Ginflaska og léttvínskassi hækka um 200 kr. vegna skattahækkunar

04.10.2023

Flaska af vinsælu gini og kassi af léttvíni eru líkleg til að hækka í verði um 200 krónur vegna þeirrar 3,5% hækkunar á áfengissköttum sem lögð er til í fjárlagafrumvarpinu. Kippa af vinsælum bjór hækkar um 60 kr. og flaska af algengu léttvíni um 50 kr. Félag atvinnurekenda andmælir enn frekari hækkunum á hæstu áfengissköttum í hinum vestræna heimi.

Í umsögn um bandorminn svokallaða, frumvarp um ýmsar aðgerðir í ríkisfjármálum sem fylgir frumvarpi til fjárlaga næsta árs, birtir FA útreikninga sína á líklegri hækkun á ýmsum áfengistegundum í ríkinu. Niðurstöðurnar má sjá í myndinni hér að neðan, en verðið árið 2024 er námundað í líklega tölu.

Í töflunum hér að neðan má sjá nánar hvernig útsöluverð áfengis skiptist á milli ríkisins, sem innheimtir áfengisgjald, virðisaukaskatt, skilagjald og stýrir álagningu í Vínbúðum ÁTVR, og svo framleiðanda eða innflytjanda. Í öllum tilvikum tekur ríkið til sín mikinn meirihluta af verðinu.

Í umsögn FA er vísað í greiningu félagsins á hækkunum áfengisskatta í Evrópuríkjum í byrjun ársins. 7,7% hækkun á sköttunum hér á landi í gildandi fjárlögum var þá réttlætt með vísan til mikillar verðbólgu. Í öllum Evrópuríkjum var sömuleiðis metverðbólga, víða meiri en á Íslandi. Engu að síður héldu 26 ríki af 36, sem FA skoðaði, áfengissköttum óbreyttum. Af þeim tíu sem breyttu sköttum um síðastliðin áramót var það eingöngu Ísland sem hækkaði þá um meira en sem nemur samræmdri vísitölu neyzluverðs, en yfirleitt var hækkunin aðeins brot af verðbólgunni eins og sjá má á myndinni hér að neðan. Ísland bætti því verulega Evrópumet sitt í skattlagningu áfengis með fjárlögum ársins 2023.

„Þessi herfilega skattpíning neytenda þessarar einu neyzluvöru bitnar ekki einvörðungu á neytendum, heldur einnig og ekki síður fyrirtækjum í ferðaþjónustu, veitingarekstri og áfengisframleiðslu,“ segir í umsögn FA. „Framleiðsla áfengis er hraðvaxandi atvinnugrein á Íslandi og í sterkum tengslum við ferðaþjónustuna. Langmest er framleitt af bjór, þar sem alls konar nýsköpun stórra og smárra fyrirtækja hefur búið til störf um allt land.

FA hefur áður bent á að allan rökstuðning skortir fyrir því fyrirkomulagi að áfengisskattur á hvern sentilítra vínanda í bjór sé 10% hærri en áfengisskattur á sambærilega einingu í léttvíni. Eins og áður segir er framleiðsla bjórs blómleg og vaxandi innlend atvinnugrein en léttvínsframleiðsla er engin á Íslandi.

FA leggur til að gerð verði sú breyting á frumvarpinu að hætt verði við hækkun áfengisskatts, að minnsta kosti á bjór þannig að skattlagning á léttvíni og bjór jafnist.“

Nýjar fréttir

19. nóvember 2024

Innskráning