Gróf gullhúðun

25.05.2023

„Endahnútur“ Ólafs Stephensen, framkvæmdastjóra FA, í Viðskiptablaðinu 26. maí 2023.

Gullhúðun er það kallað þegar embættis- og stjórnmálamenn nota tækifærið við innleiðingu Evrópulöggjafar og bæta við hana alls konar innlendum sérreglum. Félag atvinnurekenda hefur barizt gegn slíkum vinnubrögðum því að þau þyngja reglubyrði fyrirtækja, sem er ærin fyrir.

Sú barátta hefur m.a. skilað því að ríkisstjórnin hefur sett sér reglur um innleiðingu Evrópulöggjafar. Síðast voru þær endurnýjaðar í febrúar. Þar er kveðið á um að í innleiðingarfrumvörpum skuli taka fram í greinargerð hvaða leiðir hafi verið færar til innleiðingar á viðkomandi EES-reglum og hvers vegna sú leið sem lögð er til hafi orðið fyrir valinu. Sömuleiðis skulu innleiðingarfrumvörp „aðeins fela í sér þær breytingar sem nauðsynlegar eru til að endurspegla þá EES-skuldbindingu sem við á.“ Varði frumvarpið fleiri atriði en eru í Evrópureglunum skal tilgreina sérstaklega hvaða greinar þess eru til innleiðingar og rökstyðja hvers vegna talið var nauðsynlegt að víkja frá meginreglum um hrein innleiðingarfrumvörp.

Þetta er nú aldeilis gott og blessað. Vandinn er bara að embættismenn ráðuneytanna fara ekki eftir reglunum. Í marz, rétt rúmum mánuði eftir að ríkisstjórnin samþykkti þær, lagði heilbrigðisráðherra fram frumvarp sem kveður á um aðgang Lyfjastofnunar að birgðastöðu lyfja og lækningatækja hjá einkafyrirtækjum. Látið er í það skína að frumvarpið sé innleiðing á EES-reglugerð en þegar málið er skoðað, felur það í sér rauntímaaðgang Lyfjastofnunar að birgðaupplýsingum, að smíðað skuli tölvukerfi sem á að kosta 500 milljónir króna, og að stofnunin hafi aðgang að upplýsingum um birgðir um 5.000 vörunúmera. Í EES-gerðinni er ekkert um rauntímaaðgang, engin krafa um tölvukerfi lyfjastofnana aðildarríkjanna og látið nægja að hafa eftirlit með neyðarlyfjalista sem nú inniheldur 17 lyf!

Þetta er eitt grófasta dæmið um gullhúðun en þau eru miklu fleiri. Ríkisstjórnin þarf að fara eftir eigin reglum og hætta svona vinnubrögðum.

Nýjar fréttir

21. desember 2024
21. desember 2024

Innskráning