Eftir Pál Rúnar M. Kristjánsson hæstaréttarlögmann
Ljóst er að COVID-19 heimsfaraldurinn og þær aðgerðir sem stjórnvöld víðs vegar um heim hafa gripið til í því skyni að hefta útbreiðslu hans hafa nú þegar haft gríðarleg áhrif á íslenskt samfélag og efnahagslíf. Þessi áhrif hafa leitt til þess að mörg fyrirtæki og einstaklingar munu á næstu vikum og mánuðum eiga í verulegum erfiðleikum með að standa við ýmsar samningsbundnar skyldur sínar. Áður en til ágreinings kemur vegna slíkra vanefnda er mikilvægt að hugað sé að þeim reglum sem gilda við aðstæður á borð við þær sem nú eru uppi í samfélaginu.
Geti samningsaðili ekki efnt skyldur sínar vegna ófyrirsjáanlegrar og óviðráðanlegrar hindrunar kann það að leysa hann undan slíkum efndum meðan hindrunin varir án þess að viðsemjandi hans geti gripið til vanefndaúrræða á borð við riftun eða skaðabætur á meðan. Mat á því hvort hindrun telst ófyrirsjáanleg og óviðráðanleg í þessum skilningi ræðst af atvikum hverju sinni. Þar þarf að hafa í huga að um er að ræða þrönga undantekningu frá þeirri meginreglu að gerða samninga skuli halda. Aðstæður sem unnt var að sjá fyrir við samningsgerðina og aðstæður sem hægt er að sigrast á þótt það hafi í för með sér aukna fyrirhöfn eða kostnað geta því almennt ekki fallið undir þessa undantekningu.
Að því sögðu er ljóst að þær aðgerðir sem stjórnvöld víðs vegar um heim hafa gripið til í því skyni að hefta útbreiðslu COVID-19 faraldursins eru fordæmalausar á friðartímum. Af þeim sökum er líklegt að þær hindranir sem nú kunna að koma upp vegna þessara aðgerða muni í mörgum tilvikum teljast ófyrirsjáanlegar ef samningur var gerður áður en gripið var til þeirra.
Hindrun sem felst í því að samningsaðila eða þriðja manni er beinlínis óheimilt að gera þær ráðstafanir sem nauðsynlegar eru til að efna skyldu samkvæmt samningi teljast almennt óviðráðanlegar. Bindandi fyrirmæli stjórnvalda sem banna slíkar ráðstafanir myndu því almennt uppfylla þetta skilyrði. Hins vegar geta óbindandi tilmæli og leiðbeiningar stjórnvalda almennt ekki haft sömu áhrif.
Þótt framansagt geti einnig átt við um samningsskyldu sem felur í sér peningagreiðslu þarf að hafa í huga að ógjaldfærni samningsaðila getur almennt ekki leyst hann undan slíkri skyldu jafnvel þótt hún stafi af ófyrirsjáanlegum og óviðráðanlegum atvikum. Það er því aðeins í þeim tilvikum þar sem ófyrirsjáanleg og óviðráðanleg hindrun lýtur beinlínis að því að peningagreiðsla geti farið fram, svo sem ef greiðslukerfi verða óvirk eða hömlur eru settar á fjármagnsflutninga, sem samningsaðili kann að verða leystur tímabundið undan efndum slíkrar skyldu.
Aðili samnings sem vill bera fyrir sig hindrun af þessu tagi ber áhættuna af slíku og ber jafnframt að tilkynna viðsemjanda sínum um það. Séu skilyrði uppfyllt og rétt staðið að slíkri tilkynningu getur samningsaðili frestað því að efna samningsskyldu sína meðan hindrunin varir án þess að verða við það skaðabótaskyldur gagnvart viðsemjanda sínum eða eiga yfir höfði sér önnur vanefndaúrræði. Mikilvægt er að fyrirtæki og einstaklingar hugi vel að réttarstöðu sinni í þessu sambandi við þær aðstæður sem nú eru uppi.