Gosskattur mismunar atvinnugreinum og byggist á röngum gögnum

09.05.2018

Félag atvinnurekenda hefur sent Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra og Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra samhljóða bréf vegna umræðna á ríkisstjórnarfundi í gær um tillögur Landlæknisembættisins um stóraukna skatta á gosdrykki til að draga úr sykurneyslu.

Í bréfinu er meðal annars rakið að skattlagning á gosdrykki eina og sér fæli í sér mismunun gagnvart vörum og atvinnugreinum, enda margar aðrar drykkjar- og matvörur sem innihalda sykur. Þá bendir FA á að tölur Landlæknisembættisins um hlutfall sykurneyslu landsmanna sem rekja má til gosdrykkja séu rangar og geti ekki verið grundvöllur ákvarðana um nýja skatta. Texti bréfsins, sem Ólafur Stephensen framkvæmdastjóri FA ritar, fer hér á eftir.

Áform heilbrigðisráðherra um hækkun skatta á gosdrykki

 Vísað er til fréttar sem birtist á vef velferðarráðuneytisins í gær, þess efnis að heilbrigðisráðherra hafi rætt á fundi ríkisstjórnarinnar tillögur Landlæknisembættisins um gífurlega hækkun skatta á gosdrykki. Samkvæmt fréttinni eru tillögurnar eftirfarandi:

  • Stjórnvöld „hækki álögur á gosdrykki þannig að þeir séu skattlagðir í samræmi við almenna skattheimtu í landinu, þ.e. beri 24% virðisaukaskatt í stað 11%. Einnig að lögð séu vörugjöld á gosdrykki þannig að hækkunin á þeim nemi í heildina a.m.k. 20% sem er þá í samræmi við það sem Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) ráðleggur aðildarríkjum.“ Í tillögum landlæknisembættisins er gert ráð fyrir að skattar verði hækkaðir jafnt á gosdrykki með sykri og á drykki með sætuefnum, en vatnsdrykkir verði ekki skattlagðir.
  • Fjármunir sem koma inn séu nýttir til að „lækka álögur á grænmeti og ávexti“.
  • Samhliða slíkri skattlagningu segir Landlæknisembættið „mikilvægt að upplýsa almenning um heilsufarslegan ávinning af minni sykurneyslu. Einnig er mikilvægt að fylgjast með og meta hvaða áhrif skattlagningin hefur á neysluvenjur.“

Félag atvinnurekenda hefur margt við þessar tillögur Landlæknisembættisins að athuga og eru helztu athugasemdir félagsins raktar hér að neðan.

  1. Mismunun gagnvart vörum og atvinnugreinum

Hér er ekki lagt til að lagður verði á almennur sykurskattur, eins og var í gildi á árunum 2013-2014, heldur að gosdrykkir verði teknir sérstaklega fyrir. Engar skýringar eru gefnar á þessu í tillögum landlæknis. Fyrir liggur að margar aðrar drykkjar- og matvörur eru ekki síðri uppspretta sykurs en gosdrykkir. Þannig eru u.þ.b. 33 grömm af sykri í 330 ml dós af algengum gosdrykk, en 44 grömm í dós af Hrísmjólk frá Mjólkursamsölunni. Verði þessar tillögur að veruleika munu þær skekkja verulega samkeppnisstöðu einstakra fyrirtækja og atvinnugreina.

  1. Snúið af braut einföldunar skattkerfisins

Næðu tillögur Landlæknisembættisins fram að ganga, væri snúið aftur af þeirri braut í átt til einföldunar skattkerfisins, sem fetuð hefur verið undanfarin ár með niðurfellingu vörugjalda og minni mun á milli skattþrepa virðisaukaskatts. Virðisaukaskattur á mat- og drykkjarvöru yrði í tveimur eða fleiri þrepum og auk þess bætt við vörugjaldi á gosdrykki á nýjan leik. Þetta myndi valda jafnt smásöluverzlunum sem framleiðendum og heildsölum verulegri fyrirhöfn og kostnaði, gera skattlagningu ógegnsærri og hafa af atvinnulífinu það hagræði sem felst í einfaldara skattkerfi.

