Góðir verkferlar eru vörn gegn netsvikum

10.09.2019
Guðný Hjaltadóttir

Guðný Hjaltadóttir, lögfræðingur Félags atvinnurekenda, segir í Fréttablaðinu í dag að besta vörn fyrirtækja gegn netsvikum eins og þeim sem HS orka varð fyrir barðinu á og sagt var frá í gær, sé að yfirfara rækilega verkferla við útgreiðslu fjármuna.

„Þetta er gríðarlega viðkvæmt mál fyrir fyrirtæki og ekki síður starfsfólk. Fyrirtækin óttast að orðspor þeirra beri hnekki ef í ljós kemur að þau hafi fallið í slíka gildru. Þá getur maður rétt ímyndað sér hvernig það er fyrir starfsmenn sem láta glepjast af slíkum svikum að mæta til vinnu og horfast í augu við vinnuveitendur sína,“ segir Guðný í Fréttablaðinu. „Okkar tilfinning er að tíðni slíkra svikatilrauna færist sífellt í vöxt og margir aðilar sem hafa fallið í gryfjuna. Þetta eru ekki bara fyrirtæki heldur einnig stofnanir, samtök og íþróttafélög.“

Veldur vandræðum í samskiptum við birgja
Hún segist hafa heyrt af nokkrum mismunandi birtingarmyndum slíkra glæpa. „Ég veit um dæmi hjá íslensku fyrirtæki þar sem tölvuþrjótar komust inn í fyrri samskiptasögu við birgi. Síðan kom beiðni um að greiða umsamda upphæð inn á nýjan reikning og það var gert í góðri trú. Síðar kom þjófnaðurinn í ljós og það skapaði einnig alls konar vandamál í samskiptum við birginn sem fyrirtækið taldi sig hafa gert upp við,“ segir Guðný. Önnur tegund eru síðan greiðslufyrirmæli sem berast í tölvupósti frá þekktum aðila og fagmannlega unninn reikningur með, sem virðist algjörlega ósvikinn, En þegar betur er að gáð er búið að breyta einum staf í netfangi viðkomandi og því ekki allt sem sýnist.

Guðný segir að lausnin fyrir fyrirtæki sé að yfirfara verkferla sína vandlega við útgreiðslu fjármuna. „Mörg af þessum dæmum sem við hjá FA höfum heyrt af hefði verið hægt að koma í veg fyrir með skýrum verkferlum. Til dæmis að taka upp símann og hringja í viðskiptaaðilann til þess að staðfesta breytingar á reikningi,“ segir Guðný.

Ýmsar varnir í boði
FA hélt í vor fund undir yfirskriftinni „Hvernig geta fyrirtæki varist netglæpum?“ Þar komu fram ýmis góð ráð um það hvernig mætti verjast þessari skipulögðu glæpastarfsemi.

Frétt Fréttablaðsins

Nýjar fréttir

Innskráning