Gullhúðun á ábyrgð stjórnmálamanna

05.06.2024

Grein Ólafs Stephensen, framkvæmdastjóra FA, í Viðskiptamogganum 6. júní 2024.

Svokölluð gullhúðun Evrópureglna hefur verið ein helzta uppspretta íþyngjandi regluverks atvinnulífsins undanfarin ár. Gullhúðun felur það í sér að við löggjöf Evrópusambandsins, sem tekin er upp í íslenzkan rétt samkvæmt EES-samningnum, er bætt ýmsum íþyngjandi séríslenzkum reglum, sem Evrópulöggjöfin gerir engar kröfur um.

Ýmis samtök í atvinnulífinu hafa árum saman gagnrýnt þessa tilhneigingu til að heimasmíða allsendis óþarfar hindranir fyrir fyrirtækin í landinu. Í þeim hópi eru Félag atvinnurekenda og Íslensk-evrópska verslunarráðið, en þau samtök héldu fund í síðustu viku um það hvernig megi stöðva gullhúðun Evrópureglna.

Þar var aðalfyrirlesari Margrét Einarsdóttir, lagaprófessor við HÍ. Hún gerði úttekt á gullhúðun EES-innleiðingarfrumvarpa á málefnasviði umhverfis-, auðlinda- og loftslagsráðuneytisins og hefur setið í starfshópi utanríkisráðherra um aðgerðir gegn gullhúðun. Niðurstaðan úr úttekt Margrétar var að 40% innleiðingarfrumvarpa innihéldu séríslenzkar reglur til viðbótar við EES-reglurnar. Oft og iðulega var ekkert í greinargerð frumvarpanna sem vakti athygli á þessu og rökstuðningur fyrir viðbótunum var ræfilslegur, þótt árum saman hafi verið í gildi reglur um að segja eigi skýrt og skilmerkilega frá því í innleiðingarfrumvörpum ef ætlunin er að gera meiri kröfur en EES-reglurnar áskilja og rökstyðja frávikin. Þannig hafa bæði alþingismenn og hagsmunaaðilar átt í mesta basli með að koma í fljótu bragði auga á gullhúðunina og hún flýtur iðulega athugasemdalaust í gegnum þingið.

Vandamálið er augljóslega að embættismenn í ráðuneytum og undirstofnunum þeirra leika lausum hala við samningu innleiðingarfrumvarpa og bæta við þau ýmsum kvöðum sem þeim finnst persónulega sniðugar. Þó er það auðvitað svo, eins og Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, benti á í pallborðsumræðum á fundinum, að ráðherrar bera ábyrgð á því sem frá ráðuneytum þeirra kemur til þingsins. Að mati þess sem hér skrifar er stóra vandamálið í þessu efni skortur á pólitískri forystu. Ríkisstjórnir og einstakir ráðherrar þurfa að gera embættismannaskaranum, sem starfar í þeirra umboði, skýrt til kynna að þessi reglusetningargleði sé einfaldlega ekki í boði og að það hafi afleiðingar ef hún sé ástunduð.

Páll Rúnar M. Kristjánsson, formaður Íslensk-evrópska verslunarráðsins, benti á það á fundinum að gullhúðun væri ekki séríslenzkt vandamál, en kæmi engu að síður harðar niður á íslenzkum fyrirtækjum en keppinautum þeirra í flestum EES-ríkjum vegna smæðarinnar. Verið væri að færa stærðarmörk íþyngjandi krafna neðar hér á landi til þess að kröfurnar næðu til stærri hluta íslenzkra fyrirtækja. „Ég skil embættismanninn sem er að skrifa upp reglurnar og áttar sig á að það sé rosalega kjánalegt að bara tvö fyrirtæki á Íslandi falli undir stærðarkröfur um einhver endurskoðunarskilyrði eða eitthvað slíkt og ætlar að vera rosalega flottur á því og lækka mörkin þannig að þetta sé nú eitthvað ofan á brauð. Staðreyndin er hins vegar sú að þá eru þessi fyrirtæki farin að sæta öðrum og lakari rétti en þau sem þau keppa við á alþjóðlegum vettvangi,“ sagði Páll.

Hann benti á aðra afleiðingu gullhúðunarinnar; hún kemur að ósekju óorði á EES-samninginn, sem er sá milliríkjasamningur, sem er íslenzku atvinnulífi mikilvægastur og hefur haft í för með sér mesta réttarbót íslenzkra fyrirtækja, ekki sízt þeirra minni og meðalstóru.

Starfshópur utanríkisráðherra hyggst gera að tillögu sinni að bæði þingmönnum og hagsmunaaðilum verði gerð grein fyrir því strax á upphafsstigum frumvarpssmíðar, ef ætlunin er að bæta einhverju við Evrópureglurnar. Jafnframt verði sérstakur kafli í innleiðingarfrumvörpum, þar sem gerð verði grein fyrir gullhúðun og hún rökstudd ef hún þykir nauðsynleg. Loks mun hópurinn leggja til að hvert ráðuneyti fyrir sig kortleggi gullhúðun á sínu málefnasviði og fari í „afhúðun“, þ.e. vindi ofan af íþyngjandi reglum ef ástæða sé til. Það er alveg áreiðanlega ástæða til þess. Og rétt eins og pólitíska forystu þarf til að hindra gullhúðun þurfa stjórnmálamennirnir að taka forystuna ef á að takast að vinda ofan af henni.

Nýjar fréttir

Innskráning