Gróðapinnar

01.05.2024

„Endahnútur“ Ólafs Stephensen framkvæmdastjóra FA í Viðskiptablaðinu 1. maí 2024.

Alþingi samþykkti á dögunum lög um víðtækar undanþágur kjötafurðastöðva frá samkeppnislögum. Samráð um verðlagningu og samstarf, þar á meðal um að skipta með sér markaðnum, sem væri ólöglegt og jafnvel refsivert í öðrum atvinnugreinum, verður heimilt. Kjötafurðastöðvar munu geta sameinazt án eftirlits samkeppnisyfirvalda og án þess að þau geti sett skilyrði sem eiga að tryggja hagsmuni bænda og neytenda, eins og gert var t.d. þegar Kjarnafæði og Norðlenska sameinuðust ekki alls fyrir löngu.

Meirihluti atvinnuveganefndar Alþingis lagði til þessar víðtæku undanþágur, meðal annars með þeim rökum að rekstur fyrirtækjanna, sem undanþágan tekur til, væri svo erfiður.

Eitt þeirra er Kaupfélag Skagfirðinga. Það birti í vikunni tölur um rekstrarafkomu síðasta árs. Kaupfélagið hefur árum saman verið rekið með milljarða hagnaði og á síðasta ári var hann 5,5 milljarðar króna. Eigin fé KS nálgast 60 milljarða króna. Augljóslega þurfti þessi rekstur undanþágu frá samkeppnislögum – eða hvað?

Lítið hefur farið fyrir útskýringum kaupfélagsins á því hvernig góður rekstur skilar sér til „eigenda“ félagsins í Skagafirði, þar með talinna bænda, eða neytenda. Á undanförnum árum hefur hagnaðurinn meðal annars verið fjárfestur í skyndibitastöðum í Reykjavík og fleiri gæluverkefnum stjórnenda félagsins.

Í nýju lögin vantar allar tryggingar fyrir því að stórfyrirtækin, sem nú hafa fengið víðtæka undanþágu frá samkeppnislögum, láti bændur og neytendur njóta þeirrar hagræðingar, sem þau stefna að. Um það hefur nýr formaður Bændasamtakanna sagt að hann hafi „bara ofboðslega mikla trú á því“ að það verði gert.

Verðum við ekki bara að vera með honum í því og hafa „ofboðslega mikla trú á“ að hagræðingin skili sér á rétta staði, frekar en að hún verði nýtt til að skjóta traustari stoðum undir rekstur Gleðipinna?

Nýjar fréttir

Innskráning