Í stefnu Flokks fólksins fyrir borgarstjórnarkosningarnar er ekkert fjallað um starfsumhverfi fyrirtækja í borginni og segir Kolbrún Baldursdóttir, oddviti flokksins, að fyrirtækin séu ekki efst á blaði hjá flokknum, fólkið komi fyrst. Þetta er á meðal þess sem fram kemur í samtali Kolbrúnar og Ólafs Stephensen, framkvæmdastjóra Félags atvinnurekenda, í hlaðvarpsþættinum Kaffikróknum sem er aðgengilegur á YouTube og Spotify. Hægt er að horfa á viðtalið við Kolbrúnu í spilaranum hér að neðan.
Kolbrún bendir þó á að t.d. í kórónuveirufaraldrinum hafi Flokkur fólksins lagt áherslu á að hlúð yrði að fyrirtækjum, sérstaklega þeim minnstu og viðkvæmustu. „Auðvitað þurfa fyrirtækin að vera í góðu lagi líka. Við þurfum að hafa atvinnu og þetta hangir allt saman þótt áherslan sé á fólkið fyrst eins og við orðum það.“
Lækkun skatta ekki í forgangi
Algengasta umkvörtunarefni félagsmanna í FA gagnvart Reykjavíkurborg, ekki síst þeirra minni og meðalstóru, er fasteignaskatturinn á atvinnuhúsnæði, en hann er sá hæsti á höfuðborgarsvæðinu og hefur lækkað minna en í nágrannasveitarfélögum þrátt fyrir gífurlegar hækkanir á fasteignamati. Kolbrún tekur ekki undir að lækka eigi fasteignaskattinn. „Við höfum ekki verið að tala um að lækka skatta og álögur,“ segir hún. Það sé vegna þess að Flokkur fólksins vilji hafa borgarsjóð feitan til að geta hjálpað þeim sem á þurfa að halda, stytt t.d. biðlista barna eftir þjónustu sál- og talmeinafræðinga. „Auðvitað myndi maður vilja sjá skatta lækka en það er bara ekki að gerast núna. Spurningin er líka um að fara betur með fé og forgangsraða betur.“
Kolbrún tekur undir að það sé óþolandi þegar fyrirtæki flýi borgina og byggi atvinnuhúsnæði í nágrannasveitarfélögum. „En lækkun skatta hefur ekki verið efst á forgangslista þessa flokks.“
Vitlaus forgangsröðun í stafrænum lausnum
Hún tekur sem dæmi um bruðl hjá borginni að alltof miklu fé hafi verið eytt í stafrænar lausnir sem ýmist séu þegar til eða skipti ekki miklu máli. Nær hafi verið að setja einfaldari þjónustu borgarinnar í forgang, en það hafi ekki verið gert. „Það hefði átt að setja inn almennilegar lausnir í samgöngu- og skipulagsmálum þar sem verið er að sækja um leyfi, verktakar að senda inn teikningar og annað slíkt. Þetta er ekki komið. Í stað þess var farið að búa til alls kyns mælaborð, viðburðadagatal, sorphirðudagatal og alls konar gæluverkefni sett af stað sem síðan döguðu uppi […] Af hverju eru ekki þessar nauðsynlegu lausnir komnar, eins og til að létta á umsóknum um byggingarleyfi? Verktakar nenna ekki lengur að glíma við borgina. Menn fá engin svör og þetta dagar einhvers staðar uppi,“ segir Kolbrún.