningnum. Gunnar tók fram að ákvæðinu væri fyrst og fremst beint til dómstóla og það byndi ekki hendur Alþingis. Ekki væri því um neitt framsal löggjafarvalds að ræða.
Á eingöngu við um árekstur milli íslenskra lagaákvæða
Gunnar gerði jafnframt grein fyrir því að gildissvið bókunar 35, um forgang EES-réttar, ætti eingöngu við um það þegar íslenskur réttur rækist á önnur íslensk lög. „Vissulega erum við að tala um ákvæði sem eiga uppruna sinn í EES-samningnum en þau eru engu að síður íslenskur réttur, hafa fengið stjórnskipulega meðferð fyrir Alþingi og eru sett lög eða stjórnvaldsfyrirmæli.“
Hann tók einnig fram að bókun 35 næði ekki til stjórnarskrárinnar og raskaði ekki rétthæð hennar að neinu leyti. „Það var aldrei tilgangurinn að hún ætti við um neitt annað en sett lög og það var 100% skilningur allra að hér væri ekki verið að hrófla við stjórnarskránni,“ sagði Gunnar. Hann sagði að það sama ætti við í frumvarpi ráðherra; þar væri vísað til almennra laga eingöngu.
Staðfest af Hæstarétti að bókunin er rangt innleidd
Gunnar fór yfir það hvernig dómstólar hefðu, vegna orðalags við lögfestingu EES-samningsins í upphafi, ekki treyst sér til að víkja til hliðar yngri lögum sem rækjust á við samninginn. Hann nefndi dóm Hæstaréttar, sem féll eftir að frumvarpið var samið, í máli konu sem hafði flutt til Íslands frá Danmörku og vildi sækja rétt sinn til fæðingarorlofs, en fékk ekki að byggja rétt sinn á EES-samningnum. Í dómnum er sérstakur kafli um samspil EES- og landsréttar, þar sem fram kemur að bókun 35 sé ekki rétt innleidd í íslenskan rétt.
„Þetta er tímamótadómur og breytir mjög miklu,“ sagði Gunnar Þór. Hann benti á að erfitt gæti orðið að verja núverandi stöðu fyrir EFTA-dómstólnum, að fengnum þessum dómi Hæstaréttar. „Það er eiginlega mál sem er 200% tapað. Það er búið að staðfesta af æðsta dómstóli landsins að bókunin sé ekki rétt innleidd í íslenskan rétt,“ sagði Gunnar.
Tryggir fyrirsjáanleika og eðlilegar leikreglur
Páll Rúnar M. Kristjánsson benti á mikilvægi þess fyrir fyrirtæki að rekstrarumhverfi þeirra væri fyrirsjáanlegt og treysta mætti þeim alþjóðlegu samningum sem íslenska ríkið gerði. Þar væri EES-samningurinn langmikilvægastur og staðlaður innri markaður væri mikilvægt hagsmunamál fyrirtækjanna í ÍEV. „Sá sem ekki virðir samninga sína er ekki ákjósanlegur viðskiptafélagi og ríki sem virða ekki skuldbindingar sínar eru ekki góður staður til að eiga viðskipti,“ sagði Páll.
Páll orðaði málið þannig í hnotskurn: „Þetta er ekki flókið. Ein regla rekst óvart á aðra. Frumvarpið leysir einfaldlega úr því hvað á sér stað við slíkan árekstur. Reglan sem segir fyrir um frelsið, sem efnir loforðið um innri markaðinn, gildir ef hinni reglunni er ekki sérstaklega ætlað að mæla gegn henni. Með þessu tryggjum við eðlilegar leikreglur, að meiri hagsmunir ráði og komum í veg fyrir að atvinnulífið þurfi að lúta handvömm og mistökum við lagasetningu. Svona einfalt er þetta í mínum huga,“ sagði Páll Rúnar. „Svo einfalt er málið fyrir þeim félagsmönnum sem eru í Íslensk-evrópska verslunarráðinu og telja mikilvægt að þetta sé samþykkt í lög og í því felist mikil réttarbót fyrir þá sem stunda milliríkjaviðskipti.“
Hér má sjá myndir frá fundinum.














