Hæsta áfengisverð í Evrópu skýrist af hæstu áfengissköttunum – og enn á að hækka

16.09.2019

Íslenskir fjölmiðlar hafa nýlega fjallað um samanburð Eurostat, hagstofu Evrópusambandsins, á áfengisverði í Evrópu. Samkvæmt þeim samanburði er áfengisverð á Íslandi 168% hærra en meðaltalið í Evrópusambandinu, eða hátt í þrefalt meðalverðið. Eina landið sem kemst nálægt Íslandi hvað áfengisverð varðar er Noregur, en þar er verðið 152% hærra en meðalverðið í ESB. Til samanburðar má nefna að óáfengir drykkir á Íslandi eru 34% dýrari en að meðaltali í ESB.

Á þessum gífurlega verðmun er fyrst og fremst ein skýring; gífurlegir skattar íslenska ríkisins á áfenga drykki. Samkvæmt samanburði Spirits Europe, samtaka evrópskra áfengisframleiðenda, frá því í byrjun þessa árs, eru langhæstu áfengisskattar í Evrópu á Íslandi, eins og myndin sýnir. Í þessum samanburði er notuð einingin evrur á hektólítra hreins vínanda. Áfengisskattur á sterkt vín er þannig meira en tvöfalt hærri en í Finnlandi og Svíþjóð, þar sem áfengisverð er hæst af aðildarríkjum ESB. Áfengisgjald á bjór er þriðjungi hærra en í Finnlandi og meira en tvöfalt hærra en í Svíþjóð. Áfengisskatturinn á léttvín er tæplega tvöfalt hærri en í Finnlandi og nærri þrefalt hærri en í Svíþjóð.

Smelltu á myndina til að stækka hana.

Mörg Evrópuríki leggja raunar ekkert áfengisgjald á léttvín eins og sjá má, heldur aðeins virðisaukaskatt. Þrátt fyrir að virðisaukaskattur á áfengi sé lægri hér (11%) en í flestum Evrópuríkjum, er samanlögð skattlagning á áfengi langsamlega mest hér á landi. Eina undantekningin sem finnst er að samanlagt áfengisgjald og virðisaukaskattur á bjór er hærra í Noregi en hér á landi.

Óáfengir drykkir eru 34% dýrari á Íslandi en að meðaltali í ESB en áfengir 168% dýrari. (Heimild: Eurostat)
Óáfengir drykkir eru 34% dýrari á Íslandi en að meðaltali í ESB en áfengir 168% dýrari. (Heimild: Eurostat) Smelltu á myndina til að stækka hana.

Lagt til að bæta í Evrópumetið
Í fjárlagafrumvarpi ársins 2020, sem nú er til umfjöllunar á Alþingi, er lagt til að bæta enn í Evrópumetið og hækka áfengisgjald um 2,5%. Það þýðir til dæmis að þriggja lítra kassi af 13,5% rauðvíni, sem kostar í dag rétt tæpar 7.000 krónur, hækkar um 119 krónur. Þá er ekki búið að taka tillit til þeirrar hækkunar á álagningu Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins sem boðuð er í fjárlagafrumvarpinu. Enn hefur ekki komið fram hversu mikið álagning ÁTVR verður hækkuð og hefur fjármálaráðuneytið ekki svarað fyrirspurnum Félags atvinnurekenda þar um.

Komin langt fram úr öðrum ríkjum
„Skattlagning á áfengum drykkjum á Íslandi er komin út fyrir öll velsæmismörk,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA. „Við erum komin langt fram úr þeim ríkjum sem leggja hæsta skatta á áfenga drykki undir yfirskini lýðheilsusjónarmiða. Það virðast engin takmörk fyrir því hvað stjórnmálamenn eru tilbúnir að skattpína kaupendur þessarar einu neysluvöru, eins og sífelldar hækkanir áfengisgjaldsins sýna og nú síðast áform um hækkun á álagningu ÁTVR. Vegna þess að áfengisgjaldið er föst krónutala á einingu áfengis, hafa hækkanir á því mest áhrif á ódýrustu tegundirnar og koma þannig harðast niður á þeim sem minnst hafa handa á milli. Þetta er stefna sem bitnar bæði á lífskjörum almennings og ferðaþjónustunni í landinu, enda trúa útlendingar varla sínum eigin augum þegar þeir koma í vínbúð eða á veitingastað og sjá verðið á áfengi. Við höfum talað fyrir daufum eyrum undanfarin ár, en teljum samt ástæðu til að spyrja enn og aftur: Ætlar enginn stjórnmálamaður að segja stopp; að nú sé komið nóg af þessari fáránlegu skattagleði?“

Áfengisskattar í Evrópu – excelskjal

Nýjar fréttir

11. september 2024

Innskráning