„Menn þurfa að þvælast á milli stofnana og fá vottorð frá þessum til að fá vottorð frá hinum. Það hefur ekki verið horft heildstætt á myndina,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, í viðtali við mbl.is. Ólafur bendir á að þungt geti verið í vöfum að stofna lítið fyrirtæki vegna íþyngjandi kvaða í lögum og reglugerðum. „Við erum almennt fylgjandi því að litlum og meðalstórum fyrirækjum sé gert lífið heldur auðveldara,“ segir hann.
Ólafur bendir á að í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar séu fyrirheit um að endurskoða regluverk atvinnulífsins, með það að markmiði að auka skilvirkni og samkeppni og lækka kostnað. Enn hafi hins vegar ekki einni reglugerð eða lagabókstaf verið breytt í framhaldi af þessari stefnumörkun. Frumvarp forsætisráðherra um aðgerðir til að draga úr reglubyrði atvinnulífsins hafi dagað uppi á síðasta þingi.
„Okkur finnst að það mætti gjarnan veita þessu málefni meiri athygli og lýsum eftir því að áformin í stjórnarsáttmálanum verði látin fram ganga. Að það verði raunverulega eitthvað gert til þess að létta fyrirtækjum lífið,“ segir Ólafur á mbl.is. „Öll grisjun í þessum reglugerðarfrumskógi myndi að sjálfsögðu gera mönnum auðveldara fyrir að hefja rekstur og þar með auka framleiðni, nýsköpun og líklega hagvöxt.“