Gjöld án eftirlits? Líflegur fundur

04.12.2013

Fjörugar umræður sköpuðust á spjallfundi félagsins um störf eftirlitsstofnana og gjaldtöku þeirra fyrir eftirlit. Ólafur Adolfsson, Apóteki Vesturlands, flutti framsögu þar sem hann fór yfir gjaldtöku Lyfjastofnunar vegna eftirlits eins og hún blasir við honum. Páll Rúnar Kristjánsson, lögmaður FA, fór yfir lagalegan grunn gjaldtöku eftirlitsstofnana og benti á að of algengt væri að stjórnvöld tryggðu fjármögnun eftirlitsverkefna með skattheimtu í stað þess að innheimta gjöld fyrir það eftirlit sem raunverulega er veitt. Almar Guðmundsson, framkvæmdastjóri FA, fór m.a. yfir skýrslur Ríkisendurskoðunar sem hafa skapað jákvætt aðhald með starfsemi ýmissa eftirlitsstofnana, nú síðast Matvælastofnunar. Þá nefndi hann að félagið þyrfti stöðugt að vinna í málum sem varðar áherslur ýmissa eftirlitsaðila, en á tíðum eru kröfurnar fremur bókstaflegar og taka ekki nægilegt tillit til kostnaðaráhrifa og sambærilegra hluta.

 

Fundurinn er hluti af Falda aflinu, en aðgerð 10 í átakinu gengur einmitt út á það að gjaldtaka vegna eftirlits sé gagnsæ og tryggt sé að sú þjónusta sem greitt er fyrir sé veitt. FA mun halda áfram að vinna málinu brautargengi, en ljóst er að áhersla stjórnvalda á einfaldara regluverk á vel við í þessu samhengi. Það er mjög jákvætt að nokkur ráðuneyti og stofnanir þeirra eru þegar farin að vinna með hagsmunasamtökum að því að greina möguleika á einfaldari verkferlum.  FA vill að eftirlit sé skýrt og verkferlar einfaldir þannig að fyrirtæki eigi auðvelt með að bæta sína starfsemi samkvæmt kröfum eftirlitsaðila.

Nýjar fréttir

Innskráning