Fyrirtæki sem hafa fengið endurálagningu skoði stöðu sína

31.01.2024

Viðskiptamogginn fjallar í dag um viðbrögð Félags atvinnurekenda við fréttum um að greiddir séu kaupaukar hjá embætti Ríkisskattstjóra, Skattinum. Ólafur Stephensen framkvæmdastjóri FA segir félagið bíða eftir niðurstöðu í könnun fjármálaráðuneytisins á málinu, sem fjármálaráðherra hefur boðað. Lögmaður FA bendir fyrirtækjum, sem hafa fengið á sig íþyngjandi ákvarðanir frá Skattinum um endurálagningu gjalda, á að skoða stöðu sína.

Gæti leitt til ógildingar ákvarðana
Ólafur segir deginum ljósara að ef starfsmaður hafi beinan og persónulegan ávinning af því að endurálagningin sé sem hæst skapist hætta á að starfsmenn missi sjónar á sanngirnis- og meðalhófssjónarmiðum og að hið óvilhalla stjórnvald sé alls ekki óvilhallt. „Við erum ekki með nokkru móti að mæla skattsvikum og skattundanskotum bót, en við höfum vissulega verið undrandi á sumum endurálagningarmálum, þar sem við komum ekki auga á sanngirnina í sumum málum og teljum beinlínis að um rangar niðurstöður hafi verið að ræða,“ segir Ólafur. Hann segir að tengist kaupaukar ákvörðunum um endurálagningu sé það alvarlegt mál og geti leitt til þess að ógilda verði ákvarðanir Skattsins í einhverjum málum.

Kalli eftir upplýsingum frá Skattinum
Páll Rúnar M. Kristjánsson lögmaður segir að ef stjórnvald eins og Skatturinn fái fjárhagslega umbun til þess að taka tilteknar stjórnvaldsákvarðanir fái hann ekki betur séð að starfsmenn séu ekki lengur óvilhallir og Skatturinn hafi raskað hæfi sínu. „Ef tekið er dæmi um dómara sem fengi borgaðan bónus frá ríkinu fyrir hverja sakfellingu væri hann vilhallur og sakfellingar dómar hans væru að engu hafandi,“ segir Páll Rúnar í samtali við ViðskiptaMoggann.

„Ég tel að þeir aðilar sem hafa fengið á sig íþyngjandi ákvarðanir frá Skattinum frá gildistöku þessara reglna hljóti að skoða stöðu sína og í það minnsta kalla eftir því frá Skattinum hvort þeir starfsmenn sem komu að slíkum stjórnvaldsákvörðunum hafi fengið fyrir það sérstaka umbun. Ef það er tilfellið hljóti slíkir að spyrja sig áleitinna spurninga, meðal annars hvort þessir starfsmenn hafi ekki verið vanhæfir til töku umræddra stjórnvaldsákvarðana og þær ákvarðanir séu þar af leiðandi ógildar,“ segir Páll Rúnar.

Forsíðufrétt Viðskiptamoggans í dag.

Nýjar fréttir

Innskráning