Fyrirtækin hafa ekki efni á miklum launahækkunum

05.09.2017

Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur Seðlabanka Íslands, segir að Seðlabankinn sé reiðubúinn að hækka stýrivexti á ný, verði samið um miklar launahækkanir í kjarasamningum á næsta ári. Fyrirtækin séu komin að þolmörkum og beri ekki miklar hækkanir. Þetta var á meðal þess sem fram kom í erindi Þórarins á morgunverðarfundi Félags atvinnurekenda

Tilbúin að hækka vexti ef laun hækka mikið
„Við teljum okkur geta haldið verðbólgu í markmiði með lægri vöxtum en við héldum áður. Það er út af því að það hefur tekist að ná tökum á verðbólguvæntingum. En við lýsum því líka yfir að ef þær byrja að rísa aftur, segjum að það yrði samið aftur um miklar launahækkanir í febrúar á næsta ári, þá erum við alveg tilbúin að fara að hækka [vextina] aftur,“ sagði Þórarinn.

Heppni átti þátt í að hækkanir fóru ekki út í verðlagið
Eftir miklar launahækkanir í kjarasamningum árið 2015 bjuggust margir við vaxandi verðbólgu. Það gekk hins vegar ekki eftir. Í umræðum að erindi Þórarins loknu sagði hann að tvær ástæður væru fyrir því að miklar launahækkanir hefðu þá ekki farið út í verðlagið. Annars vegar væri það heppni – verð á olíu og hrávörum á heimsmarkaði hefði lækkað og gengi krónunnar tekið að

Líflegar umræður urðu í lok fundar. Hér spyr Bogi Þór Siguroddsson hjá Rönning út í gengismál.

hækka á sama tíma og samið hefði verið um miklar hækkanir á launakostnaði. Hins vegar hefði með skynsamlegri peningastefnu tekist að stuðla að lækkun verðbólguvæntinga. „Fyrirtækin standa núna frammi fyrir því að þau hafa bara ekkert efni á að borga þessar miklu launahækkanir. Þau eru bara komin að endamörkum. Þess vegna held ég að líkurnar á að við förum aftur í þetta séu miklu minni en síðast. Ég sé ekki fyrir mér að fyrirtækin ætli aftur að gera þetta. En auðvitað gæti ég haft rangt fyrir mér,“ sagði Þórarinn.

Hefðu getað gert betur í sveiflujöfnun í sumar
Þórarinn sagði jafnframt að Seðlabankinn byggist við að gengi krónunnar héldi áfram að hækka. Hann sagði að varðandi gengissveiflur í sumar hefði Seðlabankinn mögulega getað staðið sig betur. Mismunandi skoðanir væru nú á markaðnum á því hvort verðlagning krónunnar væri rétt og með frelsi í gjaldeyrisviðskiptum kæmu sveiflur í verði. Allir, þar á meðal Seðlabankinn, væru að reyna að fóta sig í nýju umhverfi.

 

Glærur Þórarins

Nýjar fréttir

13. júní 2024

Innskráning