Greiða götu vörudreifingar í miðborginni

06.02.2020
Kort af vörulosunarstæðum og göngugötum í miðborginni. Smelltu á myndina til að stækka hana.

Reykjavíkurborg hefur greitt fyrir vörudreifingu til veitingastaða, hótela og verslana í miðborginni með því að sérmerkja níu stæði sérstaklega fyrir vörulosun. Þetta er árangur tæplega tveggja ára starfs, sem hófst í mars 2018 með því að Félag atvinnurekenda og Klúbbur matreiðslumeistara sendu borginni erindi og óskuðu eftir samtali um lausnir á vaxandi vandkvæðum við vörudreifingu í miðborginni. Þeim óskum var vel tekið og hafa allnokkrir samráðsfundir hafa síðan farið fram. Fleiri samtök fyrirtækja hafa bæst í hópinn, til dæmis Samtök ferðaþjónustunnar og Samtök verslunar og þjónustu, auk fulltrúa einstakra fyrirtækja í veitinga- og gistiþjónustu og vörudreifingu.

Reykjavíkurborg hefur ennfremur opnað sérstaka síðu á vef borgarinnar, þar sem veittar eru upplýsingar um vörulosun og -lestun, í þeim tilgangi að vörulosun gangi sem best fyrir sig og núningur við aðra umferð verði lágmarkaður. Þar er ennfremur birt kort sem sýnir staðsetningu sérmerktu stæðanna, auk göngugatna.

Skipulags- og samgönguráð borgarinnar samþykkti í gær að gera hluta Laugavegs, Skólavörðustígs og Vegamótastígs að varanlegum göngugötum. Það mun væntanlega einnig greiða fyrir vörudreifingu, því að í göngugötum er ekki önnur umferð heimil en vegna vörudreifingar á milli kl. 7 og 11 og morgnana og svo neyðarumferð og akstur fatlaðra.

Losunarstæði á Hverfisgötu við Smiðjustíg. Hér hefur illu heilli verið lagt ólöglega í stæðið.

Vandamál að aðrir leggja í vörulosunarstæðin
Sá böggull fylgir þó skammrifi að talsvert er um að einkabílum sé lagt ólöglega í vörudreifingarstæðin, en við því liggur 10.000 króna sekt. Á næstunni þarf því að gera gangskör að því að kynna stæðin og merkingar þeirra, en það er meðal annars mikilvægt öryggismál að vörudreifing í miðborginni gangi sem greiðast fyrir sig og vörubifreiðar séu ekki fyrir annarri umferð, hvort heldur er akandi, gangandi eða hjólandi.

„Við höfum átt í miklum vandræðum með vöruafhendingu í miðbæ Reykjavíkur til margra ára en með góðu samráði Reykjavíkurborgar við hagsmunaaðila eins og okkur þá sjáum við fram á betri tíma,“ segir Gunnlaugur Einar Briem, framkvæmdastjóri vörustjórnunarsviðs Ölgerðarinnar, sem er eitt þeirra aðildarfyrirtækja FA sem hafa lagt mikið af mörkum í vinnunni með borginni. „Reykjavíkurborg hefur útbúð sérstök losunarstæði fyrir vörulosun og er þetta skref í rétta átt til að laga það ófremdarástand sem hefur ríkt á þessu svæði þar sem okkar bílstjórar hafa þurft að leggja á stöðum sem eru hvorki öruggir okkur né öðrum vegfarendum. Vandamálið sem við stöndum hins vegar frammi fyrir núna er að almenningur er að leggja í þessi stæði þrátt fyrir merkingar um bann við því.“

Vörulosun í Austurstræti. Fjölgun göngugatna greiðir fyrir vörudreifingu, þar sem ekki er önnur umferð heimil þar, fyrir utan neyðarumferð og akstur fatlaðra.

Hagur allra að dreifing gangi sem greiðast fyrir sig
„Það eru hagsmunir allra að vörudreifing í miðbænum gangi sem greiðast fyrir sig,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda. „Það eru að sjálfsögðu hagsmunir fyrirtækjanna sem um ræðir að viðskiptin gangi sem greiðast, það er hagur þeirra sem kaupa veitingar eða vörur í miðbænum að vörurnar séu alltaf til og það eru hagsmunir annarra vegfarenda að vörudreifingin hafi sitt sérstaka pláss og sé ekki fyrir annarri umferð. Það hefur tekið tíma að koma þessum breytingum í gagnið, en við erum mjög ánægð með þann árangur sem nú hefur náðst.“

Næstu skref í þessari vinnu eru m.a. að funda með fyrirtækjum sem í hlut eiga um leiðir til að fækka þeim tilvikum sem vörudreifing til fyrirtækja í miðbænum þarf að eiga sér stað utan tímarammans kl. 7-11, en það er eini tíminn sem vörudreifing er heimil. Meðal annars þarf að finna lausnir á þeim vanda að starfsfólk sumra veitingastaða er ekki mætt til vinnu fyrr en um tíuleytið eða síðar, sem þýðir að birgjar hafa afskaplega skamman tíma til að þjónusta þá.

Upplýsingar um vörulosun á vef Reykjavíkurborgar

Nýjar fréttir

21. desember 2024
21. desember 2024

Innskráning