Grein Ólafs Stephensen framkvæmdastjóra FA í Bændablaðinu 14. ágúst 2025
Þröstur Helgason ritstjóri Bændablaðsins helgar leiðara síðasta tölublaðs greinarhöfundi og málflutningi hans um samkeppni á kjötmarkaðnum. Fyrir það er sjálfsagt að þakka, en ritstjórinn virðist á köflum hafa mislesið eitt og annað í skrifum undirritaðs. Mér er því ljúft og skylt að skýra afstöðu Félags atvinnurekenda betur fyrir ritstjóranum og lesendum.
Gallað úthlutunarkerfi tollkvóta
Kveikjan að skrifum Þrastar er grein sem undirritaður skrifaði á Vísi, en þar var fjallað um þá staðreynd að innlendar kjötafurðastöðvar hrepptu 60% heimilda til að flytja inn nauta-, svína- og alifuglakjöt tollfrjálst frá Evrópusambandinu í síðasta tollkvótaútboði. Ritstjórinn leggur greinina í fyrsta lagi þannig út að ég haldi því fram að það sé rangt af kjötafurðastöðvum að taka þátt í tollkvótaútboðinu af því að það stangist á við skoðanir bænda í eigendahópi þeirra. Þröstur vill sömuleiðis meina að ég sé þeirrar skoðunar að fyrirtæki eigi ekki að taka þátt í viðskiptum sem stangist á við skoðanir eigendanna.
Þetta er misskilningur – eða útúrsnúningur. Ekkert af þessu tagi stendur í Vísisgreininni. Þar stendur raunar ekkert um skoðanir bænda á kjötinnflutningi. Undirritaður hefur hins vegar stundum vakið athygli á því (eins og Bændablaðið) að þrátt fyrir aðalfundarsamþykkt Kaupfélags Skagfirðinga árið 2023, um að KS og dótturfélög þess ættu ekki að standa í innflutningi landbúnaðarafurða, er félagið Háihólmi, sem er að nafninu til í eigu innkaupastjóra dótturfélags KS, æ umsvifameira í kjötinnflutningi. Sú ábending er aðallega hugsuð til þess að vekja athygli á hversu takmörkuð áhrif bændur hafa á ákvarðanir stjórnenda í afurðastöð eins og KS, þótt öðru sé stundum haldið fram.
FA hefur aftur á móti ítrekað bent á að það er kerfið sem er notað við úthlutun tollkvóta, sem er gallað og býður upp á að innlendir framleiðendur spili á það til að hindra samkeppni við sjálfa sig. Það er alls ekki óeðlilegt að afurðastöðvarnar nýti gallað kerfi til að vernda eigin hagsmuni enda hefur FA ítrekað skorað á stjórnvöld að breyta kerfinu og úthluta tollkvóta með öðrum aðferðum. Sú leið að bjóða upp tollkvótana hefur valdið verulegum hækkunum á verði þeirra og þar með hærra kostnaðarverði innflytjenda, sem aftur veltur út í verðlagið og vinnur gegn upphaflegu markmiði tollkvótanna, sem samið var um við Evrópusambandið, að efla samkeppni og lækka verð til neytenda.
Afurðastöðvar hafa hagsmuni af að halda verðinu uppi
Fyrst eftir að tollkvótarnir voru stækkaðir til muna með síðasta tollasamningi við ESB, voru viðbrögð kjötafurðastöðvanna þau að halda því fram að innflutningurinn væri hættulegur heilbrigði fólks. Þær héldu m.a. úti vefnum Öruggur matur, þar sem fram komu fullyrðingar um að innflutningur búvara skapaði „raunverulega hættu fyrir almenning“. Þegar þær hrakspár reyndust ekki á rökum reistar var vefnum lokað, en afurðastöðvarnar komu um leið auga á skilvirkari leið til að draga úr samkeppnislegum áhrifum innflutnings. Þær óskuðu eftir langtum meiri tollkvóta og hækkuðu tilboð sín. Frá árinu 2022 hafa innlendar afurðastöðvar hreppt um eða yfir helming ESB-tollkvótans í útboðum, 60% í síðasta útboði eins og áður sagði.
