Bæjarstjórn Garðabæjar samþykkti á fundi sínum í gær breytingartillögu við fjárhagsáætlun árins 2019, þess efnis að lækka álagningarprósentu fasteignagjalda, bæði á atvinnu- og íbúðarhúsnæði. Álagningarprósentan á atvinnuhúsnæði lækkar úr 1,65% af fasteignamati í 1,63%. Garðabær er þá fimmta stóra sveitarfélagið sem lækkar álagningarprósentu fasteignaskatts á atvinnuhúsnæði, en fleiri hafa lækkað álagningarhlutfall á íbúðarhúsnæði, eins og sjá má á meðfylgjandi töflu.
Samþykkt Garðbæinga þýðir jafnframt að á höfuðborgarsvæðinu er Reykjavíkurborg nú eina sveitarfélagið sem hefur ákveðið að halda fasteignaskatti á atvinnuhúsnæði í lögleyfðum toppi, 1,65%. Samkvæmt samþykkt borgarstjórnarfundar fyrr í vikunni verður ekki byrjað að lækka fasteignaskatt á atvinnuhúsnæði fyrr en árið 2021, þrátt fyrir gífurlegar hækkanir fasteignamats. Þannig verði skatthlutfallið óbreytt næstu tvö ár, lækki svo í 1,63% árið 2021 og 1,6% árið 2022.
„Við fögnum því að málflutningur Félags atvinnurekenda nær í gegn hjá æ fleiri sveitarfélögum, sem sjá að það er einfaldlega ekki sanngjarnt að leggja stóraukna skatta á fyrirtækin vegna hækkana á fasteignamati, sem oftast eiga sér enga samsvörun í afkomu eða greiðslugetu fyrirtækjanna,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda. „Þeim mun meiri eru hins vegar vonbrigðin með afstöðu Reykjavíkurborgar. Mörg fyrirtæki í borginni hljóta að vera farin að horfa til þess að skattaumhverfið í ýmsum nágrannasveitarfélögum er orðið mun hagstæðara.“