Guðrún Ragna kjörin formaður FA

11.02.2021

Guðrún Ragna Garðarsdóttir, framkvæmdastjóri Atlantsolíu, var kjörin formaður Félags atvinnurekenda á aðalfundi félagsins í dag. Magnús Óli Ólafsson, forstjóri Innness, lét af formennsku eftir fjögur ár í stóli formanns.

Guðrún hefur setið í stjórn Félags atvinnurekenda undanfarin tvö ár. Hún hefur verið framkvæmdastjóri Atlantsolíu frá árinu 2008. Áður var hún aðstoðarfjármálastjóri fyrirtækisins. Guðrún starfaði þar á undan sem fjármálastjóri Heildverslunar Ásgeirs Sigurðssonar. Guðrún Ragna er með mastersgráðu í fjármálum frá EADA í Barcelona á Spáni, MBA frá Háskóla Íslands og er viðskiptafræðingur frá HÍ. Hún er gift og á þrjú börn.

„Ég þakka félagsmönnum traustið og hlakka til að taka enn virkari þátt í starfi Félags atvinnurekenda,“ segir Guðrún Ragna. „FA vill veita aðildarfyrirtækjunum góða þjónustu og berst mikilvægri baráttu fyrir virkri samkeppni og hagstæðu rekstrarumhverfi fyrirtækja. Félagið gegnir líka mikilvægu hlutverki við að halda á lofti málstað minni og meðalstórra fyrirtækja.“

Tveir nýir stjórnarmenn voru kjörnir á aðalfundinum.

Leifur Örn Leifsson, framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs Innness, var kjörinn meðstjórnandi til eins árs.

Leifur á að baki langan feril í stjórnunarstörfum í fjölbreytilegum fyrirtækjum. Hann hefur gegnt núverandi starfi hjá Innnesi frá 2010 en var áður framkvæmdastjóri hjá Bílaumboðinu Öskju og þar áður hjá ísframleiðandanum Emmessís. Hann var framkvæmdastjóri sölu- og dreifingarsviðs Mjólkursamsölunnar og þar á undan framkvæmdastjóri Nýju sendibílastöðvarinnar. Hann er með MBA í alþjóðaviðskiptum frá Johnson & Wales University í Rhode Island í Bandaríkjunum. Leifur er giftur, á tvö uppkomin börn og er nýorðinn afi í fyrsta sinn.

Lilja Dögg Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri LYFIS/apótekasviðs Icepharma, var kjörin meðstjórnandi til tveggja ára.

Hún hefur víðtæka stjórnunarreynslu úr lyfjageiranum, bæði hér á Íslandi sem og erlendis. Hún hefur gegnt núverandi starfi frá 2017.  Þar á undan var hún framkvæmdastjóri líftæknifyrirtækisins  SagaMedica og markaðsstjóri Pfizer á Íslandi. Lilja vann í rúm 10 ár hjá Actavis þar sem hún gegndi ýmsum störfum, svo sem við sölu, fjármálagreiningar, sem markaðsstjóri Actavis á Íslandi og forstöðumaður markaðssviðs Actavis í Miðausturlöndum, Afríku og Asíu, staðsett í höfuðsstöðvum Actavis í Sviss. Lilja er lyfjafræðingur frá Háskóla Íslands og með MBA  frá Háskólanum í Reykjavík. Hún er gift og á tvo syni.

Auk nýju stjórnarmannanna var Friðrik Ingi Friðriksson, eigandi og forstjóri í Aflvélum, Burstagerðinni og Spodriba, endurkjörinn meðstjórnandi til tveggja ára. Áfram sitja í stjórn, kjörin til tveggja ára á aðalfundi 2020, þau Anna Kristín Kristjánsdóttir, stjórnarmaður og eigandi í Hvíta húsinu, og Guðmundur R. Sigtryggsson, framkvæmdastjóri XCO.

Úr stjórn gekk, auk Magnúsar Óla sem setið hefur í stjórn í sjö ár, Bjarni Ákason, eigandi og framkvæmdastjóri Bako-Ísberg, eftir átta ára stjórnarsetu. Þeim eru færðar bestu þakkir fyrir starf í þágu félagsins.

Upplýsingar um stjórn FA

Nýjar fréttir

13. júní 2024

Innskráning