Ritstjórinn vill í öðru lagi meina að hátt útboðsgjald, sem greitt er fyrir tollkvótana, hafi ekkert með þátttöku afurðastöðvanna í tollkvótaútboðum að gera, heldur eingöngu að umframeftirspurn sé eftir þeim. Það er misskilningur. Fyrirtæki, sem er eingöngu í kjötinnflutningi, vill vissulega bjóða nógu vel til að tryggja sér þann tollkvóta sem það óskar eftir – en reynir samt að halda tilboðinu svo lágu að það geti boðið verð sem er vel samkeppnisfært við innlenda framleiðslu. Fyrirtæki, sem stundar sjálft innlenda framleiðslu og er líka í innflutningi, sér hins vegar ekkert að því að bjóða svo hátt í kvótann að innflutningurinn sé á svipuðu verði og þess eigin framleiðsla. Þannig er dregið úr samkeppnislegum áhrifum innflutnings og eins og tölurnar bera með sér, hafa afurðastöðvarnar almennt boðið betur og tekizt betur að tryggja sér tollkvóta en keppinautum þeirra í hópi innflutningsfyrirtækja. Um þetta ætti ekki að þurfa að þræta.
Mótsagnir í málflutningi stuðningsmanna samkeppnisundanþága
Þröstur skrifar í þriðja lagi í leiðaranum að undirrituðum takist í Vísisgreininni að halda því fram að bændur og fyrirtæki þeirra vinni gegn hagsmunum neytenda með því að hafa talað fyrir því að afurðastöðvarnar fengju undanþágur frá samkeppnislögum. Þvert á móti snúist undanþágurnar um möguleika bænda til að hagræða, þeim sjálfum og neytendum til hagsbóta.
Þetta er ekki það sem stendur í Vísisgreininni, þótt ég sé alveg sammála því að undanþágur afurðastöðvanna frá samkeppnislögum, eins og þær voru samþykktar á þingi í fyrra, vinni gegn hagsmunum neytenda – og reyndar bænda líka. Í greininni var farið yfir þær röksemdir stuðningsmanna samkeppnisundanþáganna að þær væru nauðsynlegar til þess að afurðastöðvarnar gætu brugðizt við samkeppni frá innflutningi og tollasamningnum við ESB, sem ógnaði stöðu greinarinnar. Því hefur verið haldið fram að hinar víðtæku undanþágur muni ekki hafa neikvæð áhrif á samkeppni eða leiða til einokunar, vegna þess að samkeppnin komi erlendis frá.
Um þetta stóð í greininni: „Í ljósi talnanna hér að ofan eru þessar röksemdir auðvitað fáránlegar og hlægilegar. Afurðastöðvarnar eru sjálfar í hópi umsvifamestu kjötinnflytjenda landsins. Þurfa þær undanþágu frá samkeppnislögum til að geta varizt innflutningnum sem þær standa sjálfar í? Ógnar tollasamningurinn við ESB stöðu afurðastöðvanna þegar þær kaupa sjálfar meirihluta tollkvótans, sem samningurinn kveður á um, ár eftir ár?“ Fróðlegt væri að sjá hver væru svör ritstjóra Bændablaðsins við þessum spurningum.
Gengið miklu lengra en í nágrannalöndum
Í fjórða lagi skrifar ritstjórinn: „Málflutningur sérhagsmunaafla hérlendis gegn aukinni samvinnu og sameiningu fyrirtækja sem bændur eiga þátt í að reka í slátrun og vinnslu kjötafurða verður raunar hjákátlegur í ljósi boðaðs samruna tveggja afurðarisa í Evrópu, Arla og DMK Group, en við hann mun verða til stærsta mjólkurbú í Evrópu og það fjórða stærsta í heimi með áætlaðar árstekjur upp á nítján milljarða evra. Gert er ráð fyrir að samkeppniseftirlit ESB muni samþykkja þennan samruna. Ávinningurinn verður gríðarleg hagræðing í krafti stærðar hins sameinaða fyrirtækis sem er samvinnufélag um tólf þúsund mjólkurbænda í Evrópu.“
Þarna er ástæða til að staldra við tvennt. Annars vegar nefnir Þröstur sjálfur að gert sé ráð fyrir að samkeppniseftirlit ESB samþykki samrunann. Þar kemur að stórum mun á löggjöf nágrannalandanna og þeim undanþágum afurðastöðva frá samkeppnislögum, sem Alþingi samþykkti í fyrra. Íslenzka löggjöfin gerir ekki ráð fyrir neinu eftirliti samkeppnisyfirvalda með samrunum í kjötiðnaðinum. Þau geta því ekki sett slíkum gjörningum nein skilyrði í þágu bænda og neytenda eins og iðulega hefur verið gert í slíkum samrunamálum í landbúnaði í ESB-ríkjum – og eins og SE gerði t.d. þegar það leyfði samruna Kjarnafæðis og Norðlenska. Þetta er eitt af helztu atriðunum í gagnrýni FA og fleiri á lagabreytinguna. Hins vegar dregur ritstjórinn fram að nýja fyrirtækið verði samvinnufélag bænda. Það er annar munur sem er á samkeppnisundanþágunum sem voru samþykktar hér og þeim sem gilda í nágrannalöndum okkar; þar takmarkast þær við félög í eigu og undir stjórn bænda en hér er því ekki að heilsa. Því hefur ítrekað verið haldið fram af hálfu stuðningsmanna lagabreytingarinnar í fyrra að hún færi íslenzka löggjöf bara í svipað horf og í nágrannalöndunum. Það er alrangt. Gengið var miklu lengra og jafnvel stuðnings- og flutningsmenn lagabreytinganna hafa viðurkennt að þeir hafi ekki áttað sig á hversu víðtækar breytingarnar voru.
