Guðmundur Hrafn nýr formaður SÍA

22.03.2019
Ný stjórn SÍA. Frá vinstri: Dóra Kristín Briem, Guðmundur Hrafn Pálsson og Bragi Valdimar Skúlason.

Guðmundur Hrafn Pálsson, framkvæmdastjóri Pipars/TBWA, var kjörinn formaður Sambands íslenskra auglýsingastofa (SÍA) á 40. aðalfundi sambandsins í gær. Ásamt honum voru kjörin í stjórn SÍA þau Bragi Valdimar Skúlason frá Brandenburg og Dóra Kristín Briem frá Íslensku auglýsingastofunni. Varamaður í stjórn er Hans Orri Kristjánsson frá Jónsson & Le’macks.

Aðalfundurinn var haldinn í húsakynnum Félags atvinnurekenda, en SÍA er aðildarfélag FA.

Miðar í rétta átt í jafnréttismálum
Elín Helga Sveinbjörnsdóttir, fráfarandi formaður SÍA, rifjaði á fundinum upp að 40 ár væru um þessar mundir frá fyrsta aðalfundi sambandsins, sem stofnað var árið 1978. Hún sagði ennfremur frá könnun um kynjajafnvægi í auglýsingageiranum, sem kynnt var á félagsfundi SÍA fyrr í mánuðinum. Könnun frá 2016 var endurtekin, en þá voru bæði framkvæmdastjórar SÍA-stofanna og markaðsstjórar í viðskiptum við stofurnar spurðir í spurningakönnun.

Í stuttu máli var niðurstaðan sú að konum hefur fjölgað í stjórnendastöðum og allar SÍA-stofurnar, sem svöruðu könnuninni, eru með markmið um að jafna kynjahlutföll. Þegar markaðsstjórar eru spurðir um stöðu jafnréttismála meðal SÍA-stofanna telja fleiri stöðuna betri nú en áður. „Það var áhugavert hve mikill munur er á viðhorfum kven-markaðsstjóra og karl-markaðssstjóra til kynjajafnvægis. Niðurstaðan er að bransinn hefur sýnt framfarir en verkefninu er hvergi nærri lokið,“ sagði Elín.

Frétt Morgunblaðsins 28. apríl 1979 af fyrsta aðalfundi SÍA.

Á aðalfundinum var Halldórs Guðmundssonar, fyrsta formanns SÍA, minnst, en hann lést í lok síðasta árs.

 

 

Nýjar fréttir

Innskráning