Gámaskortur vegna faraldursins margfaldar flutningskostnað frá Asíu

25.02.2021

Dæmi eru um að kostnaður við að flytja vörur frá Kína til Íslands hafi þre- til fimmfaldast á milli ára vegna gámaskorts ytra sem rekja má til COVID-19. Það gæti leitt til þess að verð á ódýrari innfluttri matvöru, eins og hrísgrjónum og núðlum, hækki tímabundið um 20–40 prósent. Þetta segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, í samtali við Fréttablaðið í dag.

FA þekkir dæmi þess að kostnaður við að flytja gám frá Kína, sem var á bilinu 400–500 þúsund krónur fyrir ári, sé kominn yfir tvær milljónir. „Þetta hefur óhjákvæmilega áhrif á verðlag vara frá Asíu, einkum og sér í lagi ódýrari vöru, þar sem flutningskostnaðurinn er hærra hlutfall af innflutningsverðinu. Við getum tekið dæmi af matvöru eins og hrísgrjónum eða núðlum. Verð á slíkum vörum gæti hækkað um 20–40 prósent en sú hækkun er væntanlega tímabundin, að því gefnu að ástandið í alþjóðlegum skipaflutningum komist aftur í eðlilegt horf með því að faraldurinn réni í kjölfar bólusetninga,“ segir Ólafur.

Lárus Óskarsson, framkvæmdastjóri Aðfanga, heildsölu í eigu Haga, segir í sömu frétt að kostnaðarverð á mörgum tilbúnum vörum og vöruflokkum hækki hjá þeim sem flytja inn vörur frá Austurlöndum, hvort sem er beint eða í gegnum vöruhús í Evrópu. „Flokkar eins og núðlur, hrísgrjón, túnfiskur, ananas, kókósmjólk og frosnir ávextir, koma fyrst upp í hugann.“

Haft er eftir Braga Þór Marinóssyni, framkvæmdastjóra alþjóðasviðs Eimskips að á fyrri hluta ársins 2020 hafi stóru skipafélögin dregið úr flutningum á milli Asíu og Evrópu vegna minni eftirspurnar. Eftirspurnin hafi hins vegar glæðst síðar á árinu. „Það er ekki sjálfgefið að vöruflutningar séu jafnir í báðar áttir. Það er til að mynda mikið framleitt í Kína og flutt til Evrópu. Það gerði það að verkum að það söfnuðust upp tómir gámar í Evrópu.“

Umfjöllun Fréttablaðsins

Nýjar fréttir

13. júní 2024

Innskráning