Fyrirtækin gleymist ekki í skipulaginu

04.10.2017
Í Auðbrekku í Kópavogi.

Skortur er á vissum tegundum atvinnuhúsnæðis á höfuðborgarsvæðinu, til dæmis fyrir léttan iðnað. Þetta kemur fram í máli Ármanns Kr. Ólafssonar, bæjarstjóra í Kópavogi, í viðtali í Morgunblaðinu í dag.

Ármann segir þar frá því að dæmi séu um að eigendur atvinnuhúsnæðis hafi verið reiðubúnir að selja það til að liðka fyrir fjölgun íbúða á svæðum þar sem þétta átti byggð, en ekki getað keypt annað þar sem fyrirhuguð sala hefði ekki staðið undir kaupum á öðru húsnæði, ásamt kostnaði við flutninga. „Það er ekki endilega vegna þess að menn setji markið svo hátt, eða ætli að græða svo mikið. Þvert á móti er ástæðan sú að ef þeir eru tilbúnir að færa sig um set kemur bæði til skortur á ákveðnum tegundum á atvinnuhúsnæði og að flutningar borga sig ekki. Þegar menn hafa lagt saman söluverð og kostnað við flutninga borgar sig ekki að flytja. Þetta hefur í einhverjum tilvika orðið til þess að flækja byggð á einstaka þéttingarreitum,“ segir bæjarstjórinn og nefnir sérstaklega Auðbrekku og Kársnesið.

Í máli Ármanns kemur fram að framboð á atvinnuhúsnæði sem hentar t.d. fyrir léttan iðnað sé aðallega á útjöðrum Höfuðborgarsvæðisins. Skortur sé hins vegar á því í kjörnum sem þegar eru byggðir. „Þá er ég að tala um húsnæði sem er á fáum hæðum og er með gott lóðarpláss og góðar innkeyrsludyr,“ segir Ármann. Hann nefnir verkstæði og smiðjur sem dæmi um léttan iðnað sem þurfi slíkt húsnæði. Slík starfsemi geti kallað á talsverðan lager. Ef um dreifingu sé að ræða skipti staðsetningin miklu máli fyrir fyrirtækin. Þá vilji þjónustufyrirtæki almennt líka vera miðsvæðis sé þess kostur, að því er fram kemur í viðtali Morgunblaðsins við bæjarstjórann.

Skortur kemur ekki á óvart
Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, segir að það komi ekki á óvart að farið sé að bera á skorti á tilteknu atvinnuhúsnæði. Félagsmenn FA hafa haft af því áhyggjur undanfarin misseri að breytingar á skipulagi í þágu þéttingar byggðar hafi ekki verið gerðar með þarfir atvinnulífsins í huga. Félagið skrifaði Degi B. Eggertssyni borgarstjóra í fyrra og benti á að stefnan um þéttingu byggðar væri skynsamleg en hefði þó af hálfu borgaryfirvalda fyrst og fremst verið sett fram á forsendum þróunar íbúabyggðar. Þarfir og hagsmunir atvinnulífsins hefðu ekki verið í forgrunni. Þó liggi  alveg ljóst fyrir að blómleg borg þrífist ekki án öflugs atvinnulífs.

„Það liggur í augum uppi að skipulagið verður að taka mið af þörf fyrirtækja fyrir vel staðsett atvinnuhúsnæði, ekki síður en íbúanna fyrir íbúðarhúsnæði. Það ætti raunar að þjóna markmiðum nútímaskipulags að blanda vel íbúða- og atvinnubyggð þannig að styttra sé fyrir fólk að sækja bæði atvinnu og þjónustu. Það er hvorki skynsamlegt né umhverfisvænt að ýta starfsemi á borð við léttan iðnað alfarið út á jaðra höfuðborgarsvæðisins. Við skorum á forsvarsmenn sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu að skoða þessa stöðu sem komin er upp og hafa samstarf um að tryggja nægt framboð af húsnæði fyrir fjölbreytta atvinnustarfsemi,“ segir Ólafur.

 

Nýjar fréttir

Innskráning