Félag atvinnurekenda er alls ekki á móti hagræðingu í úrvinnslugreinum landbúnaðarins með samstarfi eða samruna fyrirtækja. Heimild fyrir slíku er raunar í 15. grein samkeppnislaganna og FA hefur ekki talið neina þörf á því að afurðastöðvar fengju einhver sérréttindi umfram önnur fyrirtæki í landinu. FA vill að tryggt sé að slíkt samstarf sé undir eftirliti og háð samþykki samkeppnisyfirvalda. Félagið hefur því lýst stuðningi við þau áform atvinnuvegaráðherra að flytja frumvarp í haust sem veiti félögum sem eru raunverulega undir stjórn og í eigu bænda sambærilegar undanþágur og starfssystkin þeirra í öðrum ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins njóta. Sú löggjöf á að mati FA að stuðla að því að styrkja stöðu bænda gagnvart afurðastöðvunum, en hún hefur verið alltof veik.
Víðtækur stuðningur almennings við „sérhagsmunaöflin“
Í fimmta lagi gerir ritstjórinn mikið úr því að Félag atvinnurekenda tilheyri „sérhagsmunaöflum“ og segir í niðurlagi leiðarans: „Það er löngu komið gott af afvegaleiðingu umræðunnar um íslenskan landbúnað á vegum sérhagsmunafélags atvinnurekenda.“ FA talar vissulega fyrst og fremst fyrir hagsmunum sinna félagsmanna, en málflutningur félagsins um viðskiptafrelsi og frjálsa samkeppni á miklu víðari skírskotun. Þannig hafa Neytendasamtökin og verkalýðshreyfingin tekið höndum saman við FA og önnur hagsmunasamtök verzlunarfyrirtækja og gagnrýnt bæði kerfi úthlutunar tollkvóta og þær undanþágur frá samkeppnislögunum, sem samþykktar voru í fyrra. Það eru nú allir sérhagsmunirnir.
Að gagnrýna kerfið er ekki það sama og að ráðast á bændur eða tala landbúnaðinn niður. Þetta er því miður stundum lagt að jöfnu og það má sannarlega kalla afvegaleiðingu umræðunnar, sem er löngu komið gott af. Íslenzkir neytendur og launþegar, að ekki sé talað um fyrirtæki sem verzla með matvöru, átta sig vel á því að landbúnaðurinn er mikilvægur, lífsnauðsynlegur og á að búa við sem bezt rekstrarskilyrði. En það á ekki að gerast með því að drepa niður samkeppni eða veita fyrirtækjum í úrvinnslugreinum landbúnaðarins lagaleg sérréttindi, sem önnur fyrirtæki í landinu njóta ekki.
Bændasamtökin, útgefandi Bændablaðsins, hafa með vel heppnaðri auglýsingaherferð, „Við erum öll úr sömu sveit“, kallað eftir samtali við þjóðina alla um hvernig eigi að standa að því að rækta og verja þann grunn sem landbúnaðurinn er. FA er sannarlega tilbúið að taka þátt í því samtali og stuðla að því að landbúnaðurinn spjari sig sem bezt í sem opnustu og frjálsustu markaðsumhverfi.