  1. Neyzla á sykruðu gosi minnkar hratt – án afskipta stjórnvalda

Samkvæmt gögnum frá Markaðsgreiningu/AC Nielsen fyrir síðustu þrjú ár, þ.e. frá ársbyrjun 2015 (við afnám sykurskattsins), hefur markaðshlutdeild sykraðra gosdrykkja lækkað úr 51% í 46%. Hlutfall sykurlausra gosdrykkja, þ.e. með sætuefnum, stendur í stað og er 26%, en hlutdeild kolsýrðra vatnsdrykkja hefur hækkað úr 22% í 28%. Á sama tíma hefur markaðurinn stækkað, þannig að þessar tölur þýða að neyzla á sykruðum gosdrykkjum hefur minnkað um 12% og neyzla ósætra drykkja um 3%, en neyzla á kolsýrðu vatni hefur vaxið um 34%. Þessi gögn eru byggð á upplýsingum úr kassakerfum um 95% smásöluverzlana á Íslandi.

Með öðrum orðum þróast gosdrykkjamarkaðurinn hratt í átt til neyzlu ósykraðra vatnsdrykkja, og það alveg án sérstakra skatta eða aðgerða stjórnvalda. Framleiðendur bregðast einfaldlega við breyttum kröfum neytenda. Ýmsir stærstu gosdrykkjaframleiðendur heims, til dæmis bæði Coca Cola og Pepsi, hafa þannig sett sér markmið um að minnka verulega notkun á sykri í vörum sínum á næstu árum. Samtök gosdrykkjaframleiðenda í Evrópusambandinu, UNESDA, hafa skuldbundið sig einhliða til að draga úr notkun sykurs um 10% fram til ársins 2020.

Sú spurning vaknar óneitanlega hvernig Landlæknisembættið hyggst meta áhrif skattlagningarinnar á neyzluvenjur, komist hún til framkvæmda. Ætla embættismenn að þakka skattheimtunni þá þróun sem þegar er hafin og er á Íslandi mun hraðari en í ýmsum löndum þar sem lagður hefur verið á sykurskattur?

  1. Ályktað út frá röngum gögnum

Í tillögum landlæknis er gengið út frá því að um þriðjungur af viðbættum sykri í mataræði landsmanna komi úr gosdrykkjum. Jafnframt er því haldið fram að neyzla Íslendinga á sykruðum gosdrykkjum sé meiri en annarra norrænna þjóða. Hvort tveggja eru hæpnar fullyrðingar. Landlæknisembættið virðist byggja á gögnum Hagstofunnar um gosdrykkjaneyzlu, sem ekki eru sundurliðuð í sykraða og ósæta drykki, þ.m.t. kolsýrða vatnsdrykki, og álykta út frá þeim um neyzlu á sykruðu gosi. Þessi gögn eru ekki sambærileg við þau gögn um neyzlu sykraðs goss sem önnur norræn ríki nota, auk þess sem þau eru að hluta til orðin 7-8 ára gömul. Samkvæmt ofangreindum tölum Markaðsgreiningar/AC Nielsen kemur innan við fimmtungur sykurneyzlu Íslendinga úr gosdrykkjum.

Mikilvægt er að ákvarðanir eins og þær sem Landlæknisembættið leggur til séu ekki teknar á grundvelli rangra gagna. Því miður hefur embættið ekki sinnt óskum framleiðenda og innflytjenda gosdrykkja um samtal um það hvernig megi tryggja að þau gögn, sem embættið byggir tillögur sínar á, séu rétt.

