Hærri flutningskostnaður vegna kílómetragjalds gæti hækkað vöruverð

21.10.2024

Félag atvinnurekenda bendir á að áform stjórnvalda um hækkun kílómetragjalds á stærri bifreiðar geti valdið hækkun rekstrarkostnaðar vörudreifingarbifreiða og þar með hækkað flutningskostnað, sem skili sér í hærra vöruverði og meiri verðbólgu. Í umsögn um drög að frumvarpi um kílómetragjald á öll ökutæki bendir FA jafnframt á að með þeirri útfærslu sem fram kemur í drögunum væri mjög dregið úr hvata til orkuskipta í vöruflutningum.

Í umsögn sinni til fjármála- og efnahagsráðuneytisins lýsir FA skilningi á því að stjórnvöld vilji skjóta sterkari stoðum undir fjármögnun samgönguinnviða með því að færa gjaldtöku af ökutækjum úr eldsneytissköttum yfir í gjöld sem taka mið af akstri ökutækja og sliti á vegakerfinu. „FA fær hins vegar ekki betur séð en að ákvæði frumvarpsdraga þessara vinni gegn a.m.k. tveimur markmiðum stjórnvalda. Annars vegar er þar um að ræða það meginmarkmið fjárlagafrumvarpsins að draga úr verðbólgu. Hins vegar eru það markmið stjórnvalda, sem m.a. koma fram í drögum að aðgerðaáætlun í loftslagsmálum, um að hraða orkuskiptum í vöruflutningum,“ segir í umsögn félagsins.

Dregur úr hvata til orkuskipta
FA bendir á að þróunin í orkuskiptum varðandi stærri flutningabifreiðar hafi verið hægari en varðandi minni bíla, enda þurfi fyrirtæki bæði að greiða mun hærra verð fyrir flutningabílana en hefðbundnar dísilbifreiðar (algengt er að rafmagnsbíll kosti 2,5 til þrisvar sinnum meira) og fjárfesta í dýrum hleðsluinnviðum. „Sá hvati sem fyrirtækin hafa til að skipta yfir í rafmagsnbíla hefur fyrst og fremst verið lægri rekstrarkostnaður. Með þeirri breytingu, sem er lögð til í þessum frumvarpsdrögum, er dregið mjög verulega úr þeim hvata,“ segir í umsögn FA.

Þar er einnig bent á þá staðreynd að þegar kemur að stærri vöruflutningabifreiðum sem hafa nægilega flutningsgetu og drægni til að flytja vörur á milli landshluta í víðfeðmu landi, er rafmagnstæknin miklu skemmra á veg komin en í smærri bifreiðum. „Að skipta yfir í vistvænni bíla er einfaldlega ekki kostur næstu árin hvað varðar stóran hluta vöruflutningabílaflota íslenzks atvinnulífs af því að réttu ökutækin eru enn ekki í boði. Hér ber einnig að gæta að því að rafmagnsverð hefur farið hækkandi undanfarin misseri og boðaðar eru enn frekari hækkanir af hálfu orkufyrirtækjanna. Vetni er að ýmsu leyti nærtækari kostur sem orkugjafi stórra vörubifreiða en þar er eldsneytiskostnaðurinn langtum hærri en fyrir bifreiðar sem nota jarðefnaeldsneyti,“ segir í umsögninni. FA leggur því til hærri afslátt af kílómetragjaldi fyrir stærri bifreiðar en kveðið er á um í frumvarpsdrögunum og að hann taki til lengri tíma.

Rekstrarkostnaður vörudreifingarbifreiða gæti hækkað um 13%
FA telur mat á áhrifum frumvarpsdraganna einkar ófullkomið þegar kemur að áhrifum á rekstrarkostnað stærri ökutækja eins og vöruflutningabifreiða. Tekið er eitt dæmi af dísilvörubifreið, þar sem kerfisbreytingin valdi rúmlega 3% hækkun samanlagðrar gjaldtöku (kílómetragjald og kolefnisgjald) á milli áranna 2024 og 2025. „Þetta passar engan veginn við útreikninga félagsmanna í FA, sem hafa t.d. reiknað út, að gefnum forsendum í frumvarpsdrögunum, að kostnaðaraukinn við rekstur vörubíls með tengivagn, sem ekið er 110.000 km á ári, verði um 13%. Í einhverjum tilvikum hafa enn hærri tölur komið út úr dæmum, sem byggjast á raunverulegum stærðum úr rekstri fyrirtækjanna,“ segir í umsögn FA. „Slíkar kostnaðarhækkanir fyrirtækjanna hafa bein áhrif á flutningskostnað, sem vegur þungt í vöruverði á Íslandi. Hækkanir á flutningskostnaði vinna beint gegn markmiðum fjárlagafrumvarpsins um hjöðnun verðbólgu.“

FA hvetur eindregið til þess að breytingar verði gerðar á ákvæðum frumvarpsdraganna sem tryggi að rekstrarkostnaður vöruflutningabifreiða hækki ekki, þannig að hækkandi flutningskostnaður skapi ekki óþarfan þrýsting á vöruverð.  

Umsögn FA í heild

Nýjar fréttir

Innskráning