Gerjun á áfengismarkaði – upptaka frá opnum streymisfundi

11.02.2022

Mikil gróska er í framleiðslu og innflutningi áfengis, en laga- og skattaumhverfið sem stjórnvöld búa greininni er úrelt og fjandsamlegt. Þetta var meginniðurstaðan af opnum streymisfundi sem Félag atvinnurekenda hélt í gær undir yfirskriftinni „gerjun á áfengismarkaði“. Upptöku af fundinum má sjá í spilaranum hér fyrir neðan.

Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra ræddi í innleggi sínu um það sem hann kallaði ómögulega stöðu á áfengismarkaðnum, bæði varðandi sölu og auglýsingar. Ráðherrann sagði frá áformum sínum um að skipa starfshóp sérfræðinga í Evrópurétti til að svara ýmsum spurningum um áfengislöggjöfina.

Þórgnýr Thoroddsen, framkvæmdastjóri vefverslunarinnar Bjórlands, sagði frá starfsemi fyrirtækisins og ræddi m.a. um dómsmál Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins á hendur því. Hann sagðist sannfærður um að stefnu ÁTVR yrði vísað frá dómi. „Annað væri farsi á heimsbókmenntaleveli,“ sagði hann.

Handverksbrugghús á Íslandi árið 2019. Smelltu á myndina til að stækka hana.

25 handverksbrugghús skapa 200 störf
Snorri Jónsson, framkvæmdastjóri Reykjavík Distillery og stjórnarmaður í Samtökum íslenskra eimingarhúsa, sagði frá hraðri framþróun í framleiðslu á sterku áfengi undanfarin ár, en hann stofnaði fyrirtæki sitt 2009. Í greininni störfuðu mest lítil fjölskyldufyrirtæki með veltu undir 100 milljónum. Mörg þeirra legðu stund á útflutning og eitt af markmiðum samtakanna væri að byggja upp orðspor Íslands sem áfengisframleiðslulands. Snorri sagði jafnframt frá því að mikil ásókn erlendra ferðamanna væri í skoðunarferðir í eimingarhús fyrirtækisins, en flestir rækju þeir upp stór augu þegar í ljós kæmi að þeim væri bannað að kaupa framleiðsluna á staðnum og hafa með sér heim.

Laufey Sif Lárusdóttir, framkvæmdastjóri Ölverks í Hveragerði og formaður Samtaka íslenskra handverksbrugghúsa, sagði frá vexti handverksbrugggeirans og að hann hefði í raun náð ótrúlegum árangri miðað við að búa við einhvern þrengsta lagaramma í heimi. Laufey sagði að í samtökunum væru 25 brugghús víða um land og samtals sköpuðu þau um 200 störf, mörg hver í brotthættum byggðum.

CCEP á Íslandi greiddi meira í skatta af áfengi en fyrirtækið hafði í tekjur af áfengissölu á síðasta ári. Smelltu á myndina til að stækka hana.

Greiða meira í skatta en þau hafa í tekjur af áfengissölu
Einar Snorri Magnússon, forstjóri Coca Cola Europacific Partners á Íslandi, sem rekur Víking brugghús á Akureyri, fjallaði um þá óvissu sem ríkti um lagaumhverfi áfengismarkaðarins. Hann birti tölur sem sýna að fyrirtækið greiðir mun meira í áfengisgjald og aðra skatta til ríkisins en það hefur í tekjur af áfengissölu. Á síðasta ári greiddi áfengishluti CCEP um 4,4 milljarða króna í áfengisgjald, virðisaukaskatt og skilagjald. Einar sagði að það kæmi ekki á óvart að frumkvöðlar á markaðnum létu reyna á lagarammann varðandi smásölu á áfengi og tækju áhættu. „Stór rótgróin fyrirtæki með tugi fólks í vinnu, sem reiðir sig á að allt sé gert eins og á að gera það, og eru með miklar fjárfestingar á hverju ári, þurfa að haga sér innan ramma laganna og þurfa að geta treyst því að lagaramminn sé skýr og greinilegur. Síðast en ekki síst hljóta fyrirtæki sem skila þúsundum milljóna í skatta og skyldur á hverju ári að geta gert þá kröfu á stjórnvöld að ramminn sé skýr. Og ekki bara að hann sé skýr, heldur að hann sé í takt við tímann og eftirlitið með lögunum sé gott og skilvirkt,“ sagði Einar.

Hærri áfengisskattar á innlendu framleiðslunni
Ólafur Stephensen framkvæmdastjóri FA ræddi um áfengislöggjöfina og skattlagningu á áfengi á Íslandi. Hann færði rök fyrir því að tvær meginstoðir áfengislaganna væru orðnar feysknar. Annars vegar væru margar leiðir farnar framhjá einkarétti ríkisins á smásölu áfengis. Hins vegar væru áfengisauglýsingar út um allt í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum, þrátt fyrir bann laganna við áfengisauglýsingum. Þá væru skattar á áfengi þeir hæstu í Evrópu og einhverjir þeir hæstu í heimi. Ólafur vakti athygli á að hærri áfengisskattar væru lagðir á bjór og sterkt áfengi, sem hvort tveggja er framleitt á Íslandi í miklum mæli, en á léttvín sem eingöngu er innflutt.

Nýjar fréttir

Innskráning