  1. Síðasta tilraun mistókst

Óhætt er að segja að síðasta tilraun til að stýra sykurneyzlu Íslendinga með sköttum hafi mistekizt. Þegar sykurskattur var lagður á hér á landi á árunum 2013 og 2014 hafði hann lítil sem engin áhrif á neyzlu á sykruðum vörum. Gert hafði verið ráð fyrir að neyzla myndi dragast saman, en í ljósi þess að hún gerði það ekki, skilaði skatturinn meiri tekjum en áætlað var og varð fyrst og fremst tekjuöflunartæki fyrir ríkissjóð, samkvæmt niðurstöðum skýrslu Rannsóknaseturs verslunarinnar sem út kom í apríl 2015. Niðurstöður rannsókna á áhrifum sykurskatts í ríkjum þar sem hann hefur verið lagður á eru mjög misvísandi, svo ekki sé meira sagt.

  1. Var sykurinn þá ekki vandamálið?

Sú tillaga landlæknis að leggja skatt jafnt á ósykrað gos og gos með sætuefnum vekur furðu, í ljósi þess að embættið vitnar til sykurneyzlu Íslendinga sem þess vandamáls sem eigi að leysa með gosskattinum. Vandséð er að þeir sem drekka sykraða gosdrykki hafi nokkurn hvata til að skipta yfir í ósykruðu útgáfuna, verði skattlagningin með þessum hætti.

  1. Er það sykurinn sem slíkur sem er sökudólgurinn?

Aukin tíðni lífsstílstengdra sjúkdóma á borð við offitu og sykursýki er gjarnan tengd við mikla sykurneyzlu. Það er þróun sem átt hefur sér stað síðustu ár, á sama tíma og sykurneyzla á mann á Íslandi hefur minnkað úr um 53 kílóum á mann á árunum rétt fyrir aldamótin í tæplega 42 kíló árið 2014, samkvæmt gögnum Landlæknisembættisins sjálfs. Það er því augljóst að orsakasamhengið á milli sykurneyzlu og lífsstílssjúkdóma er flókið og engin töfralausn að skattleggja gosdrykki – jafnvel þótt sú aðgerð myndi stuðla að minni sykurneyzlu, sem er hæpið eins og áður segir.

  1. Óútfærðar tillögur um minni álögur á grænmeti og ávexti

Landlæknisembættið hefur sent frá sér nákvæmlega útfærðar tillögur um hvernig eigi að hækka skatta á gosdrykki. Hugmyndir embættisins um að nota þá fjármuni sem koma inn til að „lækka álögur á grænmeti og ávexti“ eru hins vegar óljósar og óútfærðar. Tollar eru á fáum tegundum grænmetis og vörugjöld engin, en 11% virðisaukaskattur er lagður á grænmeti eins og aðra matvöru. Með lækkun hans yrði enn aukið á flækjustigið í rekstri verzlunarinnar og virðisaukaskattþrepin í matvöru þá orðin þrjú.

  1. Neyzlustýring með sköttum – hvað kemur næst?

Félag atvinnurekenda geldur almennt varhug við hugmyndum um að stýra neyzlu fólks með sköttum. Enginn hörgull er á matvörum sem eru óhollar, sé þeirra neytt í óhófi. Ef gosskattur verður lagður á, hvað kemur þá næst? Skattur á kaffi eða feitt kjöt? FA telur affarasælla að skattlagning sé einföld og gegnsæ, en að stjórnvöld hafi áhrif á neyzluvenjur og vitund almennings um holla lífshætti með fræðslu og upplýsingum. Umræðan um skaðsemi óhóflegrar sykurneyzlu hefur nú þegar haft veruleg áhrif á neyzluhætti landsmanna, eins og ofangreindar tölur sýna.

Félag atvinnurekenda er að sjálfsögðu reiðubúið að ræða þessi mál frekar við ráðherra og koma á framfæri frekari upplýsingum ef óskað er.

Nýjar fréttir

21. desember 2024
21. desember 2024

Innskráning